Þingmúli 22.8. 2021, 12. sunn. e. trinitatis. Sl 86.9-13, 15; Mk 8.22-27
Náð sé með yður
og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í herberginu
hennar ömmu á hjúkrunarheimilinu voru bæði innrammaðar myndir af
fjölskyldumeðlimum og fjöldi mynda í albúmum. Þegar ég kom og heimsótti hana, síðustu
árin sem hún lifði, var gott að grípa í þessar myndir og reyna að rifja upp með
henni, hver var hver. Það gekk reyndar misvel því að veikindi, sem við þekkjum
mörg allt of vel á okkar ástvinum, höfðu þegar hér var komið sögu rænt hana stórum
hluta af hennar minni. Það var hins vegar ekki erfitt að fitja upp á umræðuefni,
því að allt sem sagt var gleymdist fljótt; hvarf, eins og döggin hopar fyrir
sólinni á sumardegi hér á Héraði. Tvö til þrjú málefni dugðu, sem hægt var að
ræða til skiptis í hálftíma innliti. „Já, er ég orðin langamma? Þú segir aldeilis
fréttir!“ – Nærveran var hvort sem er miklu mikilvægari en nokkuð af því sem
sagt var.
Heilabilun er
einn af þessum sjúkdómum, sem manni finnast miskunnarlausir, vegna þess að svo
óskaplega stórum hluta af lífsgæðum einstaklingsins er rænt. Manneskjan lifir,
en er ekki söm. Og þegar andlát hennar ber að höndum og komið er að kveðjustund,
þá getur manni liðið eins og það sé aðeins lokapunkturinn á langri kveðjustund,
því að í raun réttri hafi maður verið að kveðja þennan ástvin smátt og smátt í
mörg ár. Sú var að minnsta kosti mín upplifun.
Í Biblíunni lesum
við um hin fjölmörgu kraftaverk Jesú, þar sem hann læknaði fólkið sem til hans
kom af ýmsum sjúkdómum, hreinsaði út illa anda, eða gaf blindum sjónina, eins
og í guðspjalli dagsins. Ég veit auðvitað ekki af eigin raun hvernig það er að
missa sjónina, eða fæðast blindur, en þó bendir margt til þess, að hlutskipti
þeirra sem ekki höfðu fulla sjón hafi verið mun verra á tímum Jesú en í dag. Sú
eða sá sem ekki hafði næga sjón til að vinna fyrir sér þurfti að treysta á aðra
til að geta haft í sig og á, og þá í mörgum tilfellum með því að betla. Margt
hefur auðvitað breyst til hins betra, og sem dæmi um það má nefna að á alþingi
Íslendinga situr nú lögblind manneskja. Ef blindri eða sjónskertri manneskju í
dag yrði boðið eitt kraftaverk, gæti auðvitað vel hugsast að það yrði að fá
sjónina, en ef dæma má af viðtölum við sjónskerta Íslendinga, þar sem er að
finna marga sterka einstaklinga og hugsjónafólk, er bara alls ekkert víst að
það myndi gilda um alla. Ýmsir benda líka á að fötlun getur á vissan hátt verið
ákvörðuð af samfélaginu og þeim hindrunum - eða tækifærum - sem það
setur upp fyrir þegna sína.
Hitt vitum við samt
öll, þó að við ræðum það kannski ekki endilega dags daglega, að það er ekki
sjálfsagður hlutur að hafa fulla heilsu. Þrátt fyrir allar framfarir læknavísindanna
er staðreyndin engu að síður sú að allt of stór hluti Íslendinga, og auðvitað
jarðarbúa ef út í það er farið, glímir við vanheilsu af einhverju tagi. Og sumir
sjúkdómar eru grimmir og ræna fólk starfsorku, minni, andlegu eða líkamlegu
þreki og jafnvel lífinu sjálfu. Og undanfarið hálft annað ár hefur auðvitað
litast af baráttu heimsbyggðarinnar við Covid-19 sjúkdóminn. Allt er þetta hluti
af okkar tilveru og við verðum að mega tala um það.
Hvers vegna er
þetta svona? Þessi spurning getur falið í sér trúarlega glímu fyrir kristna
manneskju sem stendur frammi fyrir vanheilsu hjá sjálfri sér eða ástvini. Hvar
ertu, Guð, þegar ég bið um lækningu, eða reiðist yfir óréttlætinu í
veikindunum? Ef Kristur hafði máttinn til að lækna í guðspjöllunum, hvers vegna
svarar hann þá ekki minni bæn? Var þetta kannski ekki satt?
