[audio:http://dl.dropbox.com/u/24603197/A%C3%B0%20elska%20og%20g%C3%A6ta%208mai%202011.mp3]
“Drottinn er minn hirðir” segir í 23. Davíðssálmi. Jesús bætir við og segir um sjálfan sig: “Ég er góði hirðirinn.” Mörg eigum við minningar um litríkar biblíumyndir, sem afhentar voru í sunnudagskólum kirkjunnar. Meðal þeirra voru myndir af fallegum Jesú í framandlegum fötum og í upphöfnu landslagi. Á mörgum myndanna hélt hann á lambi, sem hvíldi óttalaust á armi hans. Mannhæðarháan staf hafði hann gjarnan í hendi. Sem barn undraðist ég hvernig væri hægt að tálga svona staf með þessum líka glæsilega boga efst. Var hann kannski beygður með einhverjum leyniaðferðum? Eftir á að hyggja held ég, að ég hafi haft meiri áhuga á staf Jesú en hirðishlutverki hans, meiri áhuga á græjunni en gerandanum. Verkefni hirðis var minni kynslóð auðskilið. Hirðir passar kindur, en hvernig hann beitir stafnum var mér ekki augljóst. Því varð stafurinn svo áhugaverður.
Í sunnudagaskólanum heyrðum við, krakkarnir, líka um hetjuna Davíð, sem gætti fjár föður síns og barðist við ljón, björn og síðar við Golíat. Okkur þótti eiginlega alveg sjálfsagt, að hann felldi dýr og tröll, rétt eins teiknimyndahetjur og aðrar ofurhetjur vinna alltaf. Davíð, sem síðar varð konungur, var nokkurs konar kynning á hirðishlutverkinu. Því var eðlilegt að hugsa um Jesú í framhaldinu. Jesús sem góði hirðirinn. Við lærðum söguna um týnda sauðinn, sem var leitað þar til hann fannst og skildum auðvitað, að það var enginn annar en Jesús sem leitaði.
Elska og afleiðingar Í guðspjallstexta dagsins talar ofurhirðirinn við sína menn. Kennsluaðferðin er sérstök. Hann spyr vin sinn, Símon Pétur: “Elskar þú mig?” - ekki einu sinni eða tvisvar, heldur þrisvar! Hann byrjaði með því að spyrja hvort hann elskaði meira en hinir. Og þrisvar uppteiknaði Jesús afleiðingu elskunnar: Að gæta fjárins, lamba og sauða. Jesús vill að hjörð hans, við, gætum okkar og önum ekki í gin einhverra óargadýra eða trölla. Hvað er málið? Það er að elska hirðinn og gæta sauðanna. Boðskapur dagsins er að elska og gæta. Elskar þú? Gætir þú? Spurning Jesú varðar þjóðfélag, kirkju, menningu, heimili, þennan söfnuð og þitt eigið líf. Tvennan er: Elskar þú? Gætir þú? Nú er tími fyrir að játa ástina og taka afleiðingum.
Brestir og viðmið Líkingar lifna en geta líka dáið. Hirðishlutverkið skildist vel í landbúnaðarsamhengi en síður nú þegar engir fjárhirðar eru í fjölskyldum okkar lengur. Börnin halda jafnvel að fjárhirðir sé sá eða sú, sem hirðir féð og flýr svo! Hverju hlýðum við nú og hvað verður okkur til varnar og gæslu?
Bandaríski spekingurinn Robert Bly hefur í ritgerðum og ljóðum lýst þeim vanda samfélags þegar fyrirmyndir eru ekki fyrir augum, við hendi og í grenndinni. Vegna atvinnu hafa foreldrar og ættingjar lítinn gæðatíma með uppvaxandi börnum. Ungviðið fær litla fræðslu um störf foreldra. Börnin geta oft ekki skýrt út hvað pabbi og mamma gera í vinnunni. Verkkunnáttu er ekki lengur miðlað á heimilum. Fáar stundir aðrar en þreytustundir á rúmstokknum eru til að miðla lífsvisku, um hvernig bregðast á við ofbeldi í bekknum eða í leikjum, hvar frumtraustið er að finna, hvað þroskuð mannvera gerir í gleði og raun, í siðklemmmum og til verndar og eflingar eigin lífi og annarra. Bly hefur bent á, að það verða æ meir börn, sem ala upp börn. Unglingarnir fá fræðslu hvert hjá öðru, hvað maður á að gera og vera. Síðan eru það tölvur og kvikmyndir, sem miðla megninu af því hvernig maður á að vera sem manneskja. Ofurhetjurnar í kvikmyndum eru skemmtilegar en þó slakar fyrirmyndir fyrir venjulegt líf.
Þegar engar kjarngóðar fyrirmyndir eru lengur til í nærsamfélagi verða skjámyndir vegvísar í lífinu. Popímyndirnar og íþróttahetjur eru ímyndir en ekki nærtækar hetjur og góðir hirðar, sem taka í hendina á fólki og þrýsta að barmi sér, þegar ástarsorgirnar dynja yfir, maki deyr, gjaldþrot skellur á eða vímuefnaáföll lama fjölskyldur. Þau, sem eru fyrirmyndarlítil eða samsetningur úr molum, verða aldrei annað en samtíningur sjálf, án kjarna og heildarmyndar.
