Á þeim dögum sagði Jesús:Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.Mt. 5.17-19
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Biðjum: Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. Amen
Kæri söfnuður. Ef til vill finnst ykkur eins og mér að á sólríkum sumardagsmorgni sé maður ekkert endilega tilbúinn til þess að kafa mjög djúpt ofan í stórar guðfræðilegar spurningar eða rannsóknarefni.
En nú vill svo til að guðspjall dagsins í dag leggur fyrir okkur ákveðið viðfangsefni og undan því verður ekki vikist.
Okkur ber að hlýða þeirri reglu sem kirkjuárslestrarnir setja okkur, - nema eitthvað sérstakt krefjist þess að út af því sé breytt - og svo er ekki, þó að það sé mikil ástæða til þess að nefna það hér og nú hversu mikinn fögnuð Þjóðkirkjan mátti finna hér á holtinu um síðustu helgi, bæði hér inni í kirkjunni og útifyrir á Kirkjudögum.
Sú mynd sem þá var dregin var upp af kirkju og kristindómi í þessu landi var skír og fjölbreytt. Hún gefur góð fyrirheit um framtíðina. En hún var ekki fullkomin og það er gott. Það er alltaf gott að eiga innistæðu.
Nú ver vika liðin og komin mánaðamót, og þrátt fyrir kirkjudaga og kirkjuþing unga fólksins, og leikmannastefnu og prestastefnu, fer það tæpast framhjá nokkrum sem leiðir að því hugann að það er ekki hin stóra spurning Lúthers: Hvar finn ég náðugan Guð? . sem er spurning dagsins hjá flestum, heldur: Hvar finn ég aura til að borga Visareikninginn?
Er meiri gleði fólgin í því að eyða, heldur en borga? Í lífi flestra kemur gleðin ekki að fullu fyrr en búið er að borga. Líkt og það er gleðiefni að eiga þess kost að mega leita, en gleðin kemur þegar við höfum fundið. Við þurfum að fá tilefni til þess að glíma við stóru spurningarnar, eins og í guðspjallinu í dag, rétt eins og við nærumst ekki eðlilega á eintómum rjómabollum.
Og þetta guðspjall kemur líka alveg á réttum tíma- einmitt þegar umræðan í þjóðfélaginu snýst að miklu leyti um lög og reglur: Um átak í umferðarmálum, um siðareglur blaðamanna, um hæfi og vanhæfi, um Bónusmálið um dóma og refsingar.
Fjölmiðlar eru mjög uppteknir af lögum og reglum, en í hraða augnabliksins er lítill tími til að gera grein fyrir lögunum sjálfum eða eðli þeirra, svo að oft má ætla að í fartinni verði fleiri lögbrjótar en eru það af því að það er meiri frétt að vera lögbrjótur en vera það ekki.
Þetta er samkvæmt guðspjallinu ekki nýtt. Jesús lenti líka í þessu.
En þá verður auðvitað að minna á að lögmálið merkti í hans munni og hans samtíð sitthvað fleira en það sem við eigum við þegar við tölum um lögin.
Og ef við setjum í samhengi hugtök eins og lög og frelsi, þá sýnist það vilja gleymast að lögin tryggja frelsið, en aðeins þegar þau eru haldin. Í vestrænu lýðræðisríki eins og okkar tryggja lögin frelsi borgaranna. Lögin eru eins og stoðvefir samfélagslíkamans. Meinsemd í stoðvefjum getur lamað allan líkamann. Rétt eins og lögbrotin.
Og það er ekki svo að nokkur geti sett sig yfir lögin. Samt finnst sumum það. Menn taka sér vald innan tiltekins ramma sem þeir telja að veiti skjól. Þannig verður til heimilisofbeldi, eins og að lögin um friðhelgi heimilisins myndu vernda ofbeldismenn inni á heimilum, og eins og gróf líkamsárás þar sem lífi er ógnað megi túlka nánast eins og gælur milli hjóna. Og er það kannski allt í lagi að stela úr kassanum ef búðin skilar hvort sem er miklum gróða þegar talið er upp úr honum að loknum degi?
* * *
Kæri söfnuður. Hvernig skoðum við þetta í ljósi guðspjallsins og í kristnu samhengi?
Það er haft eftir Martin Lúther að hann hafi sagst vera tilbúinn til að setja guðfræðidoktorshattinn sinn á höfuðið á hverjum þeim sem gæti útskýrt almennilega fyrir honum sambandið á milli lögmálsins og fagnaðarerindisins.
Það er þá kannski ekkert skrítið þó að það bögglist fyrir okkur. En þessi nálgun Lúthers getur verið okkur áminning um að grípa ekki upp alltof auðveldar annað hvort eða lausnir. Lögmálið og fagnaðarerindið eru í skikkan skaparans fléttuð saman á leyndardómsfullan hátt, þó um tvennt ólíkt sé að ræða.
Rómverjabréfið er í held tilraun til þess að segja í senn að Kristur sé uppfylling lögmálsins, og að síðan Kristur kom í heiminn geti enginn öðlast velþóknun Guðs með því einu að uppfylla skyldur sínar er varða siðferði eða trúariðknun, og þó sé í frelsinu sem með þessu fæst frá lögmálinu, það er í Kristi, einmitt fólgin uppfylling lögmálsins.
Vandi margra var og er fólginn í þeim misskilningi að í boðskapnum um náðina, sem við treystum á og þurfum mest á að halda, sé fólgið eitthvað það sem leysir okkur frá siðaboðum eða reglum.
Lúther kvaldist undan þeim skilaboðum sem hann fékk í baráttunni fyrir siðbreytingu um að fjöldamargir tækju upp hinn nýja sið í mikilli hrifningu af því að þeir töldu sig þannig fá frelsi til að lifa lífi án þess að lúta nokkrum reglum. Þegar lögmálið á að virka vegna þess að það er hluti af lífsmunstrinu og af trúnni og afstöðunni til Guðs, en er ekki bundið í lög og reglur samfélagsins, verður alltaf einhver hópur til sem aktar það ekki. Meðal gyðinganna voru til heil héruð sem töldust vera lin í beitingu lögmálsins að mati fariseanna.
* * *
Í texta dagsins sem einungis er að finna hjá Mattheusi, þá virðist Jesús sjálfur vera að verja sig gegn ásökunum af þeim toga, að hann sé að grafa undan lögmálinu, með kenningu sinni og gjörðum sínum. Þannig var hvíldardagshelgin í hættu með því hann benti á að hvíldardagurinn væri til mannsins vegna en ekki öfugt. Orð hans um að það séu ekki óhreinar hendur á matnum sem maður borðar sem spilli manninum og saurgi hann, heldur hans eigin óhreinu hugsanir, er gagnrýni á reglur um handaþvott og hreinsanir, og svo hafði hann gert skarpar athugasemdir við það hvernig menn föstuðu, - svo að eitthvað sé nefnt.
Margir töldu að með þessu væri hann að skemma undirstöður hins siðaða samfélags.
Nei, segir hann. Hann er ekki kominn til frelsa með því að brjóta lögmálstöflurnar. Það er ekki hið minnsti stafkrókur í texta lögmálsins sem á að líða undir lok, leysast upp eða þurrkast út. Og þegar vel er að gáð gengur Jesús miklu lengra í túlkun lögmálsins en almennt var.
Hvernig tengist nú þetta orð um lögmálið sem ekkert fær breytt, frelsinu sem við höfum fengið og Kristur hefur frelsað okkur til, og við megum ekki falla undir aftur, af því að Kristur uppfylling lögmálsins? (Gal.5.1)
* * *
Kæri söfnuður. Ég verð að viðurkenna að ég ræð ekki við að koma því til skila í lítilli predikun - enda er ekki til þess ætlast.
Svarið við þessari spurningu er Nýja Testamentið í heild sinni. Það er hlutverk og erindi Jesú Krists til heimsins og til okkar sem einstaklinga.
En í því stóra samhengi má benda á nokkra þætti til umhugsunar.
Þar sem fagnaðarerindið eða guðspjallið, er ein órjúfanlega heild, er okkur ekki leyft, samkvæmt eigin mælistiku, að fjarlægja einhver óþægileg orð Drottins, sem ekki virðast passa inni réttlætingarkenningu Páls postula og siðbótarinnar, eða taka þau úr gildi.
Það er það sem Drottinn heimilar ekki heldur gagnvart lögmálinu. Við megum þess vegna ekki láta leiða okkur afvega eins og þó er oft gert til dæmis með dæmisögunni um fariseann og tollheimtumanninn. Rétt eins og fariseinn væri maður sem Guð vísar frá sér vegna þess eins að hann haldi lögmálið bókstaflega.
Það sem Drottinn vill alveg örugglega ekki og leyfir hvorki sjálfum sér né okkur er hin neikvæða afstaða; að leysa upp eða eyðileggja, þegar ekkert annað á að koma í staðinn.
Þannig starfar uppreisnarmaðurinn eða byltingamaðurinn. Hann er einfaldlega á móti. Hann ræðst gegn því sem er og gilt hefur til þessa og hefur notið virðingar og athygli. Þannig voru til dæmis þeir sem í kjölfar siðbótar réðust gegn myndverkum og listaverkum kirkjunnnar og höfðu barnalega ánægju af því að skemma og eyðileggja, því gleði þeirra var fólgin í því að sjá brot og rústir.
Uppfylling lögmálsins er hið gagstæða. Eitthvað er komið að endimörkum: Það hefur verið fyllt upp og framkvæmt að fullu, svo að eitthvað nýtt geti tekið við. Hið fyrra er ekki fellt úr gildi, það er fullkomnað. Í Jesú Kristi. Við munum eftir þessu orði Krists á krossinum: Það er fullkomnað.
Þannig fléttast saman lögmálið og fagnaðarerindið í Jesú Kristi, í persónu hans og í kenningu hans, og það stefnir til hinna hinstu raka, - til endimarka lífs og heims, til hins persónulega uppgjörs í lífi mínu sem einstaklings og til hins algjöra uppgjörs þegar Guð verður allt í öllu. Þangað til göngum við í fylgd og leiðsögn Jesú Krists.
Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram.
* * *
Kæri söfnuður, þetta er fyrri hluti guðspjallsins. Svo þá kemur síðari hlutinn: Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.
Kannski munum við þá tíð þegar við vorum lítil hvað það var gott að geta rétt höndina upp í aðra stóra hönd, ef eihhvað óvænt eða ógnvekjandi nálgaðist. Leiddu mig.
Samspil lögmáls og fagnaðarerindis kallar á það að Jesús sjálfur leiði okkur. Það er eina tryggingin fyrir því að við hvorki festumst í lögmálsþrælkun eða gleymum okkur í draumsýnum hinnar ódýru náðar, eins og okkur leyfðist allt.
Og þá er komið að því að spyrja: Hvernig beitum við þessu þá í eftirfylgdinni við Jesú Krist í nútímasamhengi?
Eða setjum við þessa umræðu bara í lokaðan kassa og segjum sem svo að þetta séu bara guðfræðilegar pælingar sem ekki tengjast daglegu lífi á nokkurn hátt? Er hægt að halda lögmálinu samkvæmt hinu Gamla Testamenti aðgreindu frá birtingu lögmálsins í daglegu lífi? Er hægt að halda frelsi frelsarans frá hinni daglegu glímu við líf og lífsnauðsynjar?
Já, það er hægt. Það er líka hægt að venja sig á að horfast aldrei í augu við veruleikann en temja sér viðvarandi flótta frá honum. Það er líka hægt að setja sig yfir lög og reglur og láta sem þær gildi ekki nema fyrir einhverja aðra.
* * * Kæri söfnuður. Stundum verður manni á að hugsa að það samfélag sem við lifum í og tökum þátt í, hreyfi sig og hegði sér eftir einhverjum reglum og ferlum sem eru orðin til af þeim sjálfum, verði sjálfstæð og lifi sínu eigin lífi og allur almenningur falli inn í þennan farveg eins og hann sé sjálfsagður. Og, - þessi farvegur, þessi lífssýn falli engan vegin að hinni kristnu lífssýn. Hugtök eins og lögmál og fagnaðarerindi sé eins og hvert annað mislukkað spaug!
Af hverju geta hundar notið meiri athygli, meiri aga, meiri umhyggju en börn? Af hverju er meðallengd samtals við barn þrjár mínútur á dag, en meðallengd samvista við hund þrjátíu mínútur? Það eru ekki lögbrot.
Af hverju er hægt að verja lengri tíma til að bóna bílinn á laugardegi en tala við konuna sína? Það er ekki lögbrot.
En af hverju er þá sjálfsagt að brjóta lög, bara ef nógu margir gera það, eins og að keyra á hundrað í Ártúnsbrekkunni, og auglýsa áfengi á öðrum hverjum staur og í fjölmiðlum?
Jesús var ekki kominn til að fella lögmálið úr gildi og þó var hann kominn til að gefa okkur hlutdeild í mesta frelsi sem til er: frelsinu frá dauðanum og frá syndinni. Hann gekk lengra en aðrir í að fara eftir lögmálinu og túlka það.
Við skulum þá hans vegna, sem kristnar manneskjur vera duglegust allra við að fara eftir lögunum, og njóta þess frelsis sem þau gefa okkar, því aðeins sá eða sú sem fer nákvæmlega eftir þeim getur bent á misfellur sem þarf að laga öllum þjóðarlíkamananum til heilsubótar.
Að skilningi gyðinganna er lögmálið miklu meira en lögmál. Þar er kraftur Guðs, þar er nærvera hans og umhyggja, þar talar Guð. Í Jesú Kristi býr allur kraftur Guðs. Í honum falla saman í eitt lögmálið og endurlausnin: Hið fullkomna og endanlega er hér í helgidóminum eins og í skuggsjá og bíður hins fullkomna dags þegar allir fjötrar syndar og dauða falla.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.