Hlutleysi eða „sekúlarismi“?

Hlutleysi eða „sekúlarismi“?

Sjónarmið þau sem viðruð eru um tengsl ríkis og túfélaga í Spegli þjóðar kunna í fljótu bragði að virðast borin uppi af fullkomnu hlutleysi. Svo þarf þó alls ekki að vera. Allt eins má líta svo á að hér komi fram hreinræktaður „sekúlarismi“.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
31. janúar 2011

Dómkirkjan, Jón og Alþingishúsið

Í aðdraganda Stjórnlagaþings 2011 sem nú verður illu heilli að taka aukasnúning á hafa ýmsir orðið til að viðra skoðanir sínar á þeim hluta stjórnarskrárinnar sem að kirkju- og trúmálum lýtur. Í undirbúningi kosninganna vakti nokkra athygli hversu margir settu niðurfellingu 62. gr. greinarinnar og þar með aðskilnað ríkis og kirkju á oddinn. Þrátt fyrir að kannanir hafi til langs tíma sýnt mikið fylgi við slíka breytingu var ófyrirséð hvert rými hún fengi í víðtækari umræðu um stjórnarskrána.

Í aðdraganda stjórnlagaþings

Hér verður ekki spáð í spil þeirra sem kosin voru til Stjórnlagaþings né getum leitt að því hvaða afstöðu þau muni taka í þessu efni þegar til kastanna kemur. Sumir hafa líka látið í ljósi þá skoðun að þingið ætti ekki að fást við trúmálakaflann. Telja þeir slíkt ýmist ekki nauðsynlegt eða að tíma þingsins sé betur varið til annars. Ég sem þetta rita hef látið í ljósi gagnstæða skoðun og tel endurskoðun í hæsta máta tímabæra. Til frekari skýringa vísa ég til ýmissa fyrri pistla minna á þessum stað.

Stjórnlagaþingi 2011 er ekki ætlað að hefja störf á 0-punkti heldur var skipuð stjórnlaganefnd sem ætlað var að búa mál í hendur þingsins. Fyrir þá sem áhuga hafa á kirkju- og/eða trúmálapólitík hlýtur að vera áhugavert að kynnast viðhorfum nefndarmanna í þessu efni. Einn þeirra, Njörður P. Njarðvík skáld og prófessor emeritus, viðraði nú fyrir skömmu afstöðu sína á þessu sviði í áhugaverðu riti: Spegill þjóðar; Persónulegar hugleiðingar um íslenskt samfélag. (Reykjavík, Uppheimar. 2010.)

Ein trúarbrögð öðrum æðri?

Skoðunum sínum lýsir Njörður svo að það sé „í grundvallaratriðum rangt að ríki skipti sér af trú“, að rangt sé að „telja ein trúarbrögð í eðli sínu öðrum æðri“ og það sé „fráleitt að ein tegund kristindóms, ein gerð trúfélags, skuli njóta sérstakra forréttinda ... umfram önnur“ enda hljóti það að „teljast ósamrýmanlegt raunverulegu trúfrelsi“. Loks telur Njörður að með „nokkrum ótuktarskap [megi] kannski segja, að Ísland sé lúterskt lýðveldi sem umber aðrar tegundir trúar“. (S. 110)

Gagnrýnið sjónarhorn

Hér má taka undir sumt, annað orkar tvímælis og færa má rök að því að sumt sé beinlínis ranghermt.

Til dæmis skal tekið undir það álit að rangt sé að lýðræðisríki á 21. öld telji ein trúarbrögð í eðli sínu öðrum æðri og veiti því forskot fram fyrir önnur af þeirri ástæðu. Slíkt væri mismunun sem vart væri talin styðjast við málefnalegar ástæður. Það ber þó að undirstrika að þetta er ekki raunin hér á landi. Kirkjuskipanin í 62. gr. stjórnarskrárinnar skapar evangelísk-lúthersku kirkjunni ekki sérstöðu vegna þess að hún er af þeirri „tegundinni“ heldur vegna þess að hún er meirihlutakirkja. Hún var umgjörð utanum trúarlíf alls þorra þjóðarinnar þegar stjórnarskráin var sett og hefur haldið þeirri stöðu allt til þessa. Það er einvörðungu af þeirri ástæðu sem ríkisvaldinu er falið að strykja hana og vernda. Glati hún þessari meirihlutastöðu hlýtur kirkjuskipanin að missa grundvöll sinn. Ekkert bendir til þess að henni hafi nokkrun tíman verið ætlað að að vera trúarpólitísk yfirlýsing um gildi einnar trúar fram yfir aðra.

