Stundum líður mér eins og ég hafi hlaupið heilt maraþon á hverjum degi án þess að vita hvaðan ég var að koma eða hvert ég er að fara. Ég bara hleyp vegna þess að allir hinir gera það líka. Ég er hrædd um að ef ég hætti ekki að hlaupa verði ég eftir. Ég vil ekki verða eftir. Samt velti ég því fyrir mér hvaða ávinning ég hafi af þessum endalausu hlaupum. Hvers vegna lagði ég af stað og hvert ætla ég að fara?
Sumt fólk elskar vinnuna sína, finnur til sín, skiptir máli, fyllist orku og kemur síðan endurnýjað heim í lok vinnudags. En þrátt fyrir það myndu fæst þeirra segja: ,,Þetta er það sem lífið snýst um“. Lífið snýst um svo miklu meira en það sem við gerum á vinnutíma. Þegar ég horfist í augu við sjálfa mig og spyr mig hvað það er sem raunverulega skiptir máli, verða svörin mín á þessa leið: ,,Fjölskyldan, líkamlegt og andlegt hreysti, hamingja og samvera með þeim sem ég elska“. Svo þegar ég skoða betur í hvað tími minn fer, kemur í ljós að hann uppsvelgist meira eða minna í vinnu og önnur skyldustörf. Eitthvað er ekki rétt hjá mér, hlaupastíllinn skakkur eða prógrammið rangt.
Líðandi stund væri svo undur notaleg ef ég aðeins kynni betur að nýta hana. Kannski þarf ég að stoppa í smá stund. Gefa mér tíma til að kynnast sjálfri mér betur, nýju fólki og læra að horfa á lífið frá nýju sjónarhorni. Hver er tilgangurinn með þessu öllu saman? Kannski er það áskorun mín á nýju ári að stíga út fyrir rammann, upplifa eitthvað alveg nýtt og endurnýja tengslin við ræturnar, lífið, æðri mátt, fjölskylduna og síðast en ekki síst, sjálfa mig.
Einmitt þess vegna ætla ég, ásamt stórum hópi fólks á höfuðborgarsvæðinu, að eiga uppbyggjandi, fræðandi og umfram allt nærandi samverur á Alfanámskeiðum. Þar munum við leita svara við spurningum lífsins. Má bjóða þér með? Ég hvet þig, mikilvæga manneskja, að kanna hvar næsta Alfa-námskeið verður haldið, þar bíður þín fjöldi dýrmætra gimsteina sem aðeins munu fegra líf þitt.
Guð blessar þig!