Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum. Matteus 5.13-16
(Kristín)
Ég fékk tölvupóst í vikunni, kveðju frá ástvini sem var staddur erlendis:
Ég sit í setustofunni í Sigtuna. Haustið umlykur allt. Úti eru haustlitirnir allsráðandi. Laufið er enn á trjánum, semsagt ekki fokið burt eins og heima og svo er það einhvern veginn þannig að Sigtunastiftelsen er í haustlitum. Húsin rauð-brún-gul á lit og umvafin trjám sem læðast meira að segja uppeftir stöku vegg.
Falleg mynd sem leiðir hugann að litum og tilfinningum haustsins. Tímanum þegar gróður visnar og deyr, náttúran leggst í dvala og myrkrið sækir í sig veðrið. Á vissan hátt minnir þessi tími okkur á lífshringinn, lögmálið um að allt hefur sinn tíma – sem síðan líður. Sumarið, með allri sinni grósku, vexti, og fyrirheitum um líf, er liðið. Laufin á trjánum, blómin í fjallshlíðinni og grösin í móanum, falla til jarðar og verða mold.
Manstu eftir versunum úr Biblíunni:
Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma (Pred. 3.2)?
Við komum saman hér í kirkjunni í dag, og minnumst þeirra sem tilheyrðu lífinu okkar en eru farnir frá okkur. Við minnumst þeirra og þökkum fyrir að hafa fengið að hafa þau, mótast af þeim, kljást við þau og elska þau. Við viljum sýna og tjá þakklæti okkar fyrir allt sem þau gáfu okkur og skildu eftir sig í lífi annarra. Við þökkum það sem þau kenndu okkur um lífið. Um hvers virði það er og hvaða ríkidóm það felur í sér. Og við þökkum fyrir að við megum nema staðar stutta stund, íhuga okkar eigið líf og þá staðreynd að einnig það hefur sinn tíma. Að við fáum að leiða hugann að því sem við erum að fást við einmitt núna. Vegna þess að lífið er hér og nú, það ert þú sem lifir því og þú hefur með lífi þínu áhrif á öll þau sem þú mætir á vegferð þinni.
Þú ert salt jarðar.
(Árni)
Við nemum staðar stutta stund, til að íhuga okkar eigið líf og til að íhuga líf annarra. Til að íhuga lífssögur.
Fyrir nokkrum árum var sýnd hér á landi kvikmynd sem heitir Stóri fiskurinn - Big Fish á frummálinu. Hún fjallar um feðga sem hafa ekki talast við um árabil. Sá eldri - pabbinn - var stórfiskasögumaður. Hann miðlaði eigin lífi bara í ýkjusögum. Og þetta þoldi sá ungi ekki. Hann höndlaði ekki að komast ekki nær pabba sínum, fá ekki að heyra hann segja „sannleikann“ um lífið sitt heldur þurfa alltaf að hlusta á ýkjusögurnar. En svo liggur gamli maðurinn fyrir dauðanum og þá heimsækir sonurinn hann og eins og alltaf er raunin vill hann komast að því hver pabbi eiginlega var. Og hann leggur upp í ferðalag sem leiðir hann inn í svæði stórfiskanna og svæði sagnanna og svæði sannleikans. Hann kemst að því sanna um pabba sinn. Heyrir lífssöguna hans.
Stórfiskasögur eru athyglisverðar því þótt þær fjalli á yfirborðinu um fiska (eða eitthvað þvíumlíkt) fjalla þær í raun og veru um einstaklingana sem eru höfundar þeirra. Þær eru tilraunir til að miðla lífssögum og til að birta ákveðna ímynd af lífinu. Þær segja:
Þetta er ég. Ég er veiðimaðurinn. Ég er sá sem afrekaði. Og það er ég sem er s v o n a stór.
Um leið felst í þeim bón til þess sem sagan er sögð: Hlustaðu á lífssöguna mína, eins og hún er, eins og hún er framsett – jafnvel þótt ég verði að setja hana í svona búning.
(Kristín)
Ég er svo heppin að hafa átt frænku sem gaf mér margt sem hefur verið mér til gleði í lífinu. Hún gaf með því að vera fyrirmynd, með skemmtilegum sögum, nákvæmum ráðleggingum, einlægum áhuga og óskilyrtri ást. Ég fékk líka nafnið hennar í skírnargjöf svo vonandi fylgja mér einhverjir kostir hennar líka. Hún safnaði ekki jarðneskum auði og átti bara litla íbúð og gamlan bílskrjóð þegar hún dó fyrir 7 árum. En börn voru henni hugleikin, sérstaklega börn sem bjuggu við erfið félagsleg kjör. Af þeim hefur alltaf verið nóg af. Líka á Íslandi.
Ég man ekki hver það var sem sagði, að það hvernig hugsað væri um börn í samfélaginu, segði allt um samfélagið sjálft og hvaða gildi það hefði í heiðri.
Í vikunni sem leið var óvenjumikið fjallað um börn í fjölmiðlum. T.d. var sagt frá átaki gegn einelti sem er að hefjast á vegum Heimilis og skóla. Í tengslum við átakið kom fram að 5000 börn eru lögð í einelti á Íslandi. Það eru 5000 börn sem fá ekki að njóta öryggis og áhyggjuleysis í daglegu lífi sínu vegna eineltis. Það eru mörg börn sem þjást og mörg tár sem falla vegna þeirra ofbeldisverka.
