Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðilega Páska.
Þegar ég las lestra Páskadags yfir og hugleiddi þá með bæn og beiðni og þakkargjörð eins og vera ber af þjóni safnaðarins sem falið hefur verið að leggja út af þeim í guðsþjónustu safnaðarins á Páskadegi sem aðra helga daga, þá leitaði orðið Páskahlátur á huga minn.
Af hverju skyldum við hlæja á Páskadegi árið 2013 í þessum fagra helgidómi? Það er vegna þess að þessi fallega kirkja hefði aldrei verið reist ef Guði hefði ekki tekist árla hinn fyrsta dag vikunnar forðum að snúa á djöfulinn og allt hans hyski sem krossfesti einkason hans á föstudaginn langa með því að reisa hann upp frá dauðum. Ljósið sigraði myrkrið í öllu sínu veldi. Lífið sigraði dauðann. Áætlun Guðs með einkason sinn náði fram að ganga á Páskdag þegar hann reis upp frá dauðum.
Til forna var farið með gamanmál í kirkjunni á Páskadagsmorgun og hlegið dátt yfir því sem allir ættu erfitt með að trúa. Að Jesús væri upprisinn. Þá var kannski líka hlegið að hiki og efa kirkjufólks sem fremur vill trúa á boðskap föstudagins langa en syngja sigursöngva í tilefni af upprisunni.
Þurfamenn til líkama
Við erum nefnilega töluvert jarðbundin. Á hverjum degi hugsum við um að uppfylla þarfir líkamans fyrir fæðu, klæði og húsaskjól og gleymum oft að hafa yfir þetta fallega vers:
,,Þurfamaður ert þú mín sál þiggur af Drottni sérhvert mál, fæðu þína og fóstrið allt, fyrir það honum þakka skalt.”
Spámaðurinn Jesaja talar um í lexíu dagsins ( Jes. 25: 6-9) að Drottinn muni búa öllum þjóðum veislu í tilefni af því að hann muni afmá dauðann að eilífu. Á veisluborðinu eru réttir fljótandi í olíu og merg. “ Ég veit ekki með ykkur en ekki myndi ég vilja leggja mér merg til munns. Kannski hef ég gert það síðan ég man eftir mér en ekki vitað það. Konan mín vill ekki leggja unnar kjötvörur sér til munns en ég játa að ég stelst stundum til þess að fá mér pylsu á Bæjarins besta. Mér er hugsað til þess hvort mergur sé í pylsum og bjúgum? Ja, hérna, ég tel mig þekkja muninn á hrossakjöti og nautakjöti. En ég viðurkenni að ég er hálf hikandi í þessum efnum. Bragðlaukarnir geta nefnilega brugðist manni. Páskalambið þekki ég hins vegar. Ég fékk að smakka á því í Húsavíkurkirkju í lok Páskavökunnar í gærkvöldi, rétt eftir miðnætti. Það var ljúffengt.
Ég þekki hins vegar ekki muninn á sveppum úti í náttúrunni. Það viðurkenni ég alveg. ,,Efnaður kaupsýslumaður í Reykjavík bauð nokkrum vinum í sveppaveislu og höfðu þau hjónin sjálf tint sveppina úti í náttúrunni. Svo illa vildi til að allir veiktust. Í flýti fletti kaupsýslumaðurinn upp sveppabókinni og sagði svo við gestina: ,,Já, nú er það bara prentvilla sem getur bjargað okkur!”
Ég ætti nú að lagfæra brandarann í ljósi vonarríks boðskapar Páskanna og segja í orðastað kaupsýslumannsins: ,,Já, nú er það bara Guð sem getur bjargað okkur.”, en þá yrði hann ekki lengur fyndinn, eða hvað? Hvað varð um Páskahláturinn?
Þurfamenn til sálar
Ég tek hins vegar undir með spámanninum Jesaja í lexíunni sem segir: ,,Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á, fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans.” Hér hika ég ekki né efast. Kristur er upprisinn. Hann er sannarlega upprisinn.
Þetta er líka reynsla kynslóðanna sem með dagfari sínu hefur leitast við að halda merki Jesú Krists á lofti þrátt fyrir hik sitt og efa. Sumir eru jafnvel utan við sig í kyrruvikunni fyrir Páska. Það er allt í lagi enda gefur það tilefni til græskulausrar kímni.