Því svarar hver
fyrir sig, en sannarlega er það mín sannfæring að guðspjöllin segi okkur satt
og rétt frá, og einnig að Guð sé þess megnugur að lækna fólk í dag. Við höfum hins
vegar engin svör við ráðgátunni um þjáningarnar í heiminum.
En ef maður les
guðspjöllin vandlega sést, að markmiðið með kraftaverkum Jesú er ekki að lækna
hvern þann sem á vegi hans yrði, eða að útrýma sjúkdómum.
Þegar öllu var á
botninn hvolft var markmið kraftaverkanna enn djúpstæðara:
Að ryðja Guðs
ríki braut í þessum heimi og lina þannig þjáningar okkar!
Guðs ríki kemur
til okkar þegar við finnum, að þó að sjúkdómurinn sem í hlut á geti verið
miskunnarlaus og grimmur, þá er Guð samt náðugur, og ástin hans er sterkari en
erfiðleikar okkar.
Davíðssálmurinn
sem við lásum úr áðan ber vitni um þetta, þar sem segir:
Þú, Drottinn,
ert miskunnsamur og líknsamur Guð,
þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur (Sl 86.15).
Guðs ríki kemur
til okkar eins og kröftugt úthaf. Í trúnni fáum við að vera líkt og öldur í
þessu úthafi og getum hvílt í þeirri vissu, að hvað sem kemur fyrir ölduna
verði hún alltaf hluti af hafinu mikla, sem er gott að tilheyra.
Guðs ríki kemur
til okkar með Jesú Kristi þegar við skynjum og skiljum hver hann er: lifandi
frelsari, sem tekur okkur í faðm sinn, eins og móðir, sem umfaðmar börnin sín í
erfiðleikum.
Markús
guðspjallamaður staðsetur söguna sem við heyrðum, um blinda manninn sem smám
saman gat séð allt skýrt, nánast í miðjunni á guðspjallinu sínu, í 8. kaflanum
af 16 í þessari hnitmiðuðuð bók Markúsar um líf Jesú. Eitt meginþema bókarinnar
er að lesendur fá smátt og smátt að átta sig á því hver Jesús er. Þegar ritið
er lesið er því eins og við sjáum Jesú birtast okkur, skýrar og skýrar, fyrst
kannski eins og við greinum menn líkt og tré, en síðan getum við séð betur.
Í beinu framhaldi
af sögunni um blinda manninn segir Markús frá því þegar Jesús spyr lærisveinana
hvern þeir telja hann vera, og Pétur játar að hann sé Kristur, konungurinn sem
koma átti. Og þá fá lærisveinarnir loksins að vita, að Jesús eigi framundan
þjáningu og líflát en líka upprisu á þriðja degi.
Já, í þessum
heimi eigum við í höggi við erfiða og grimma sjúkdóma.
En Guð er
miskunnsamur; sá Guð sem í Jesú Kristi gekk sjálfur inn í þjáningarnar okkar,
dó á krossinum fyrir okkur, stendur með okkur í hverri raun, biður fyrir okkur,
gefur okkur gleði í þrengingunum og von í upprisunni.
Þannig ryður Guðs
ríki sér braut inn í mannlegt líf.
Og það kemur líka
til okkar:
þegar við tökum
þátt í að hlúa að hinum sjúku,
þegar við höldum
í hendur sem hafa misst krafta sína,
þegar við
heimsækjum þau sem ekki geta lengur heimsótt neinn,
þegar við höldum
í vonina, jafnvel þó að allt bendi í þveröfuga átt.
Í öllu þessu
tökum við þátt í verki Guðsríkisins; tökum þátt í að ryðja brautina fyrir
kærleika Guðs.
Og ef vel er að
gáð sjáum við Jesú birtast, kannski óljóst fyrst, eins og menn sem líkjast
trjám í fyrstu en skýrast svo, svo greinum við hann æ skýrar með kærleikann
sinn sem er sterkari en nokkurt annað afl á jörðu; við greinum hann eins og
ljósið milda sem styður okkur í rökkrinu.
Það var svo
merkilegt með ömmu heitna, eins og ef til vill fleiri kannast við sem átt hafa
ástvini með heilabilun, að þegar hún hafði verið svipt nánast öllu sem hún áður
mundi og vissi og kunni, þá hafði hún ennþá yndi af að hlusta á og rifja upp
uppáhaldssálminn sinn:
Lýs, milda ljós, í gegnum þennan geim,
mig glepur sýn,
því nú er nótt, og harla langt er heim.
Ó, hjálpin mín,
styð þú minn fót; þótt fetin nái skammt,
ég feginn verð, ef áfram miðar samt.
Dýrð sé Guði,
föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir
alda. Amen.