Kirkjustríð og kirkjuþrjóska

Kirkjustríð og kirkjuþrjóska

Það þýddi ekki að banna Akureyringum að bæta kirkjuaðstöðu sína. Þeir iðkuðu líffvænlega kirkjuþrjósku! Í mikilvægum málum skiptir öllu að hafa markmiðin skýr. Prédikun í lokamessu Kirkjudaga Akureyrarkirkju 2006 fer hér á eftir.

Guðspjall: Matt. 15.21-28 Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda. En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum. Hann mælti: Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt. Konan kom, laut honum og sagði: Herra, hjálpa þú mér! Hann svaraði: Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana. Hún sagði: Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra. Þá mælti Jesús við hana: Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt. Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.

Kirkjuþrjóska Ég skemmti mér við nú í vikunni að lesa sögu Akureyrarkirkju. Þar er margt stórbrotið. Sérkennileg átök urðu um öflun byggingarefnis til kirkjunnar. Í aðdraganda heimsstyrjaldar varð n.k. kirkjustríð upp á Íslandi, milli ríkisstjórnar annars vegar og byggjandi kirkjumanna á Akureyri hins vegar. Stjórnvöld skömmtuðu og gerðu aðdrætti fyrir kirkjubygginguna erfiða. Vegna þvergirðingsháttar hins opinberra fór sóknarnefnd og prsetur að hegða sér eins og skæruliðahópur, keypti í óleyfi 100 tunnur af sementi hér og 600 tunnur þar og annað efni, sem gæti potað kirkjunni upp. Ráðherran, Eysteinn Jónsson, var sagður hafa hótað byggingarstoppi og með hjálp lögreglu ef ekki vildi betur! Æ fleiri blönduðu sér í málin og jafnvel kommúnistarnir í bænum lögðu kirkjunni lið! Einn þeirra lofaði, að kirkjan yrði varin svo engar semenstunnur yrðu gerðar upptækar. Guðjón Samúelsson, húsameistari, tilkynnti svo sigurinn í bréfi, að fjármálaráðherran Eysteinn hefði gefist upp, komist að því að stríðið við Akureyringa væri tapað – það þýddi ekkert að banna Akureyringum að byggja kirkjuna, þeir myndu gera það hvað sem yfirvöld segðu!

Þetta er flott saga, þýðir ekkert að banna Akureyringum að bæta kirkjuaðstöðu sína. Þetta er líffvænleg kirkjuþrjóska! Í mikilvægum málum má skeytingarleysi ekki stjórna, heldur skiptir öllu að hafa markmiðin skýr.

Trúarþrjóska Kanverska konan í guðspjallstexta dagsins hefði kunnað vel við sig á Akureyri, ekki bara vegna þess að hér er alltaf besta veðrið á landinu, heldur hafði konan í sér stefnufestu. Erindið var brýnt, dóttir hennar veik og lækningar höfðu brugðist. Jesús var einn eftir og allt traust var sett á hann. Jesús brást við þessari konu, sem kom með ópum, neitaði að fara og var beinlínis pirrandi. Hann reifaði málin, en kannski var hann ekki síður að kenna lærisveinum sínum en tala við konuna. Átti hann að hjálpa útlendingi, sem var þar að auki kvenkyns? Það var nú ekki sjálfsagt í hinu gyðinglega samfélagi. Með því að reyna bæði rök konunnar og þanþol lærisveinanna molaði Jesús niður ofurlítið af fordómum um forréttindi Gyðinga, ágæti þeirra umfram aðra og að hlutverk Jesú væri meira en við eina borg, eitt landsvæði, eina þjóð.

Inn í þessa kennslustund fléttaði konan sókn sína og Jesús fræddi. Konan vissi auðvitað að hún átti engan rétt, en var þrjósk og bað um miskunn, bað hina einföldu bæn: “Herra, hjálpaðu.” Hún var komin lengra en lærisveinarnir og vissi, að þessi Jesús gat hjálpað og minnti á að hundarnir borði molana sem detta. “Drottinn miskunna” og orðin á grískunni eru Kyrie eleison, sem kór Akureyrarkirkju syngur oft í kirkjulegum verkum og við sungum líka öll áðan. Bæn konunnar, Bartímeusar blinda og annarra, sem leituðu til Jesú urðu messubæn kirkjunnar – bæn um guðlega hjálp. Kirkjuþrjóska varð hluti messuhefðar okkar.

Hjálpa útlendingum? Kemur þessi saga okkur við? Er þetta ekki ein af þessum sætu sögum um að Jesús hafi verið atvinnugóðmenni, sem lét ekki fordóma samfélagsins hindra sig? Er eitthvað þarna, sem skiptir okkur máli og við ættum að taka til okkar? Konan var útlendingur, en Jesús vildi að hans fólk neitaði ekki útlendingum um lífsbjörg.

Hverjir eru útlendingar í lífi þínu og Akureysku samfélagi? Varla eru það Þingeyingar eða Svarfdælingar! Þetta samfélag, rétt eins og í öðrum landshlutum Íslands er að breytast í fjölmenningarsamfélag. Ertu útlendingunum “Jesúbróðir” besti? Tekur þú á móti þeim og gerir þeim gott, leyfir þeim að finna að þú vilt bæði reisa dóttur þeirra og þau sjálf, leyfir þeim að vera í hópnum en ekki utan? Opnar þú fyrir þeim?

Við getum líka séð “útlendinga” í öðrum hópum. Samkynhneigðir hafa verið utan mæranna og hafa nú knúð á og beðið um aðstoð. Erum við, söfnuður Jesú, tilbúin að opna fyrir þeim, leyfa þeim að njóta? Eða viljum við jafnvel ekki leyfa þeim að njóta molanna af okkar borðum? Eru einhverjir hópar í þessu samfélagi, sem eru neðarlega í metastiganum – og við ættum að styðja? Þeirra söngur er: “Herra hjálpaðu.” Meðan við syngjum konubænina og bæn Bartímeusar: “Drottinn miskunna þú oss” en opnum ekki hjartað fyrir þessu fólki og heyrum ekki bænir þeirra getur verið að við séum forhert.

Í hverju samfélagi, hvort sem er bæjarfélagi eða söfnuði, myndar fólk sérhópa. Þar eru þau sem okkur líkar við, eru lík okkur sjálfum og líkar við okkur. Hópar lokast og verða klíkur eða kimar um aðstöðu, áhrif, skemmtun og/eða völd. Jesús Kristur hefur aldrei verið á móti gleðinni, en hann hefur hins vegar alltaf verið á móti því að fólk einoki gæðin og loki útlendinga úti. Hver er útlendingurinn þinn?

Nærkirkja og fjarkirkja Flestir vilja, að kirkjan sé sem líflegust, þjóni sem flestum og geri öllum gott. Til eru hugtökin nærkirkja og fjarkirkja. Nærkirkjan er sú, sem fólk finnur sig tilheyra, sækir til, kirkja sem er nákomið samhengi, eiginlega eins og mamma og pabbi í lífinu. Við syngjum: “Kirkjan er oss kristnum móðir...” Hugnast þér að nota slíkar líkingar um kirkjuna, að hún sé sem mamma eða pabbi?

Hitt hugtakið er fjarkirkja. Það er kirkja, sem er sýnileg og flestir vita af. Fólk vill ekki miklar skuldbindingar við kirkjuna, en þykir ágætt að hægt sé að leita til hennar, þegar á bjátar. Slík kirkja þarf að kunna til verka ef til hennar er leitað, hvort sem það er nú í tilfinningakreppu, ef dauðsfall verður eða framkvæma þarf prestsverk. Kirkjan má gjarnan styðja menningarlífið og aðstoða við að koma börnunum í gegnum unglingsárin og til manns. En fjarkirkjan má þó ekki hafa of sterkar skoðanir á pólitískum álitamálum og alls ekki hrófla við samfélagspáfum og gildum. Einstaklingshyggjan vex og tilfinningin fyrir, að við séum háð hvert öðru er dvínandi. Brandari af flökkusögutagi tjáir kirkjuafstöðum margra, að fólk vilji heldur sitja á barnum og hugsa um kirkjuna, fremur en að fara í kirkju og langa á barinn! Þetta er fjarkirkjumaðurinn í hnotskurn.

Kirkjulíf eflist víða um land, æ fleiri vilja beita sér í kirkjunni og nærhóparnir stækka. En fyrir því má færa ýmis rök, að kirkjulíf meirihluta þjóðarinnar sé af ætt fjarkirkjunnar. Kirkjuhúsin eru kennileiti í samfélaginu. Þau eru gjarnan vel upplýst á nóttinni til að minna á návist þeirra. Enginn kemst þó inn í þessi læstu en upplýstu hús í myrkrinu. En allir vita, að einhvern tíma verða þær opnaðar og hægt að hafa not af starfsfólkinu. Þessar kirkjur eru nálægar en samt fjarlægar. Engum ber skylda til að sækja þær, en með félagsgjöldum okkar sjáum við til þess að þessar frænkur hafi það nokkuð gott, að húsakynni þeirra séu rúm, að músíkin sé fín, allt þrifið og strokið og svo er hægt að halda þar athafnir fyrir fjölskylduna þegar þörf er á. Kirkjan sem fjarkirkja er sem öryggisnet eða trúarleg hjálparsveit samfélagsins, sem er til reiðu þegar kallað er. Hún þarf að vera elskuleg og upplýst, en umfram allt eins og tillitssöm frænka, sem er til staðar og styður, en má alls gera neinar kröfur og ekki trufla fólk.

Akureyrarkirkja Hvers virði er Akureyrarkirkja þér? Hún er samofin lífi þessa samfélags. Hér eru börnin borin til skírnar, ungviði sækir fræðslu og fagnaðarsamkomur, börnin eru fermd, hjón gift og látnir sungnir til moldar. Hér er hlegið og grátið, þessi helgidómur er fang fyrir mannlegar tilfinningar, vonir og harma. Hún er orðin einkenni Akureyrar eins og sést á Akureyrarljósmyndum, konfektkössum og er himinlína grúa sólarlagsmynda. Akureyrarkirkjan er lógó bæjarins og jafnvel Eyjafjarðar. Hvað viltu að kirkjan þín sé, hvernig viltu að safnaðarstarfið verði í framtíðinni?

Við vitum vel, að kirkja er ekki bara hús heldur líka fólk. Fallegt hús er kölkuð gröf ef fólkið er flúið eða farið. Einar Benediktsson orti: “Marmarans höll er sem moldarhrúga, musteri Guðs eru hjörtun, sem trúa, þó hafi þau yfir höfði þak.”

Herra hjálpaðu “Herra, hjálpaðu” var bæn treystandi, útlenskrar konu. Kyrie eleison. Þetta eru einna mest sungnu og fram bornu bænarorð í veröldinni. Í þeim er lífdjúp. Jesús svaraði konnni skýrt og klárt: “Verði þér sem þú vilt” Jesús styður ekki aðeins byggingu kirkju, heldur vill að lífið blómstri undir hvelfingunni, meðal fólksins, að allir fái notið, innfæddir og Þingeyingar, Hörgdælir og útlendingar, fólk af öllum brekkum veraldar og af eyri heimsbyggðarinnar. Í því er hin eiginlega trúar- og kirkjuþrjóska fólgin að kirkjan sé vettvangur fyrir lífið. Ég trúi á heilaga, almenna kirkju.

Amen.

Kirkjudagar á Akureyri: Prédikun í Akureyrarkirkju 12. mars, 2006

Lexía: 1. Mós. 32.24-30 Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp. Og er hann sá, að hann gat ekki fellt hann, laust hann hann á mjöðmina, svo að Jakob gekk úr augnakörlunum, er hann glímdi við hann. Þá mælti hinn: Slepptu mér, því að nú rennur upp dagsbrún. En hann svaraði: Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig. Þá sagði hann við hann: Hvað heitir þú? Hann svaraði: Jakob. Þá mælti hann: Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur. Og Jakob spurði hann og mælti: Seg mér heiti þitt. En hann svaraði: Hvers vegna spyr þú mig að heiti? Og hann blessaði hann þar. Og Jakob nefndi þennan stað Peníel, því að ég hefi, kvað hann, séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.

Pistill: Jak. 5.13-20 Líði nokkrum illa yðar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng. Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðjast fyrir yfir honum. Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar. Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið. Elía var maður sama eðlis og vér, og hann bað þess heitt, að ekki skyldi rigna, og það rigndi ekki yfir landið í þrjú ár og sex mánuði. Og hann bað aftur, og himinninn gaf regn og jörðin bar sinn ávöxt. Bræður mínir, ef einhver meðal yðar villist frá sannleikanum og einhver snýr honum aftur, þá viti hann, að hver sem snýr syndara frá villu vegar hans mun frelsa sálu hans frá dauða og hylja fjölda synda.