Þegar ég var lítil sá ég fyrir mér að við mannfólkið værum eins og strengjabrúður í hendi Guðs, að Guð togaði í spotta til að láta okkur framkvæma það sem hann vildi. Þess vegna skildi ég ekkert í því hvers vegna ég hugsaði stundum ljótar hugsanir, skemmdi fyrir eða talaði illa um aðra. Gat verið að Guð léti mig líka gera þetta?
Síðar komst ég að því að Guð væri ekki einráður í mínu lífi. Því miður. Þar var við stjórnvölinn einhver óþægileg stærð sem kallaðist ,,ÉG”. Ég var sjálf völd að því ranga sem ég gerði. Það var ég sem var óhlýðin. Það var ég sem blótaði í laumi. Það var ég sem sagði ljótt um aðra. Það var ekki Guði að kenna. Hann lét mig ekki gera það sem rangt var. Þar var mitt synduga eðli á ferð.
Hefði ég nú staðnæmst þarna væri ég ekki hér í dag að flytja ykkur Guðs orð. Ég þurfti að uppgötva eitt til viðbótar og það var að fengi Guð raunverulega að vera við stjórnvölinn í mínu lífi myndi allt verða svo miklu betra, bæði fyrir mig og fólkið í kring um mig. Það kostaði mig aðeins eitt að taka þetta skref, að viðurkenna vanmátt minn gagnvart sjálfri mér og mínum uppreisnargjarna vilja og fela líf mitt allt í hendi Guðs.
Það gerði ég fyrst meðvitað fyrir rúmum tuttugu árum og það þarf ég að gera hvern dag lífs míns, já, hverja stund. Í sjálfri mér er ég dómhörð. Ég hef tilhneigingu til að sakfella fólk og mig vantar oft viljann til að fyrirgefa. Aðeins í Guði get ég látið vera að dæma. Aðeins fyrir náð Guðs fæ ég sleppt því að sakfella fólk. Aðeins ef ég lifi Guði get ég auðsýnt þá fyrirgefningu sem mér sjálfri stendur til boða. Ef við lifum, lifum þá Drottni.
FATHER WE MISS U Þegar ekið er hérna niður Njarðargötuna blasir við sementsstöpull sem á hafa verið rituð orðin FATHER WE MISS U. Faðir við söknum þín. Ég er búin að horfa á þessi orð á ferðum mínum niður holtið undanfarnar vikur og þau tala til mín á sérkennilegan hátt. Mér finnst ég lesa í þeim tómleikann og söknuðinn sem heltekur hjartað sem lifir án Guðs. Faðir við söknum þín. Hvað erum við án Guðs? Ekkert. Ekkert erum við í sjálfum okkur. Hvort sem við lifum eða deyjum þá erum við Drottins. Og rými trúarinnar í hjartanu verður ekki fyllt nema af honum.
Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur, segir Jesús. Við miðum líferni okkar, hugarfar og framkomu ekki við annað fólk. Í samanburði við ýmsa aðra getum við áreiðanlega sagt með góðri samvisku: ,,Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn...” (Lúk 18.11). En samanborið við miskunnsaman föður á himnum eigum við ekkert að hrósa okkur af. Í þeim samanburði getum við aðeins sagt: ,,Guð, vertu mér syndugum líknsamur!” (Lúk 18.13).
En við eigum ekki að láta þar staðar numið. Engan dag lífs okkar ættum við að missa af föðurnum. Hvern dag skyldum við biðja hann að vera okkur fyrirmynd og innblástur á helgunarbrautinni.
Það sem ég hef lært er þetta: Guð stýrir mér ekki sem strengjabrúðu. Hann hefur búið okkur út í lífið með sjálfstæðan vilja og verk okkar eru á eigin ábyrgð. Hins vegar leiðir hann okkur sem góður faðir til réttra ákvarðana og kærleiksríks hugarfars. Við syngjum hér á eftir tvo sálma sem báðir innihalda góða og gegna kristna hugsun. Annar er bæn til Guðs að hann sé við stjórnvölinn, stýri lífi okkar, hjarta, tungu, hönd, fæti, hag og loks fari lífsins heilu heim ,,í höfn á friðarlandi”. Hinn, að Guð leiði okkur í réttlæti um sléttan veg. Hvort tveggja er bæn til Guðs um að líf okkar endurspegli köllun okkar til lífs í Kristi – að ekkert verði það í okkar fari sem leiði aðra til ásteytingar eða falls (Róm 14.13).
Leið mig Guð... Eins og kirkjan okkar, Hallgrímskirkja, er Skólavörðustígurinn vettvangur mikilla viðgerða um þessar mundir (í júní 2008). Það er hægara sagt en gert að fara þar um fótgangandi og öll umferð ökutækja auðvitað bönnuð. En veginn þrönga, yfir brýr og ýmist á þessum vegarhelmingi eða hinum, má þó rata með aðstoð skilta. Á skiltunum er mynd af hendi sem bendir með þumlinum í þá átt sem á að ganga. Ef skiltunum er fylgt kemst maður á leiðarenda, alla leið að hliði himins, kirkjunni á hæðinni, það er að segja ef leiðin liggur upp stíginn. En um leið og einhver missir sjónar á leiðarvísinum er voðinn vís á varasömu vinnusvæði.
