Undanfarið hefur verið nokkur umræða um málefni múslima í Reykjavík og áhyggjur fólks af lóðarúthlutun undir mosku. Okkur langar að nefna nokkur atriði sem e.t.v. skýra umræðuna.
Þetta tiltekna mál er hluti af stærri umræðu sem hefur staðið um hríð á Íslandi varðandi stöðu trúfélaga og hefur höfuðborgin Reykjavík orðið að vettvangi umræðunnar, sem e.t.v. er einmitt eðlilegt.
Þrjú megin sjónarmið hafa komið fram sem erfitt hefur reynst að samræma; Hugmyndin um að meirihlutavald skuli ráða í trúarefnum, hugmyndin um að trú sé einkamál sem halda skuli utan almannarýmisins og loks hugmyndin um að lífsskoðanir og trú séu æskilegur þáttur í fjölbreyttu þjóðlífi.
Fyrsta sjónarmiðið kristallaðist vel í orðum Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur oddvita Framsóknar í Reykjavík er hún sagði í blaðaviðtali þann 23. maí sl.: „Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna.“ Í þessari skoðun felst vissan um það að lífs- og trúarskoðanir séu þess eðlis að þær hljóti að rekast á og skapa ágreining, því sé farsælast að láta meirihlutavald ráða siðnum í samfélaginu þótt öllum sé sýnt umburðarlyndi í anda trúfrelsis.
Líklega mætti telja Siðmennt verðugan fulltrúa annars viðhorfsins auk þess sem sterkur hópur innan Samfylkingar og Besta flokksins í Reykjavík hefur túlkað þetta viðhorf m.a. með tillögum mannréttindaráðs borgarinnar við upphaf kjörtímabilsins sem nú er að ljúka. Þar er einnig litið svo á að ólíkar trúarskoðanir rekist illa hlið við hlið í almannarýminu en í stað þess að láta eitt trúfélag ráða í krafti meirihluta er lagt til að öll trú og trúariðkun sé tekin út úr hinu opinbera rými og hún skilgreind sem einkamál. Fulltrúar þessa viðhorfs vilja einskorða hið opinbera samtal við almenn siðgildi byggð á veraldlegri heimsmynd og mannhyggju en halda orðræðu trúarbragða utan almannarýmisins.
Þriðja viðhorfið, sem við viljum gera að okkar, varðar þá hugmynd að lífsskoðanir og trú séu æskilegur hluti af fjölbreytileika þjóðlífsins. Þar er litið svo á að trúarbrögð og önnur samstæð lífsskoðanakerfi séu farvegir gæða sem nútímasamfélagið þurfi á að halda, þau séu hluti af langtímaminni mannkyns og séu þau skorin frá almannarýminu og gerð að einkamáli - eða vandamáli - sé samfélagið rænt þroskatækifærum um leið og eftirlits- og aðhaldshlutverk hins opinbera að trúfélögum verði vanrækt.
Þá langar okkur að spyrja: Hver er í raun munurinn á afstöðu framsóknarforystunnar í Reykjavík og afstöðu þess stjórnmálafólks sem gengið hefur fram með Siðmennt í borginni? Bæði sjónarmið ganga út frá því að lífs- og trúarskoðanir hljóti að rekast á og skapa óæskilegan núning og því skuli skera úr með valdboði í krafti almenningsálits. Og hver væri annars munurinn á því að gera lútherska þjóðkirkju eða siðrænan húmanisma að ráðandi sið í einu landi? Gæti hugsast að fyrsta og annað viðhorfið séu náskyld í verunni þótt fólk halli sér að ólíkum lífsskoðanakerfum? Okkur sýnist að svo sé.
Við álítum skynsamlegast að horfast í augu við fjölbreytileikann í þessum efnum. Hið opinbera á ekki að taka afstöðu í trúarefnum eða mismuna fólki eða félögum vegna lífsskoðana þess heldur eigum við að halda hvert öðru ábyrgu í samfélaginu og sýna hvert öðru þá virðingu að spyrja: Hvað merkir það að vera múslimi? Hvað merkir það að vera veraldlegur húmanisti eða kristinn eða hvað þú vilt kalla þig? Fyrir hvaða gildi stendur þú? Og enda þótt það kunni að vera lífsskoðun okkar að Jesús Kristur sé vegurinn, sannleikurinn og lífið fyrir allan heiminn þá getur það verið okkar pólitíska skoðun að við, ásamt múslimum, veraldlegum húmanistum, búddistum, ásatrúarmönnum, sóldýrkendum, geimveruáhugamönnum, náttúruverndarsinnum, grænmetisætum, fjallgöngufólki og hundaeigendum skyldum öll ganga upprétt fram í almannarýminu og standa fyrir máli okkar sem ábyrgir samferðamenn.
Húsbyggingar eru og hafa alltaf verið mikilvægur liður í sjálfstjáningu manna. Trúarhús eru þar síst undantekning. Ef múslimum er neitað um lóð undir mosku er samfélagið að hafna samtali við þá.