Kannski er þessi tala í raun alltof lág vegna þess að þessum 5000 tengjast mömmur og pabbar og bræður og systur – og ef við gefum okkur að í kringum hvert fórnarlamb eineltis sé pabbi og mamma og tvö systkini þá telur þessi hópur 30000 manns. Það er einn af hverjum tíu Íslendingum.
Það voru líka furðulegar fréttir sem bárust í vikunni af svokölluðu „barnaláni“, sem nú hefur öðlast alveg nýja merkingu. Í ljós kom sem sagt að einn bankinn veitti nokkrum börnum, peningalán, vitaskuld af þeirri gerð sem kennd eru við hina alræmdu myntkörfu, til að geta keypt hlutabréf sem áttu að vaxa og auka gildi sitt. Af því varð hins vegar ekki, heldur féllu krónan og bréfin, þannig að lánið hækkaði og eignin rýrnaði. Foreldrar barnanna ættu að sitja uppi með tapið og skellinn, sem fjárræðismenn barnanna, en þar sem lánveiting til barna á sér enga lagastoð, sleppa þeir með skrekkinn og fá skuldirnar afskrifaðar. Þessi atburðarrás er ekki aðeins bankanum til skammar heldur viðbjóðslegur vitnisburður um græðgissamfélagið sem hér hefur ríkt. Hvaða skilaboð fá börn í slíku samfélagi og hvernig mótast verðmætamat þeirra og sýn á rétt og rangt? Eitthvað mikið var að á Íslandi síðustu árin.
En það voru líka gleðifréttir um börn í vikunni. Kynntar voru niðurstöður rannsóknar á líðan íslenskra barna, sem leiddi í ljós að færri börn hafa upplifað stressandi aðstæður og vanlíðan þeim tengdum, nú en fyrir tveimur árum. Meiri sátt, meiri friður, meiri samskipti hafa náð til barna og ungmenna á Íslandi og það skilar sér í betri líðan og hamingjusamari börnum. Þrátt fyrir kreppuna. Þetta eru sláandi vísbendingar um að farsæld og hamingja haldast ekki alltaf í hendur við efnisleg gæði. Það sem lýsir upp líf barna er samvera við foreldra, tími sem er laus við streitu og átök.
Getur verið að í þínu lífi sé barn sem bíður eftir tíma, eftir eyra til að hlusta á sig, eftir ráðleggingum, eftir ást og umhyggju. Getur verið að þú getir verið ljós í lífi barns, og gefir því kjark og kærleika, svo það geti fótað sig í lífinu sem glöð og góð manneskja?
Það eru þessi þemu sem allra heilagramessa leggur okkur á hjarta og minnir okkar á. Á umhyggjuna sem okkur hefur sjálfum hlotnast og hvernig við getum sýnt öðrum umhyggju og verið salt jarðar.
(Árni)
Og við þökkum fyrir þessa umhyggju. Þökkum fyrir þau sem hafa verið saltið í okkar lífi en hafa nú kvatt þennan heim. Um leið skoðum við okkur sjálf, speglum okkur, íhugum það hvernig við getum verið salt – í eigin lífi og annarra – íhugum viðhorf okkar til eigin lífs og til eigin dauða.
Ég ætla að lesa fyrir ykkur blessun sem heitir Blessun dauðans. Hún fjallar um þetta:
Frá því þú fæddist hefur þinn eigin dauði gengið þér við hlið og þótt hann sýni sig sjaldan finnur þú hola snertingu hans þegar óttinn heldur innreið sína í líf þitt eða þegar það sem þú elskar glatast eða þú verður fyrir hnjaski hið innra.Þegar örlögin leiða þig á þessa fátæklegu staði og hjarta þitt er áfram örlátt þar til dyr opnast inn í ljósið þá ertu smátt og smátt að vingast við eigin dauða þannig að þegar stundin rennur upp og þú þarft að snúast á hæli og hverfa á braut hafir þú ekkert að óttast.
Megi þögul nærvera dauða þíns kalla þig til lífsins og vekja þig til vitundar um það að tíminn er af skornum skammti og til þess að þú verðir frjáls og lifir köllun þinna eigin örlaga.
Megir þú safnir þér saman og ákveða hvernig þú ætlar að lifa hér og nú lífinu sem þú myndir vilja líta til baka á frá þínu eigin dánarbeði.
(Kristín)
Hvernig drögum við þetta þá saman? Hver er boðskapur þessa dags til okkar, hér og nú?
Það má draga þetta saman svona:
Allra heilagra messa er dagur hlustunar og þakklætis: Hafðu eyrun opin og hlustaðu eftir lífssögunum í kringum þig, þakkaðu fyrir fólkið sem var og er salt í lífi þínu, minnstu með þakklæti.
(Árni)
Allra heilagra messa er dagur íhugunar og örlætis: Hafðu eyrun opin og íhugaðu þína eigin lífssögu og hvernig þú ætlar að lifa, þannig að þú verðir salt og ljós í lífi þeirra sem ganga með þér.
Mynd