Enn á ný fáum við að ganga inn í helgi og hátíð helgrar jólanætur. Ungar, tærar raddir kóranna hennar Þorgerðar Ingólfsdóttur hafa fyllt helgidóminn yndisleika og fegurð og borið englasöng og helga hljóma til okkar. Mikið er ég þakklátur ykkur fyrir það sem þið gefið af ykkur til að auðga og dýpka þessa helgu hátíð. Þakka ykkur fyrir það, kæru vinir, Guð launi það og blessi ykkur og allt sem að ykkur stendur og ykkur fylgir. Gleðileg jól! Við erum hér mörg samankomin í Dómkirkjunni í nótt - og við eigum sameiginlega reynslu með þriðjungi mannkynsins. Já, er það ekki ótrúlegt? Kristnir helgidómar eru fullir af fólki þegar um milljarður manna heldur jól um alla heimskringluna. Það tendrar ljós og gefur hvert öðru gjafir, leitast við að gefa fátækum og gleðja þau sem einmana eru og sorgmædd og ber áfram þessa sömu kveðju: Gleðileg jól! Það hlusta á sama jólaguðspjall og við og finnur sömu kennd og við þegar við heyrum orðin: „En það bar til um þessar mundir....“
Það rifjar upp sömu söguna og syngur jafnvel sömu sálmana, fólk á ystu heimsendum og af öllu litrófi mannkyns. Danadrottning, Gordon Brown og Barak Obama eiga það sameiginlegt að ganga til kirkju í kvöld og syngja og biðja fyrir friði á jörðu. Engin nótt er eins og þessi, þar sem svo margir safnast saman um sama boðskap og sömu bæn. Enda er heimurinn með öðrum blæ þessa háhelgu nótt. Tökum eftir því! Ríkir og snauðir, háir sem lágir leita til jötunnar til að dvelja þar um litla stund ásamt Maríu og Jósef, hirðum, englum og öðrum þeim sem lúta barninu í trú og kærleika, barninu sem liggur í jötunni. Við grípum til strengjanna sem innst og dýpst liggja og þreifum á barnslegu öryggi þegar helgi jólanætur er yfir og allt um kring og kvíði, áhyggja og órósemi hjartans og kröfurnar þungu eru svo fjarri. Og við njótum fegurðar í ljósum og hljómum og hrífandi söng. Látum það eftir okkur! Leyfum okkur að hrífast og njóta í helgri kyrrð við jötu barnsins Jesú. Leyfum yndisleik jólanna að snerta við okkur eins og milda englavængi, og laða okkur að birtu og fegurð himnanna.
Þér finnst þetta ef til vill einber tilfinningasemi án viðfestu við harðan raunveruleikann. Nei, það er það ekki. Þetta er raunveruleikinn! Þetta er lífið. Hvað er raunverulegra en lítið barn?
Sú saga er sögð að þegar heilagur Frans frá Assisi var lítill drengur – ég vona að þið kannist við hann, og ef ekki þá getið þið gúgglað hann! - hafi hann eitt sinn verið í kirkju á jólum þar sem lærður doktor frá Bologna talaði. Doktorinn átti svör við öllu og vissi allt um það hvers vegna Guð gerðist maður. Hann talaði lengi, lengi. Lokst gat Frans litli ekki stillt sig lengur. Hann hrópaði: „Þagnaðu, svo ég geti heyrt Jesúbarnið gráta.“
Í kyrrð helgrar jólanætur skulum við hljóðna hið innra og leitast við að heyra Jesúbarnið gráta, og hjala, já og skríkja. Það er rödd Guðs, grátur og bros Guðs, sem leitar viðbragða þinna.
Við þekkjum öll hve undursamlegt það er þegar barn fæðist, hvernig allt ummyndast og tekur á sig annan blæ. Ungbarn vekur tilfinningar auðmýktar, umhyggju og gleði, jafnvel þótt því geti fylgt grátur og andvökunætur. Barnið krefst viðbragða af okkar hálfu, viðbragða umhyggjunnar. Það snertir innstu hjartastrengi sérhverrar ærlegrar manneskju.
