Hluti af skyldum Laugarnessóknar liggur í þjónustu við íbúa Hátúnsþorpsins svokallaðs, sem nær yfir íbúðarhús Sjálfsbjargar og ÖBÍ í Hátúni 10 og 12. Þjónustan birtist fyrst og fremst í nærveru djákna sem hefur vinnu- og viðtalsaðstöðu í þorpinu, heimsóknarþjónustu sóknarprests, skipulögðum viðburðum fyrir íbúa, og hálfsmánaðarlegum guðsþjónustum með þátttöku djákna, prests og organista Laugarneskirkju.
En þjónustan er líka gagnkvæm eins og fermingarbarnahópur Laugarneskirkju fékk að reyna nú í október, þegar þau fengu heimsókn frá Hátúnsmanni sem fræddi þau um ýmislegt sem snýr að aðgengismálum fatlaðra.
Kristinn Guðmundsson hefur verið íbúi í Hátúni og lifir með spastíska fötlun sem orsakaðist af heilahimnubólgu sem hann fékk þegar hann var 10 mánaða gamall. Eiginkona Kristins notar sjálf hjólastól og því þekkir hann og fjölskylda hans á eigin skinni hvernig hindranir mæta fötluðum í daglega lífinu.
Kristinn hafði meðferðis hjólastól og fékk sjálfboðaliða úr hópi fermingarbarna til að spreyta sig á ýmsum hversdagslegum vandamálum sem mæta fötluðum í daglegu lífi. Þannig fengu krakkarnir innsýn inn í hvað umhverfið er oft gjörsamlega sniðið að þörfum ófatlaðra og hvað einföldustu hlutir geta orðið að vandamálum fyrir fatlaða ef ekki er að gáð.
Samtalið við Kristin vakti öll þau sem á hann hlýddu einnig til meðvitundar um hvað umgengni getur skipt sköpum þegar fatlaðir eru annars vegar. “Skoðið hvernig þið skilduð skóna ykkar eftir í anddyrinu og ímyndið ykkur síðan hvernig það er að vera blind manneskja sem þarf að komast leiðar sinnar í gegnum skóþvöguna” beindi Kristinn til fermingarbarnanna, sem gáfu til kynna með því að kinka kolli að þau sæju sjálf að þarna væri mikið rými til að bæta og laga málin.
Fermingarbörnin voru líka á einu máli að Laugarneskirkja gæti bætt sig hvað varðar aðgengismál. Það vantar t.d. rampa til að auðvelda aðgengi í safnaðarheimilinu og ekki síst inni í kirkjuskipinu sjálfu, þar sem tröppur liggja upp að kór og altari og hindra þau sem nota hjólastóla. Að kippa þessu í liðinn er forgangsmál, segja fermingarbörnin sem urðu margs vísari eftir heimsóknina frá Hátúni.
Birtist fyrst í Reykjavík: Vikublað, 1. nóvember 2014.