Einu sinni sem oftar var flaggað í hálfa stöng við Húsvíkurkirkju á föstudaginn langa. Það leið ekki á löngu þar til einhver spurði meðhjálparann á förnum vegi hver væri dáinn? Þegar meðhjálparinn sagði mér frá þessu þá hlógum við dátt.
Meðhjálparinn keyrir stundum líkbílinn upp í garð. Ég fæ nú yfirleitt far með honum. Einu sinni á leiðinni sagði ég meðhjálparanum eftirfarandi brandara svona til að létta lundarfar okkar beggja eftir erfiða athöfn: ,,Farþegi í leigubíl klappaði á öxlina á leigubílstjóranum til að spyrja hann spurningar. Bílstjórinn æpti, missti stjórn á bílnum, fór upp á gangstétt og stoppaði við búðarglugga. ,,Afsakaðu, þú hræddir líftóruna úr mér.”,,Afsakaðu sagði farþeginn. Ég vissi ekki að þér myndi bregða svona. ,,Fyrirgefðu þetta er mín sök”, sagði bílstjórinn Þetta er fyrsti dagurinn minn sem leigubílstjóri. Ég hef keyrt líktbíl í 25 ár!” Mér finnst gaman að góðum bröndurum. Það er svo endurnærandi að geta hlegið, jafnvel að sjálfum sér.
Þurfamenn til anda
Það er þetta með lífsreynsluna og lífið fyrir og eftir Krist. Vitið þið hver Sál var? Hann tók þátt í því að ofsækja kristna menn í frumkristni og er talinn hafa tekið þátt í því að grýta fyrsta kristna píslarvottinn, Stefán postula. En Sál snerist til kristinnar trúar og gerðist öflugasti málsvari Jesú Krists, tók upp nafnið Páll sem þýðir sá sem er sendur. Hann skrifaði flest bréfa Nýja testamentisins og skrifar í pistil þessa Páskadags: ,,… að Kristur dó vegna synda okkar, …hann var grafinn…hann reis upp á þriðja degi…og birtist fimm hundruð bræðrum…síðast allra birtist hann einnig mér.” ( 1. Kor. 15.1-8a)
Ég hef hvorki séð Pál postula né Jesú Krist en lífsreynsla þeirra beggja og kennsla hefur haft mikil áhrif á mig og annarra sem leitast hafa við að feta í fótspor Jesú Krists. Ég hef líkt og Páll postuli og annað kristið fólk orðið fyrir áhrifum anda Guðs sem hefur lokið upp fyrir mér orði Guðs, hjálpað mér að skilja það betur.
Ég minntist á það hér áðan að hjálpræðisáætlun Guðs hefði náð fram að ganga með upprisu Jesú Krists frá dauðum. Síðan hafa margar kynslóðir lifað tímann eftir Krist í lífi sínu. Því að hjálpræðisáætlun Guðs með kirkju sína á jörðinni heldur áfram þar sem við erum hvert og eitt sem játum trú á Jesú Krist þátttakendur. Við sem þykjum vænt um kirkjuna og boðskap hennar erum þar á meðal í dag. Sérhver helgur og rúmhelgur dagur er hjálpræðisdagur og við erum þakklát fyrir að fá miðla fagnaðarerindinu um Jesú Krist til barna okkar og afkomenda í orði og verki.
Englar Guðs
Ég hef aldrei séð engil berum augum, líkan þeim sem velti steininum frá grafarmunna grafar Jesú Krists og settist á hann eins og greint er frá í guðspjalli þessa Páskadags. Sennilega myndi mér bregða við að sjá engil. Þegar ég sótti sunnudagaskóla sem barn fyrir sunnan þá fékk ég ljósgeislamynd af engli sem gætti barna sem voru að fara yfir trébrú. Það vantaði nokkur þrep í brúna og engillinn gætti barnanna, að þau færu sér ekki að voða. Ég hef málað olíumynd af engli sem ég seldi strax vegna þess að myndin hreyfði við kaupandanum. Ég hef hins vegar séð engla í mannsmynd eins og pabba minn.
