Guðspjall: Matt. 18. 21-35 Lexia: 1. Mós. 50. 15-21 Pistill: Fil. 1. 3-11
Drottinn, Jesús Kristur. Við þökkum þér fyrir að afmá skuldabréf okkar gagnvart Guði með því að deyja fyrir syndir okkar. Við biðjum þig að kenna okkur að fyrirgefa okkur sjálfum og hafa fyrirgefninguna í huga gagnvart náunganum. Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í guðspjalli dagsins spyr Símon Pétur, hversu oft hann eigi að fyrirgefa. Og svar Jesú er skýrt og afdráttarlaust. Þú átt ekki aðeins að fyrirgefa endrum og eins, þegar þér þóknast, heldur alltaf og ætíð.
Svo mikla áherslu leggur Jesús áherslu á að við fyrirgefum hvert öðru miska þann og áreitni sem við höfum í frammi hvert við annað í daglegri umgengni, að hann áréttar þetta aftur og aftur við lærisveinana og fastsetur það í hinni daglegu bæn okkar ,,Faðir vorinu”, með þessum orðum: ,,Svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum”, þ.e. eins og við fyrirgefum þeim sem á hluta okkar gera.
Í framhaldi guðspjallsins gefur Jesús orðum sínum aukinn þunga með sögunni um skulduga þjóninn sem allt þáði af herra sínum en vildi ekki gefa samþjóni sínum neitt eftir af skuldinni. – Þetta er saga okkar allra ekki satt, saga þín áheyrandi minn og mín þar sem konungurinn í dæmisögunni er Guð sjálfur og við erum þjónarnir.
Nú þegar rykið er að setjast í lognmollunni eftir vindasama daga undanfarið þá horfir íslenska þjóðin til baka og veltir fyrir sér hvernig hún hafi getað komið sér í slíkar ógöngur eins og raun ber vitni? Hvað varð um sparifé landsmanna í peningasjóðunum? Hvernig gátu þrír stöndugir íslenskir bankar farið á hliðina á einni viku? Ein af ástæðunum var sú að íslenska hagkerfið var mun minna í sniðum en hagkerfi bankanna þriggja og banki bankanna hafði úr of litlum gjaldeyrisforða að spila til handa bönkunum þegar lánalínurnar til þeirra þornuðu upp vegna vaxandi vantrausts í fjármálaheiminum. Réttmæt reiði braust út, fólk óttast um sparifé sitt, lífeyrissparnaðinn, atvinnuna, vaxandi skuldir vegna krónunnar sem er í frjálsu falli. Forsætisráðherra tilkynnti nýverið að alþingi myndi skipa sannleiksnefnd sem myndi fá það verkefni að fara ofan í saumana á þessu máli til að rannsaka til hlýtar hvað fór úrskeiðis og draga til ábyrgðar þá sem kunna að hafa brotið lög.
Við höfum öll tilhneigingu til að leita að sökudólgum í þessum efnum sem öðrum. Ég stóð mig að því um daginn þegar ég var að lesa viðtöl við framámenn og fréttir af fjármálalífinu að vilja strika undir nokkrar góðar setningar að mér fannst þar sem meintir sökudólgar voru dregnir fram í dagsljósið, svo nefndir útrásarvíkingar sem hampað var dag og nótt af fjöllmiðlum á kostnað gagnrýnisradda sem vöruðu við þróuninni. Innst inni vildi ég draga þá til ábyrgðar ásamt þeim sem bjuggu til leikreglurnar og eftirlitsaðilana. En erum við ekki líka sek um það að hafa hlaupið með víkingunum og eytt um efni fram. Höfum við ekki mörg hver látið græðgina teyma okkur á asnaeyrunum?
Okkur finnst skuldugi þjóninn í dæmisögunni hafa farið illa að ráði sínu þegar hann vildi ekki gefa samþjóni sínum upp smáskuld við sig. Við reiðumst. Ekki síst vegna þess að konungurinn hafði rétt áður gefið honum upp skuld við sig að upphæð tíu þúsund talentur. Það var geysilega mikil upphæð. En ein talenta jafngilti sex þúsund denörum en einn denar var þá venjuleg daglaun landbúnaðarverkamanns.
G. Papini sagði eitt sinn:,,Aldrei hafa peningar, jafnvel þótt þeirra sé aflað í guðrækilegu yfirskini, haft slíkt vald á mönnum og nú á tímum. Sá sem á lítið girnist mikið. Sá sem á mikið girnist meira. Og sá sem á mestar gnægðir, krefst alls.
Enda þótt ríkissjóður standi vel að sögn þá er íslenska þjóðin mjög skuldsett. Lánadrottnar þjóðarinnar munu ekki koma til með að vilja gefa þjóðinni upp skuldirnar. Þeir munu frekar vilja sverfa til stáls eins og Bretar hafa nú gert gagnvart okkur með eftirminnilegum hætti en Gordon Brown er í mínum huga tákngervingur skulduga þjónsins í guðspjalli dagsins sem tók samþjón sinn kverkataki. Við Íslendingar erum alltof stoltir til þess að þiggja gjafafé Við myndum ekki vilja þiggja það vegna þess að við viljum sýna umheiminum að við séum borgunarmenn fyrir okkar skuldum. Við erum rík þjóð af margvíslegum auðlindum sem við þurfum að koma í verð. Við þurfum að beisla sem fyrst jarðhitann í Þingeyjarsýslum til að geta skapað þjóðinni aukinn gjaldeyrisforða. Í kreppu sem þessari eru ætíð tækifæri til vaxtar og þroska. Ég vona að þjóðin læri af þessari bitru reynslu að búa svo um hnútana að kreppan endurtaki sig ekki en því miður hefur sýnt sig að manneskjan er fljót að gleyma. Guð láti gott á vita í þeim efnum þegar fram líða stundir.