Skjól í veröldinni Hvernig varstu þegar þú fæddist? Örugglega hrífandi og hafðir mikil áhrif á alla nærstadda. Þú varst vonarvera, með engar spjarir en opna framtíð. Að við fæðumst nakin eru engin tíðindi og öllum augljóst mál. Börn deyja því ekki á Íslandi vegna klæðleysis. En þó við ættum nóg af fötum gætum við þó ekki lifað og hvað þá þroskast nema í skjóli annars, sem gerir okkur að mönnum. Við hljótum þann yl, sem verður okkur vaxtarrammi í samhengi, í því sem við köllum menningu. Föt eru líkamsklæði, en menning er andleg klæði okkar. Þegar þjóðfélag, samfélag, menning er í lagi farnast fólki vel. Þegar samfélagsvefurinn trosnar fer illa.
Hvað hefði orðið um þig ef þú hefðir ekki notið fræðslu og öryggis, ekki verið miðlað gildum og gæðum í bernsku? Þú hefðir farist í einhverjum skilningi. Menning er ekki bara listir og það sem kallað hefur verið því vafasama orði “hámenning.” Menning er allt, sem gefur stefnu, staðfestu og haldreipi í lífinu. Menning er vissulega bækur, myndir, tónverk en ekki síður það, sem mamma og pabbi hvísluðu að þér þegar þú varst lítill eða lítil. Lífsreglur og viska, sem þú notar síðar í lífinu og miðlar áfram til þinna barna er líka menning, skjólklæði sálarinnar. Vinnulag, heiðarleiki, hláturefni og sögur eru menning til lífs. Trúarefnin, bænirnar sem þú lærðir, vefur öryggis, sem þér var færður, er líka menning, jafnvel mikilvægasta skjólið sem þér var veitt til lífsgöngunnar. Fötin skapa ekki manninn, heldur skapar menning föt og fólk. Trúmenn vita svo, að Guð gefur máttinn og andann til að skapa fólk og föt sköpunar.
Heimur manna verður æ flóknari. Það sem var öruggt í gær getur verið brostið í dag. Menntun, sem var einhvers virði til starfa, úreldist hratt. Samfélagstískan, sem gilti t.d. fyrir þremur árum, er fullkomlega hrunin nú. Flest okkar vita, að “stórusannleikarnir” eru ekki algildir. Einstaklingarnir, sem við bárum virðingu fyrir, hafa sumir reynst hrappar og gildi hafa gliðnað. Hverju getur þú treyst?
Góði hirðirinn og hamingjan Í Sjálfstæðu fólki segir, að maðurinn leiti “alltaf að einhverju sér til huggunar, og þessi huggunarvon, jafn vel eftirað öll sund eru lokuð, hún er merki þess að hann lifir. Nóttin er aldrei svo myrk og laung að menn festi ekki von sína á fjarlægum dagrenningum.” Við þessi orð Halldórs Laxnes mætti bæta, að einn merkilegasti þáttur þess að lifa er, að menn geta og mega kúvenda og byrja að nýju. Í mestu hörmungum eru tækifæri, færi til að snúa frá því sem ekki gekk upp og til móts við það sem er til góðs. Það er að opna fangið mót framtíðinni. Öllu skiptir, að það sem verður mönnum huggun og vonarefni, sé ekki blekking heldur raunverulegt. Annars er hætt við, að engin dagrenning verði, heldur aðeins leit að ljósi. Þú nærð ekki kyrrð og sátt nema þú eigir hið innra með þér það, sem getur verið þér hirðir, leiðsögn og stefna. Ímyndir, ofurstirni og hetjur eru til lítils, þegar stóru spurningarnar æða um hug þinn eða ljár dauðans syngur.
Hvernig er ástarbúskapurinn í þér? Elskar þú? “Elskar þú mig?” spyr Jesús. Hin góða menning er að elska Guð. Elskan verður uppistaðan í vef lífsins, að ná sambandi við samhengi alls sem er. Í því er hið góða líf fólgið að elska. Þegar fólk elskar þá gætir það líka. Elskar þú? Gætir þú? Umhyggjan er systir elskunnar, báðar eru dætur Jesú. Lífið lifir af því Guð elskar og gætir. Við megum leyfa elskunni að eflast í okkur og móta líf okkar æ meir. Systurnar elska og aðgát fylgja þér úr kirkju í dag vegna þess að dauðinn dó og lífið lifir. Í dag megum við tjá ást okkar og iðka hana.
Amen.
Neskirkja, 8. maí, 2011, 2. sunnudag eftir páska.
Textaröð: B Lexía: Slm 23 Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyrð höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
Pistill: 1Pét 5.1-4 Öldungana ykkar á meðal hvet ég sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig á hlutdeild í þeirri dýrð sem mun opinberast: Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega. Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. Þegar hinn æðsti hirðir birtist munuð þið öðlast þann dýrðarsveig sem aldrei fölnar.
Guðspjall: Jóh 21.15-19 Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“