Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Jóh 14:27
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen
Á morgun er í dag. Augnablik þessarar stundar er á morgun. Ég hef tekið ákvörðun um fyrir mína hönd að svo skuli vera framvegis. Framtíðin er núna á þessu augnabliki. Ég lifi ekki fyrir þessa stund heldur á morgun. Augnablikið og þau hughrif sem það færir með sér er ekki til vegna þess að ég er komin fram úr sjálfum mér frá og með þessari stundu. Ekki endilega um einn dag heldur hef ég gefið mér sjálfsvald til þess að vera komin viku eða mánuðum fram úr sjálfum mér eftir því sem mér hentar.
Einhver kann að segja að þetta er ekki hægt. Þú kemst ekki hjá því að finna sjálfan þig eða finna fyrir sjálfum þér í augnablikinu. Annað eru hugarórar sem má finna í vísindaskáldskap. Sá skáldskapur finnur sér ekki stað í lífinu sem við lifum ekki frekar en annar skáldskapur. Þrátt fyrir að gróðurmold skáldskaparins er að finna í lífinu, þessu hversdagslega sem virðist ekki breyta um ásýnd og verður grámygluleg og við reynum að hlaupa frá eftir bestu getu. En aftur að þessu með að geta ekki í rauntíma lifað framtíðna nú á þessu augnabliki. Þá er því til að svara. Jú, víst er það hægt. Það er allt hægt ef viljinn sé fyrir hendi segir einhverstaðar. Í raunveruleikanum lifum við flest svona. Líf okkar nútímamanneskja allavega á vesturhveli jarðar er akkúrat þannig að við leyfum okkur ekki að staldra við í augnablikinu og njóta þessa sem hefur svo margt við okkur að segja hvað bíður okkar á þeirri hárfínu stundu sem er á milli augnblikana og við erum gjörn á að kalla einskisverð en er svo djúp og breið, full af visku þess sem er. Við getum ekki staðnæmst við þá hugsun vegna þess þegar til á að taka að njóta erum við komin fram úr okkur og augnablikin mörg að baki. Við segjumst ætla að njóta augnabliksins en gerum það ekki því að hugurinn hefur leitt okkur áfram til þess sem gæti verið - seinna. Ekki sem er núna. Hugtakið “seinna” klæðum við í föt augnabliksins. Hvernig þau föt líta út er ekki hægt að segja til um vegna þess að þegar til á að taka að skoða þau eru þau ekki eins og þau voru augnabliki áður.
Hollusta drauma.
Flest okkar ef ekki öll eiga sér drauma og væntingar um framtíðina þá sérstaklega á tímamótum sem þessum um áramót. Allt gott um það að segja. Að eiga sér drauma um eitthvað er hollt. Væntingar og draumar gera lífið líka flóknara. Ég hef staðið sjálfan mig að því að hugsa sem svo að ég vildi ég ætti mér ekki drauma og væntingar því það segir sig sjálft að þá væri lífið mun einfaldara. Er það ekki sem við erum að leita af, eftir einföldu og fyrirsjáanlegu lífi. Kannski ekki þegar það er hugsað ofan í kjölin. Vandamálið við að eiga sér drauma og væntingar eru þær að við verðum um of upptekin af því að láta þá rætast. Með öðrum orðum að lífið snýst um það að láta eitthvað rætast eitthvað óræðið í stað þess að leyfa okkur að láta það koma okkur á óvart svona stundum. Lífið er langur vegur og leiðirnar margar að markmiði því sem við sjálf setjum okkur í lífinu. Oftast er það svo að okkur liggur á að nema framtíðarlönd væntinga og drauma okkar. Til þess að svo megi verða erum við tilbúin að leggja ýmislegt á okkur og leggjum kannski ekki hugan að því áður, hvernig eða á hvern hátt við nálgumst markmiðið. Orsök og afleiðing gæti verið sú að við upplifum markmiðið áður en nálgunin hvernig sem hún verður er náð. M.ö.o. við förum fram úr sjálfum okkur. Þegar okkur finnst að við nálgumst eða stöndum upp að mitti í miðju augnabliksins sem var í bláma fjarlægðar fyrir ekki svo margt löngu er það ekki lengur spennandi og við höldum áfram að ganga um dali og hæðir væntinga okkar og drauma. Vegna þess að væntingarnar og draumarnir voru ekki fullmótaðir eða ekki var innistæða fyrir þeim, búin að taka væntingarnar og draumana út svo að við höldum ferð okkar áfram á kredit. Snúum við hverri steinvölu sem á vegi okkar verður til þess örugglega að missa ekki af því sem við leitum af. Þessa sem við leitum er vissulega mismunandi. Á meðan ein/nn leitar auðs er annar/önnur að leita kyrrðar og enn annar/önnur af sjálfum sér.
Slæmir draumar.
Það er tiltölulega auðvelt að setja á blað og nefna hvað það er sem við leitum að. Við leitum af óhamingju, vanmegun og hverju því sem færir okkur vanlíðan í erli dagsins. Þannig hefur það verið og þannig mun það vera. Þessi hugtök voru ekki fundin upp í gær og reynd í dag. Er það ekki skrítið hvernig þessi hugtök eða tilfinningar sækja okkur en við leitum þeirra ekki. Eru svo tilbúin að þvælast fyrir fótum okkar. Við leitum hamingjunnar og velmegunar en virðist haldast illa á þeim. Afhverju leitar ekki hamingjan af okkur? Það er akkúrat þetta að það er svo auðvelt að nefna þessi hugtök en annað að gera þau að raunveruleika lífs okkar í núinu. Það má líkja þessu við slæman draum. Í slæmum draumum eða martröðum erum við á hlaupum eftir einhverju en náum aldrei þangað sem við ætlum okkur og í ofanálag er einhver eða eitthvað óræðið á eftir okkur. Hvers þörfnumst við og hvernig nálgumst við þá þörf er eilíf, á sér ekki bústað í tíma, heldur er eitthvað sem við öndum að okkur nýtum það efni sem þar er að finna og skilum síðan afgangnum til baka. Það verður ekki skilgreint á nokkurn hátt. Ekki þannig að ein algild sannindi sé að finna. Sú manneskja er ekki til er á sér ekki drauma misstóra að vísu.
Frá þeirri stundu sem við grípum andan á lofti og lítum þennan heim augum er um leið lagðar á okkur skyldur. Hvort heldur það erum við sjálf eða samferðafólk okkar. Ekki aðeins skyldur heldur og líka skyldur sem við á einhvern dulafullan hátt teljum okkur í trú um að verði að framfylgja og á sama hátt annað látið bíða. Þetta eru eins og skyldur heimilisins, skyldur skólans og þaðan í skyldur atvinnunar, skyldur gagnvart maka, skyldur gagnvart barni eða börnum, skyldur á skyldur ofan. Þetta hljómar kalt og fráhindrandi í eyrum manneskja er líta á frelsið til athafna eigi ekki að vera bundið í klafa skilgreiningar á hvernig við eigum að lifa lífinu. Það er engin undankomuleið frá skyldum hvort sem okkur líkar betur eða verr. Í öllum þessum “skyldu” skógi viljum við reyna eftir mætti að skynja og sjá toppana og gleyma því sem við fætur okkar eru - því smáa. Við teljum okkur trú um að það skipti ekki máli vegna þess að við horfum til framtíðar og hún er svo óendanlega stór-framtíðin sérstaklega á þessum síðustu stundum ársins 2008.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verðu um aldir alda. Amen