En það var þetta með fyrirgefninguna. Hún hefur stundum vafist fyrir mér. Þegar ég var sautján ára þá varð ég fyrir ráðingu. Ég keypti mér bíl á bílasölu Guðfinns í Reykjavík án þess að skoða hann til hlítar og staðgreiddi hann. Það kom fljótt í ljós að ég hafði keypt köttinn í sekknum. Ég varð öskureiður í garð bílasalans og gat ekki fyrirgefið honum lengi vel. Síðar gat ég ekki fyrirgefið sjálfum mér fyrir að hafa selt þennan sama bíl kunningja mínum þar sem ég vissi hvernig ástand bifreiðarinnar var. Þá var ég við nám við lagadeild Háskóla Íslands, refurinn sá arna. Þegar ég fór í guðfræðideildina þá fann ég ekki guð í því umhverfi. Hann fann mig hins vegar innan veggja kirkjunnar í Reykjavík og snerti við mér. Þá laukst upp fyrir mér að Jesús hafði strikað yfir allar mínar syndir með því að deyja á krossinum í minn stað. Þá lærðist mér smám saman að fyrirgefa bílasalanum og sjálfum mér.
Ég hef jafnframt lært að það er ágætt að hafa peninga og þá hluti sem unnt er að kaupa fyrir peninga. Hitt er líka gott að staldra við á stundum og fullvissa sig um að maður hafi þó ekki glatað þeim hlutum sem ekki er unnt að kaupa fyrir nokkra peninga.
Nú er kominn tími til að staldra við og leggja rækt við það sem gefur lífinu mest gildi en það eru samskiptin við ættingja og vini. Ég segi þetta ekki af afturhaldssemi heldur vegna þess að þetta er reynsla kynslóðanna. Þegar sverfur að þá er mikilvægt að hlúa að því sem ekki er hægt að kaupa fyrir peninga. Það er stundum haft á orði að góðvildin sé skiptimynt kærleikans sem við þurfum á að halda til daglegra útgjalda. Við þurfum að læra að sjá hið stóra í því smáa og vera þakklát fyrir hið hversdagslega og vanalega. Við þurfum að sjá og skilja tímanna tákn og hafa til að bera dómgreind gagnvart hverskonar áróðri og glöggskyggni á stjórnmálastefnur og hugmyndafræði samtímans sem nú hefur beðið skipbrot. Vörumst uppgjöf og tortryggni. Verum börn ljóssins með margvíslegum hætti. Leggjum okkar af mörkum í stefnumótun samfélagsins, starfi stjórnmálaflokka og stéttarfélaga og samtaka að almannaheill. Við þurfum að læra að lifa sem ábyrgir einstaklingar í samfélaginu og stuðla að réttlæti og velferð lands og lýðs.
Við skulum ekki gleyma því á þessum erfiðu tímum að við erum hvert og eitt í skuld gagnvart Guði sem gaf okkur lífið. Við skulum í ljósi þess varast að benda á aðra og stunda nornaveiðar í samfélaginu um þessar mundir.
Sr. Matthías Jochumsson sem eitt sinn var prestur á Akureyri kemst vel að orði um þess skuld okkar við Guð í sálminum: ,,Ó skapari, hvað skulda ég”, sem er nr. 187 í sálmabókinni. Hann hljóðar svo: Ó skapari hvað skulda ég Ég skulda fyrir vit og mál Mín skuld er stór og skelfileg Ég skulda fyrir líf og sál
Ég skulda fyrir öll mín ár, Og allar gjafir, fjör og dáð Í skuld er lán, í skuld er tár Í skuld er Drottinn öll þín náð
Ó skapari hvað skulda ég? Í skuld er Guð þín eigin mynd Ó mikla skuld, svo skelfileg Því skemmd er hún af minni synd
Haf meðaumkun, ó Herra hár, Ég hef ei neitt að gjalda með, En álít þú mín angurstár Og andvörp mín og þakklátt geð.
Og þegar loks mitt lausnargjald Ég lúka skal en ekkert hef, Við Krists, mín Herra, klæðafald Ég krýp og á þitt vald mig gef.
,,Guð vertu mér syndugum líknsamur”. Ég minnist þessara orða tollheimtumannsins þegar ég hugleiði sálminn. Þau nægðu til þess að Guð afmáði synd tollheimtumannsins. Oft getur reynst erfitt að trúa fyrirgefningu syndanna. Þess vegna hefur Guð gefið okkur sýnilega tryggingu þess að hann fyrirgefi syndir. Þessi trygging er líkami og blóð Jesú í heilagri kvöldmáltíð. Líkami Krists, lífsins brauð, blóð Krists, bikar lífsins. Í þessum orðum er náðin boðuð. Við getum ekki annað gert en þegið hana með þakklæti og leitast síðan við að fara að dæmi konungsins í dæmisögunni sem gaf samþjóni sínum upp skuldirnar stóru vegna þess að hann bar kærleika í garð hans. Guð gefi okkur náð til þess að láta gott á vita. Amen.