Ég heyrði annars ágæta sögu um hann Nonna litla. Hann horfði á litla bróður sinn, nýfæddan, grenja af öllum lífs og sálar kröftum. Nonni leit á mömmu sína: Hvað sagðirðu? Hvaðan kom hann? Hann kom frá Guði, Nonni minn. Vaáá, nú skil ég hvers vegna honum var hent út!
Barnið í Betlehem grætur líka í nótt. Við skulum ekki loka hlustum okkar og hjörtum. Í þeim gráti heyrum við þrá Guðs eftir því að heimurinn okkar verði hlýr og fagur á ný, að hjörtu okkar ljúkist upp fyrir umhyggjunni. Og við skulum bregðast við.
Guð vill móta okkur sem manneskjur sem finna til með öðrum, og bregðast við til hjálpar.
Skáldið Ísak Harðarson yrkir í nýju ljóðabókinni sinni ljóð sem hann nefnir: Ungar
Sá eini sem snerti þá er sá sem klæddi þá fiðrinu, sá sem orti í þá beinin og kveikti í þeim augunsá sem að setti af stað hjörtun og hjarta þitt líka
og fyllti okkur óendanlegri þrá
eftir sér.
Skáldið orðar hér hina kristnu staðhæfing: Guð skapaði þig fyrir sig, fyllti þig óendanlegri þrá eftir sér. Hjarta þitt fær aldrei frið uns það hvílist í honum í trú. Með því að fæðast sem barn inn í þennan heim vill Guð laða fram hið besta í okkur og leysa úr læðingi umhyggjuna, kærleikann sem trúir, vonar og umber allt og fellur aldrei úr gildi. Þess vegna birtist Guð ekki sem ofurhetja eða yfirþyrmandi kraftbirting, né heldur sem ógnvænlegur andi liðinna eða ókominna jóla. Hann birtist sem varnalaust, fátækt barn í fjárhúskró. Í Jesúbarninu þráir Guð þig eins og barn þráir mömmu sína og kallar eftir athygli hennar og umhyggju. Og þeirri þörf verður ekki mætt með bloggfærslu, commenti á feisbókinni, eða SMS, heldur aðeins með höndum, augum, eyrum, rödd og örmum.
Í Jesúbarninu er Guð að sýna þér hvað mest er og mikilvægast alls. Allt sem er fagurt, gott og bjart er blikið af birtunni hans. Þú getur hugsanlega haft ótal ástæður til að bregðast ekki við englasöng, en geturðu látið sem ekkert sé þegar barnsgrátur berst þér að eyrum?
Guð á sér marga engla, sendiboða Guðs, sem á einn eða annan hátt bera vitni um góða, fagra og bjarta í dimmum heimi. Þeir eru fæstir vængjaðir. Slíkir sendiboðar er einmitt það sem heiminn okkar vantar umfram allt nú: „Verið óhræddir. Yður er í dag frelsari fæddur!“
Hljóðna nú hið innra og hlustaðu. Hlustaðu á grát barnsins, á söng englanna og orð jólanna.
Ég blessa þig blessun englanna
Engill fegurðarinnar blessi þig og beini til þín straumum blessunarinnar Vökuengillinn veki hjarta þitt til að ljúka upp fyrir öllu því góða sem umhverfis þig er Engill lækningarinnar ummyndi sár þín í svalandi lindir þér og öðrum til heilla. Engill innsæisins geri þér fært að standa á þröskuldi óvissunnar og koma auga á möguleika og tækifæri til góðs. Engill samúðarinnar opni augu þín fyrir þeim ósýnilegu þjáningum sem aðrir bera. Engill ævintýranna trufli einhæfni og rjúfi fjötra vanans, leiði þig á óvæntar slóðir þar sem allt sem ónáðar þig fellur í ljúfa löð. Engill ástarinnar ljúki upp fyrir þér fegurð tilfinninga þinna og fagni arfleifð þinni sem musteri heilags anda. Engill réttlætisins trufli þig og knýi til að taka málstað hinna snauðu og kúguðu. Engill uppörvunarinnar staðfesti í þér sjálfsvirðingu þína og heila sjálfsmynd svo þú megir lifa með þeirri reisn sem sál þín býr yfir. Engill dauðans vitji þín þá fyrst þegar líf þitt er fullnað og þú hefur borið hverja góða gjöf að fótskör eilífðar Allir góðir englar verndi þig og gleðji.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen