Guðspjöllin eru fáorð um atburði hins fyrsta páskadags. Það er engu líkara en þeir leggi fingur á varir og segi svo hikandi og í hálfum hljóðum frá því sem er svo ótrúlegt að engin orð fá lýst.
Upprisa hins krossfesta Jesú Krists er atburður sem sprengir öll mörk og mynstur mannlegs máls og reynsluheims. En ég efast ekki um að frásagnir guðspjallanna eru frásagnir trúverðugra vitna. Þau María Magdalena og María hin, Pétur, Jakob, vinirnir frá Emmaus, og svo þeir sem færðu guðspjöllin í letur, þetta eru heimildarmenn sem óhætt er að reiða sig á.
Við treystum þeim, að þau segi satt. Á því sem þau vitna um byggir kristin kirkja, kristin trú, iðkun og játning við skírnarlaug og altari, bæn og barnatrú, trúin sem játuð er á fermingardegi, vonin sem ber uppi kveðjuna hinstu. Það er innistæða fyrir bæn þinni og barnatrú. Gleymum því ekki!
Reyndar er öflugasta „sönnun“ upprisunnar tilvera kristinnar kirkju, bæn hennar, boðun og þjónusta kynslóð eftir kynslóð í tvöþúsund ár. Af því að þar hefur fólk enn og aftur mætt hinum krossfesta og upprisna frelsara, sem lifandi mætti og návist.
Margvíslegar upprisusögur eru sagðar, sögur af því hvernig máttur lífsins sigrar dauðann, hvernig máttur fyrirgefningar, umhyggju, trúar og vonar leysir viðjar, rýfur múra, byggir brýr, læknar mein.
Konur og karlar, ungir og gamlir þreifa á því, að þar sem öll sund virðast lokuð, öll von úti, þar ljúkast upp dyr, sól rís, steininum þunga er velt frá, nýir möguleikar veitast. Eftir föstudaginn langa rís páskasól, lífið sigrar. Þetta eru margir að þreifa á um þessar mundir, og minna okkur á að boðskapur páskanna er meir en ótrúleg frásögn af undursamlegum atburði endur fyrir löngu.
Páskaguðspjallið, upprisuboðskapurinn, er ekki bara frásögn, heldur trú, upprisutrú. Upprisutrúin er miklu meir en það að telja að allt muni fara vel um síðir, heldur lífsmáti, að lifa í birtu hins krossfesta og upprisna og reiða sig á návist hans, mátt og líkn og náð, jafnvel þegar leiðin liggur um dalinn dimma.
Framhald páskaguðspjallsins er trú, von og kærleikur sem birtist í umhyggju um lífið og náungann, miskunnsemi, fyrirgefningu. Þar sigrar lífið, myrkrið hopar, ljósið lýsir og ríkir. Guð gefi þér það að reyna og sjá. Hann gefi þér gleðilega páska í frelsarans Jesú nafni.