Meðal þess sem orkar tvímælis og skiptra skoðana gætir um er sú afstaða að það sé rangt að ríki skipti sér af trú. Víða um heim kveða lög á um stöðu og störf trúfélaga með einum eða öðrum hætti ýmist til þess að tryggja rétt þeirra eða setja starfi þeirra skorður. Þá orkar mjög tvímælis að þjóðkirkjuskipan á borð við hina íslensku hljóti að teljast ósamrýmanlegt raunverulegu trúfrelsi. Ýmsir mundu raunar segja þetta beinlínis rangt. Í hinni alþjóðlegu mannréttindaumræðu hefur það sjónarmið ekki verið ríkjandi að þjóðkirkjufyrirkomulag hljóti að brjóta í bága við trúfrelsi. Þar skiptir meira máli hvernig sú skipan er útfærð eða framkvæmd en fyrirkomulagið sem slíkt.

Lútherskt lýðveldi?

Það sem hér verður mótælt sem röngu er að Ísland sé lútherskt lýðveldi enda játar höfundur sig þar á hálum ís. Kirkjuskipan landsins hefur engin áhrif á stjórnskipan þess. Aldrei hefur þess verið krafist að forsetinn væri í þjóðkirkjunni öfugt við það sem gildir um þjóðhöfðingja Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Þess er heldur ekki krafist að lögum að kirkjumálaráðherra sé í þjóðkirkjunni. Kirkjuskipanin hefur með öðrum orðum engin gagnvirk áhrif á ríkisvaldið. Tvísýnt er líka að ýmislegt sem hengt hefur verið á kirkjuskipanina, eins og Njörður P. Njarðvík gerir t.d. með setningarathöf Alþingis, sé í raun hluti hennar eða afleiðing af henni. Hér er fremur um að ræða hefð þingsins sjálfs sem breyta má án þess að kirkjuskipan ríkisins verði felld brott. Helgistundin við þingsetninguna gæti jafnvel lifað slíka breytingu af.

Ástæðan fyrir því að mörgum kann að virðast Ísland lútherskt lýðveldi er að líkindum hversu sterkur mótunarþáttur lútherskur mann- og samfélagsskilningur hefur verið í landinu s.l. 450 ár og er enn. Þar er enda að finna forsendu þess að lútherska kirkjan geti enn notið stöðu þjóðkirkju hér. Dragi verulega úr þeim áhrifum hljóta dagar kirkjuskipanarinnar að vera taldir.

„Sekúlarismi?“

Sjónarmið þau sem viðruð eru um tengsl ríkis og túfélaga í Spegli þjóðar kunna í fljótu bragði að virðast borin uppi af fullkomnu hlutleysi. Svo þarf þó alls ekki að vera. Allt eins má líta svo á að hér komi fram hreinræktaður „sekúlarismi“. Hann er allrar virðingar verður sem slíkur eins og allar málefnalega fram settar öfgalausar skoðanir. Þess ber þó að gæta að hann er ekki hlutlaus. Þvert á móti felur hann í sér markaða afstöðu. „Sekúlarismi“ ræður sums staðar för í samskiptum ríkis og trúfélaga eins og t.d. í Frakklandi. Hann er líka á pari við ýmsar þær tæknilausnir sem við Íslendingar höfum lengi verið býsna veik fyrir en hafa haft misholl áhrif fyrir þjóðfélag okkar. Auknu hlutleysi og jafnræði í trúarefnum er mögulegt að ná eftir ýmsum öðrum leiðum líkt og bent verður á í komandi pistli.