Englar í mannsmynd
Þegar ég var lítill drengur fór ég í veiðitúr með pabba á bláum yfirbyggðum verkstæðisbílnum. . Þegar við komum á veiðistaðinn þá skyldi hann mig eftir aftur í bíl því að hann þurfti að vaða yfir straumharða ána að hyl þar sem hann ætlaði að renna fyrir lónbúann Ég var niðursokkinn við leik aftur í bíl um tíma þegar bíllinn fer að hristast og vagga. Ég varð skelfingu lostinn, opnaði hliðardyrnar og hljóp öskrandi niður hlíðina. Pabbi lagði frá sér stöngina, óð yfir ána, setti mig á bak sér og óð aftur yfir ána. Þegar við litum upp eftir þá sáum við kýr á beit nálægt bílnum. Þær höfðu nuddað sér utan í bílinn um stund. Skelfingarsvipurinn hvarf af mér og við pabbi hlógum dátt að þessu. Pabbi var í huga mér eins og sannur björgunarmaður sem óð út í strauminn til að bjarga mér. Það var skemmtilegt að vera með honum, ekki síst í veiðitúrum.
Þegar ég hugsa um þessa minningu úr æsku þá er mér hugsað til frelsarans. Var það ekki Jesús sem óð elg syndar og dauða á jarðarvistardögum sínum til að bjarga og frelsa syndugt fólk frá dauðanum í öllu hans veldi?
Oft birtist veldi dauðans í stríðsátökum. Það var hermaður sem stóð vörð í köldu veðri. Hann freistaðist til þess að kveikja sér í sígarettu. Þá sá hann sér til skelfingar að hershöfðinginn kom gangandi til sín. Í flýti smellti hann sígarettunni upp í sig. ,,Hvað eruð þér með uppi í yður?”, spurði hershöfðinginn. ,,Þ-þ- það er s-súkkulaði.” ,,Nú, það rýkur út úr yður!”, sagði hershöfðinginn. Þá sagði hermaðurinn: ,,Þ-þ-það er s-suðu-súkkulaði!”
Líkami, sál og andi
Við sinnum sálinni með því að rækja samfélagið við fólk í kringum okkur, fjölskyldu, vini og samferðafólk. Við tölum saman og hlæjum saman. Við spilum við hvert annað, spilum á hjartna strengi. Þar er oftar en ekki glatt á hjalla. Fjölskyldan kemur saman á hátíðum sem þessari og sinnir hugðarefnum sínum og lætur uppbyggjast af því sem gefur lífinu gildi.
Við erum líkami, sál og andi. Við rækjum samfélag andans með því að koma saman í helgidóminum á helgum dögum til að láta uppbyggjast af orði Guðs og sakramentum og syngja Guði lof og þökk. Við finnum þá hversu gott er að fá að tilheyra kirkjunni því að kirkjan er ekki bara þessi bygging heldur ég og þú sem eigum sameiginlegt markmið: Að gera alla hluti nýja með hjálp Guðs. Guð gefi okkur styrk til þess.
Per Lagerquist orti í þýðingu Sigurbjörns Einarssonar biskups:
,,Á jörðu mest er ekki bitrir brandar en barmur hlýr og snerting mjúkrar handar, já, mjúkt og hlýtt er allt, sem sterkast er: Hið opna fang og hjartans varmi hljóður og himins blær og lófi þreyttrar móður það allt sem fæðir fræ nýs lífs af sér.”
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Lexía: Jes 25.6-9 Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu, veislu með réttum fljótandi í olíu og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg og skírðu dreggjavíni. Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið, sem er hula öllum þjóðum og forhengi öllum lýðum, mun hann afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni því að Drottinn hefur talað. Á þeim degi verður sagt: Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á og hann mun frelsa oss. Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á, fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans
Pistill: 1Kor 15.1-8a Ég minni ykkur, systkin, á fagnaðarerindið sem ég boðaði ykkur, sem þið og veittuð viðtöku og þið standið einnig stöðug í. Það mun og frelsa ykkur ef þið haldið fast við það sem ég boðaði ykkur, ella hafið þið til einskis tekið trú. Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. En síðast allra birtist hann einnig mér,
Guðspjall: Matt 28.1-8 Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“ Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin."