Nú erum við hér saman komin alls konar fólk úr öllum áttum eldsnemma á lögbundnum frídegi þegar við hefðum flest bara getað legið á okkar kodda. En það sem dregur okkur saman er gleðin yfir tilverunni, lífsfögnuðurinn í hjartanu.
Sagan um Jesú er ekki bara saga í huga okkar heldur birtir hún okkur raunverulega lífsmöguleika. Þess vegna erum við hér. Það sem um Jesú varð er einhvern veginn ekki bara um hann heldur líka um okkur, og það svo rækilega að við höfum fyrir því að hittast hérna á þessum furðulega tíma. Hvað er þetta eiginlega? - Enginn getur svarað því með einföldum hætti. Og sjálfsagt er manni hollast að tala bara fyrir sjálfan sig. Í mínum huga er páskadagsmorgunn sigurstund og mig grunar að hann sé það í lífi okkar flestra. Við rísum á fætur þennan morgun í undarlegari sigurvissu. “Verið hughraust” mælti Jesús. „Verið hughraust, ég hef sigrað heiminn.”
Hugsaðu þér ef t.d. Napóleon hefði sagt þetta. Hefði Napóleon Bónabaparte lyft sverði sínu og hrópað yfir fylgismenn sína í upphafningu: Ég hef sigrað heiminn! Í sögubókum allra menntaskóla væri sérstakur kafli helgaður brandaranum. Ef Karl mikli hefði gert þetta eða ef Pútin Rússlandsforseti kallaði þetta yfir rauðatorgið í hita leiksins. Alþjóðasamfélagið leggðist á hliðina og fréttastofur þyrftu ekki annað efni þá vikuna. Ég hef sigrað heiminn! Engin persóna veraldarsögunnar kæmist upp með að láta slík firn sér um varir líða nema Jesús. Hvað er þetta? Hvers vegna er eins og eitthvað segi manni að hann megi þetta? - Er ekki best að hver svari fyrir sig?
Ég held að þetta varði lífsfögnuðinn. Mér virðist að hin djúpa gleði í mannshjartanu hafi á sér einhvern sjálfvirkan sleppibúnað sem þekkir sannleikann þegar hann hljómar. Manstu líkingu Jesú um góða hirðinn sem kallar á sauði sína með nafni og þeir fylgja honum af því að þeir þekkja raust hans? „En ókunnugum fylgja þeir ekki” útskýrir Jesús. (Jóh.10) Og í upphafi Jóhannesarguðspjalls segir: Öllum þeim sem tóku við [Jesú] gaf hann rétt til það vera Guðs börn. (1.12)
Það er ekki hlutlaus afstaða að líta á sig sem Guðs barn. Barnarétturinn er einhver sterkustu réttindi sem hægt er að eiga. Þú ávinnur þau ekki, þú fæðist sem barn þinna foreldra og átt á þau skýlausa kröfu. Góðu fréttirnar af Jesú eru m.a. þær að gjafari lífsins vill að þú gerir til hans skýlausa kröfu. Guð vill að þú standir í skjóli hans og þegar þú lítur í kringum þig vill hann að þú vitir að þú átt þetta allt. Þú ert erfinginn. Þannig má e.t.v. segja að Jesús endurskilgreini hvað það er að vera manneskja. Hann staðhæfir að við séum fædd til að vera glöð og að okkur sé ætlað að lifa í fögnuði. Skynjum við það ekki líka sjálf hvernig fögnuðurinn liggur lífinu við hjartastað? Hversu fegin erum við þegar barn sem við elskum hlær í fyrsta sinn? Þá finnst okkur þessi litli einstaklingur orðinn svo mikill hluti af lífinu, hluti af samfélagi okkar með dýpri hætti.
Gleymum því ekki að fyrsta kraftaverk Jesús varðaði fögnuðinn og gleðina þegar hann bjargaði ungum brúðhjónum frá þeirri hneysu að vín þryti í veislunni þeirra. Hann vildi varðveita gleðina. Og þegar hann gefur vinum sínum líkinguna af vínviðnum og útskýrir að hann sé vínviðurinn en við séum greinarnar og allir sem þekkja vínvið vita að vínviðurinn hefur engan stofn heldur er hann allur eitt greinasafn þá útskýrir hann mál sitt og segir: „Þetta hef ég talað til ykkar til þess að fögnuður minn sé í ykkur og fögnuður ykkar sé fullkominn.” (Jóh. 15) Og svo þegar Jesús var að undirbúa vini sín undir alla skelfinguna í kringum handtökuna og dauðann á Golgata mælti hann: „Þegar konan fæðir er hún í nauð því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þið nú hryggir en ég mun sjá ykkur aftur og hjarta ykkar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.” (Jóh. 16)
Er það ekki þetta? Er það ekki trúarvissan, vitneskjan um það að eiga líf og gleði sem ekki er hægt að ræna? Er það ekki það sem sameinar okkur svo að okkur langar til að koma saman, signa okkur öll í einu, lúta skapara okkar á páskadagsmorgni, hlusta á og syngja með eftir atvikum þessa klassísku páskasálma, heyra gamla hátíðartónið og rísa svo á fætur til að hlýða á upprisufrásögnina. Það er eitthvað þarna sem enginn getur frá mér tekið, - engir sjúkdómar, engin sorgaráföll, engar kreppur eða náttúruhamfarir, ekki einu sinni mín eigin heimska og vesaldómur verður stærri en sá sigur sem Jesús hefur unnið á krossinum og með upprisu sinni. Og maður er bara svo feginn þessu. Það er bara svo gott að finna þetta og vita þetta.
Jesús birtir hinn frjálsa mann. Hann birtir mennskuna eins og hún er og má vera og skal vera. Þess vegna eru sögurnar um hann svo upplýsandi og gagnlegar, fullar af bjargráðum og hjálpræði.
Mig langar að segja þér annað sem ég held í þessu sambandi. Mér virðist lífsfögnuðurinn ekki vera eitthvað sem maður ákveður. Ég held ekki að maður afráði dag einn að gerast nú glaður. Hins vegar getur maður einsett sér að vera umhyggjusamur. Ég vakna ekki einn morgun með þann ásetning að taka mig nú til og gefa fögnuðinum rými í hjartanu. Á hinn bóginn get ég valið að sýna virðingu. Það hefur nefnilega verið dálítið í tísku að vera hress, sem er í sjálfu sér gott, við ættum að venja okkur á jákvæða lífsafstöðu og temja okkur gott göngulag í lífinu. En gróðurmold hinnar djúpu gleði er umhyggjan og virðingin. Þetta blasir við þegar við skoðum Jesú. Fagnaðarerindi hans var alltaf í beinum tengslum við umhyggju og virðingu. Matteus lýsir þessu m.a. þannig að „Jesús fór [...] um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. En er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa.” Í beinu framhaldi segir hann við lærisveina sína: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Matt. 9)
Jesús kallar á okkur, hann biður okkur um að taka þátt í verki sínu, flytja góðu fréttirnar með því að sýna umhyggju og virðingu fyrir heilsu og öryggi fólks. Þetta er ekkert flókið en maður þarf samt að skilja þetta: Leiðin að gleðinni er ekki gleðin sjálf heldur finnum við gleðina með því að þjóna öðrum af umhyggu og virðingu.
Í nær hverri kirkju landsins á föstudeginum langa er sunginn sálmurinn hans Davíðs Stefánssonar Ég kveiki á kertum mínum. Sá sálmur á rætur í umhyggju og virðingu sem auðsýnd var í Jesú nafni. Í bók sem Friðrik G. Olgerisson ritaði um skáldið er sagan sögð: „Á páskum árið 1924 var Davíð Stefánsson skáld staddur á gistiheimili einu í Lillehammer í Noregi. Einn gestanna á hótelinu var ung kona með litla stúlku sem var svo bækluð að hún gat ekki gengið. Við matarborðið á morgni föstudagsins langa veitir Davíð því athygli að litla telpan þrábiður móður sína að fara með sig í kirkju. Móðirin virðist hafa um annað að hugsa og telpan talar fyrir daufum eyrum. Davíð kennir í brjósti um litlu stúlkuna og hefur frá æsku aldrei neitt aumt mátt sjá og fyllist löngun til að gera eitthvað fyrir hana. Hann gefur sig því á tal við ungu konuna og býðst til að fara með dóttur hennar í kirkju. Hún tekur boðinu feginshendi og þegar kominn er messutími tekur Davíð barnið í fangið og ber það til kirkjunnar. Guðsþjónustan var hátíðleg en látlaus. Engu var líkarar en sannur andi kæmi yfir skáldið og hann sér Krist í sýn. Þegar Davíð var búinn að skila stúlkunni til móður sinnar, dregur hann sig í hlé og sest við borðið í hótelherbergi sínu. Þar verður til eitt fallegasta og hrifamesta trúarljóð á íslenskri tungu: (Friðrik G.Olgerisson, 2007, Snert hörpu mína, JPV útgáfan s. 172)
Ég kveiki á kertum mínum við krossins helga tré. Í öllum sálmum sínum hinn seki beygir kné. Ég villtist oft af vegi. Ég vakti oft og bað. Nú hallar helgum degi á Hausaskeljastað.
Ég fell að fótum þínum og faðma lífsins tré. Með innri augum mínum ég undur mikil sé. Þú stýrir vorsins veldi og verndar hverja rós. Frá þínum ástareldi fá allir heimar ljós.
Trúarreynsla Davíðs frá Fagraskógi átti rætur í hlýðni hans við kærleikskröfu Krists. Umhyggja hans fyrir stúlkunni og virðing hans fyrir vilja hennar var leiðin að þeim djúpa fögnuði sem hann eignaðist og lýsir í sálminum.
Við komum ekki saman á þessum morgni til þess að rifja upp eitthvert trúarkerfi. Við syngjum ekki sálma og hlustum á texta af ótta við að ryðga í fræðunum og klikka á eilífðinni. Trúin á Jesú er hvorki kerfi eða kunnátta og það eru engin kristin trúarbrögð til. Þetta snýst bara um að vera vinur Jesú, - hann er vínviðurinn, við erum greinarnar: „Þetta hef ég talað til ykkar til þess að fögnuður minn sé í ykkur og fögnuður ykkar sé fullkominn. Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað ykkur. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þið eruð vinir mínir ef þið gerið það sem ég býð ykkur.”
Gleðilega páska