Nokkur umræða hefur orðið um helgidagalögjöf landsmanna í kjölfar þess að nokkrir kaupmenn ákváðu að brjóta lög og vekja þar með athygli á vissri mismunun sem á sér augljóslega stað í skjóli téðra laga.
Og fjölmiðlar hafa kallað til talsmenn hagsmunahópa til að ræða málið. Meðal spurninga er hvort ekki sé óeðlilegt að hafa sérstaka helgidagalöggjöf í fjölhyggjusamfélagi. Sú spurning á fullan rétt á sér en hins vegar játa yfir 90% landsmanna kristna trú og tilheyra þjóðkirkjunni, lútherskum fríkirkjum, rómversku kirkjunni og ýmsum söfnuðum á væng hvítasunnuhreyfingarinnar.
Og svo höldum við líka upp á 17. júní og spyrjum þau ekki ráða sem eru með annað ríkisfang og finnst þessi dagur engu skipta. Svona er það nú í flestum þjóðfélögum, meirihlutinn ræður og hefðin. Menningarþjóðir á meginlandi Evrópu hafa flestar mun þrengri löggjöf um opnunartíma verslana en Íslendingar. Og meðal þessara þjóða eru mun fleiri innflytjendur og fólk af öðrum trúarbrögðum. Samt er löggjöfin þrengri. Ætli það sé ekki vegna þess að fólk þarf frí og styttri opnunartími er neytendum í hag.
Hvíldin er gjöf
Hins vegar þykir mér alveg hafa gleymst í allri þessari umræðu að helgidagarnir eru gjöf, frelsandi gjöf handa sístarfandi fólki. Hvíldardagurinn er gefinn mönnum vegna manna. Hvíldardagsboð Gyðinga sem kristnin tók í arf er fagnaðarerindi, gleðitíðindi, lausnarorð. Hvíldardaginn fengu allir frí, menn og skepnur, þrælar og frjálsir menn. Hann var og er gjöf handa vinnandi fólki. Helgidagalöggjöfin er til þess að gefa fólki frí svo að það geti iðkað trú sína, notið menningar, útiveru og annarrar iðju sem byggir upp líkama, sál og anda.
Ef fólk þekkir ekki sinn vitjunartíma og nýtir þessa daga ekki sjálfu sér til uppbyggingar og til að hlaða dvínandi kraftinn í batteríunum þá er það þeirra mál. Trúin og starf kirkjunnar er og verður ætíð tilboð. Starf kirkjunnar byggir ekki á þvingandi þátttöku heldur leitast hún við það með skipulagi sínu um land allt að allir hafi aðgang að helgihaldi og trúarlegri uppbyggingu, hvern helgan dag.
Og helgidagalöggjöfinni er ætlað að styðja þetta starf og annað menningarstarf sem er í þágu lífsins. Manstu þegar Sjónvarpið hélt sinn hvíldardag? Var það ekki dásamlegt? Væri ekki þjóðráð að gefa öllum fjölmiðlum frí einn dag í viku? Enisval þeirra og framboð þolir án efa vikulegan hvíldardag.
Hver borgar?
Ég get alveg skilið skoðanir sumra um að verslanir eigi vera opnar alla daga, öll kvöld, allar nætur. En það kostar mikla peninga og það þarf fólk til að vinna allar þessar vaktir. Sjálfum þykir mér fara best á því að þjóðin gangi í sem líkustum takti og að næturvaktir vinni þær stéttir einar sem sinna störfum eins og t.d. við hjúkrun, löggæslu, eldvarnir og björgunarstörf. Flest önnur störf í skjóli nætur eru í sjálfu sér óþörf.
Mér er sagt að verslunin Fjarðarkaup í Hafnarfirði hafi mjög oft mælst með lægst vöruverð á höfuðborgarsvæðinu. En svo hætti verslunin að skora jafn oft og fyrr í þessum könnunum. Leitað var skýringa og aðspurður svaraði verslunarstjórinn því til að hann hefði neyðst til að hafa opið á sunnudögum eins og aðrir stórmarkaðir og þar með hefði verðið hækkað á allri vöru og þjónustu. Svo einfalt er nú það. Við borgum fyrir næturvaktirnar og óþarflega langan vinnutíma.
Frelsi til hvíldar
Enginn dagamunur er ekki aðeins dýrari, heldur óhollur bæði einstaklingum og þjóð. Þá hverfur öll tilbreyting eitthvað út í buskann og verðu eins og margt í meintu landi frelsisins, landi Buskans. Vera má að hagfræðingar geti reiknað út hið gagnstæða ef þeir hugsa hag einungis í krónum og aurum. En hagur er víðtækara hugtak. Hvíld er hagkvæm, hún er hagfræðileg stærð.
Við þurfum hvíld enda hefur Guð talað af umhyggju sinni og hvatt okkur til að halda hvíldardaginn heilagan. Til þess höfum við frelsi. Frelsi er ekki fólgið í einhverjum galopinskap á öllum sviðum. Ótakmarkað frelsi leiðir af sér helsi. Frelsi og takmörk heyra saman. Styttum opnunartíma verslana og njótum frelsis og hvíldar! Frelsið er yndislegt!