Miðvikudagur

Miðvikudagur

Í dag er miðvikudagur í kyrru viku. Helgasti tími ársins fer í hönd, dagar dýpstu alvöru og algerrar þverstæðu kristinnar trúar. Píslarsaga frelsarans fjallar um svik, vonbrigði, einmanaleika, örvæntingu, afneitun, háð, höfnun, þjáningu og dauða. Það sama endurtekur sig daglega í lífi og samskiptum fólks um víða veröld.
fullname - andlitsmynd Ólafur Jóhannsson
19. mars 2008

Í dag er miðvikudagur í kyrru viku. Helgasti tími ársins fer í hönd, dagar dýpstu alvöru og algerrar þverstæðu kristinnar trúar. Píslarsaga frelsarans fjallar um svik, vonbrigði, einmanaleika, örvæntingu, afneitun, háð, höfnun, þjáningu og dauða. Það sama endurtekur sig daglega í lífi og samskiptum fólks um víða veröld. Hið illa hefur of sterk ítök, fær of mikið svigrúm. Okkur er óljúft að nema staðar við píslarsöguna. Hún er svo óþægilega sígild og sönn að því er varðar mannlegt eðli. Tilgangslaus og óþörf neyð og þjáning er hræðilega algeng í veröldinni. Fjölmiðlar minna daglega á þá staðreynd. Saklausum er misþyrmt grimmilega og líf þeirra lagt í rúst, nær og fjær.

Þannig var farið með Jesúm Krist. Hann var fórnarlamb og krossinn miskunnarlaust aftökutæki. Okkur er hollt að minnast þess og horfast um leið í augu við þá staðreynd að gerendurnir, óvinir hans, voru ekki verra fólk en ég og þú. Það er sárt því það er satt. Stríð og borgarastyrjaldir í sögu og samtíð staðfesta að varmennskan býr í öllu mannkyni og við tilteknar aðstæður nær hún yfirhöndinni í ágætasta fólki. Þess vegna er heimurinn á heljarþröm. Ástandið er svo alvarlegt að lífi Guðs sonar var fórnað. Það er boðskapur föstudagsins langa.

En við værum ekki kristin ef píslarsagan væri allt og sumt og krossinn endalokin.

Þverstæða kristinnar trúar felst í því að aftökutækið verður sigurmerki og niðurlægingin leiðir af sér upphefð. Kristin trú boðar að handan krossins er upprisa, sigur og von.

Skuggar föstudagsins langa draga fram birtu páskanna. Hvorugt stenst án hins: Án páskanna er föstudagurinn langi eingöngu hyldjúpt vonleysi. Án föstudagsins langa vantar páskana hljómbotninn. Dauði er forsenda upprisu.

Kristur dó í þágu okkar. Dauði hans er líf okkar. Upprisa hans er tækifæri okkar.

Öll illska, synd og grimmd heimsins var krossfest með Kristi. Sjálfur líður hann með öllum sem þurfa að þjást. Hann skilur aðstæður þeirra, gefur þeim styrk, tekur við þeim.

En ekki það eitt: Í Kristi rísum við upp til að lifa með honum að eilífu og þjóna sannleikanum, mildinni og voninni.

Við lifum áfram í veröld þar sem illskan æðir í mörgum myndum. Samt erum við aldrei endanlega ofurseld henni. Kærleikur Guðs í Kristi er sterkari en sérhver mynd hins illa. Þess vegna felur alvara kyrru viku einnig í sér fögnuð, þakklæti og æðruleysi. Það er dýpt hennar, byggð á þverstæðu kristinnar trúar.