Þannig er nú hversdagsleg ganga hérna upp holtið og ökuferð niður Njarðargötuna áminning um lífið með Guði. Setningin FATHER WE MISS U vekur ósjálfrátt upp hugrenningtengsl við það sem við missum af ef himneskur faðir fær ekki að leiða okkur í lífinu. Að missa af leiðsögn Guðs er ekki óviljaverk. Það er okkar þrjóski og þrælbundni vilji sem velur sér aðra leið en Guðs og fer því margs á mis. Fylgjum bendingum Guðs, í Biblíunni og fyrir innblástur heilags anda í daglegu lífi.
Að fylla húsið angan Guðs Dæmið ekki, segir Jesús. Sakfellið ekki. Þá verðum við ekki sjálf dæmd sek. Við heyrum óm gullnu reglunnar, sem hljómar þannig nokkrum versum framar í slétturæðu Jesú samkvæmt Lúkasi: ,,Og eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera” (Lúk 6.31). Fyrirgefið öðrum. Gefið. Á sama veg verður okkur fyrirgefið og gefið jafnvel yfirfljótandi: ,,Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar”. Ég sé fyrir mér konu með stóra svuntu, fulla af ilmandi jurtum og hún tekur hana saman á hornunum og flýtir sér heim til að fylla hús sitt af angan Guðs.
Einhvers konar gagnkvæmni virðist vera innifalin í lífinu. Það viðhorf sem þú mætir öðrum með er oftar en ekki það viðhorf sem aftur skilar sér til þín. Við þekkjum öll hvernig brosmild kveðja getur rekið á burt reiðilegan svip. En því miður þekkjum við líka hvernig kurteislegri nálgun er vísað á bug með stuttaralegu hvæsi. Það er ekki alltaf þannig að við uppskerum eins og við sáum. Hvatning Jesú Krists er hins vegar að við sem viljum kenna okkur við hann eigum að vera fyrirmynd í viðhorfum og fasi. Það viðmót sem við mætum öðru fólki með er það sem þau bera heim í húsið sitt. Lærisveinar Krists eiga að gefa fólki góðilm í svuntuna sína.
Við höfum fyrir augunum fyrirgefningu Guðs. Í henni eigum við að lifa og sýna guðsríkið þannig í verki. Verum ekki blindir leiðtogar. Keppum eftir því að verða fullnuma í því að líkjast lærimeistaranum Jesú Kristi. Kannski er takmarkið fjarlægt, því öll höfum við syndgað og skortir Guðs dýrð (Róm 3.23). En samt er það þetta sem Jesús felur okkur: Að vera miskunnsöm eins og faðir okkar er miskunnsamur (Lúk 6.36). Munum það alla daga lífs okkar, stundum sjálfsskoðun og biðjum Guð að leiðrétta okkur í hvert sinn sem okkur verða á mistök svo að við missum ekki af föðurnáð hans.
Er bjálkinn svona greinilegur? Við setningu prestastefunnar 2008 síðastliðið þriðjudagskvöld í Dómkirkjunni í Reykjavík vitnaði herra Karl, biskupinn okkar, í nýlegt ljóð eftir Hannes Pétursson. Þar segir meðal annars:
Takið eftir börnunum hjá tjörninni hérna sunnan við!
Þau námu skyndilega staðar og stara nú hingað. Grafkyrr. Orðlaus. Eitthvað sjá þau, lostin furðu.
Bjálkann? Er bjálkinn svona greinilegur? Skjagar hann út úr augum okkar hvers um sig?
Orð Jesú sem skáldið vitnar í með slíkum þunga draga upp háðuglega mynd af hroka mannsins. Jesús sækir þessa mynd til speki rabbíanna, hinna gyðinglegu lærifeðra, og minnir á að við mögnum oft upp smávægilegi galla samferðafólksins í stað þess að líta á syndina í eigin barmi. Látum Guð um flísina í auga systur okkar – og leyfum honum líka að eiga við bjálkann í okkar eigin auga.
Náð hans er yfirfljótandi og hann vill leiða okkur í réttlæti sínu. Við erum ekki strengjabrúður, viljalausar, hjarta- eða heilalausar tuskudúkkur. Við getum ekki kennt Guði um gallana okkar, dómhörkuna og hvað það nú heitir. Við getum heldur ekki skýlt okkur á bak við þá staðreynd að vilji okkar leitar sífellt hins illa frekar en hins góða. Nei, við erum frjálst og sjálfstætt fólk, kölluð til að vera öðrum Kristur, í kærleika, fyrirgefningu og lífsgleði, af fúsum og frjálsum vilja, undir leiðsögn Guðs, með himneskum föður í líkingu hans. Þegar höndin hans er okkar bendill munum við einskis sakna.