Þegar ekið er eftir veginum í Vatnaskóg og horft í átt að Eyrarvatni tekur, eins og áður segir, Gamli skáli á móti gestum. Austur af Gamla skála stendur í Lindarrjóðri kapella sem orðin er órjúfanlegur hluti af upplifun þeirra sem dvelja í Vatnaskógi. Hún var reist 1949 af ungum mönnum sem tóku þátt í uppbyggingarstarfinu í Vatnaskógi og stendur við lindina í Lindarrjóðri. Í kapellu þessari er afsteypa af hinni frægu Kristsmynd Bertels Thorvaldsens sem stendur við altari Vorrar frúar kirkju í Kaupmannahöfn. Kristsmynd Thorvaldsens ætti að vera okkur Íslendingum að góðu kunn, en önnur eftirmynd hennar er við Fossvogskirkju. Á fótstall styttunnar er áletrunin „Komið til mín“ og vísar hún til orða Jesú Krists í 11. kafla Matteusarguðspjalls: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“
Afsteypur af Kristsmynd Thorvaldsens eru víða til og hafa þær orðið fólki mikill innblástur. Til er saga af manni nokkrum sem heimsótti Frúarkirkjuna í Kaupmannahöfn til að berja styttu Thorvaldsens augum. Hann varð strax fyrir vonbrigðum því honum þótti eins og Kristur Thorvaldsens virti sig ekki viðlits, því styttan væri svo niðurlút. En maðurinn komst að raun um annað þegar hann kraup við altari kirkjunnar. Er hann leit upp horfði hann í augu frelsarans, sem laut höfði og horfði til hans mildum augum með útréttar hendur. Það var eins og frelsarinn segði við hann: „Komdu til mín, ég tek þig í faðm minn, hjá mér áttu skjól, sjáðu sárin mín sem ég ber fyrir þig, hjá mér er líf, hjá mér er hvíld.“
Jesús Kristur býður okkur að koma til sín og öðlast frið og hvíld í amstri dagsins, hann býður okkur að staldra við og fela sér áhyggjur okkar, kvíða okkar og óróleika. Með þessum boðskap eru öll þau sem sækja Vatnaskóg heim nestuð og skipar kapellan og Kristsmynd Thorvaldsens mikilvægan sess í sjóði minninganna. Ég hitt oft fullorðið fólk sem dvaldi í Vatnaskógi á æskuárum, jafnvel fyrir mörgum áratugum, sem allt til þessa dags minnist sérstaklega stundanna í kapellunni.
Í ávarpi sínu til bresku þjóðarinnar vegna heimsfaraldurs Covid-19 sagði Elísabet II að á tímum samkomu- og útgöngubanns ásamt öðrum takmörkunum á daglegt líf væri fjöldi fólks að fá ráðrúm til bænar og íhugunar. Það eru orð að sönnu, því vissulega hefur hægst verulega á daglegu lífi margra sem kjósa að vera meira eða minna heima hjá sér á þessum tímum. Þá er dýrmætt að uppgötva bænina á ný og reyna það að við getum á flóknum og erfiðum tímum treyst því að frelsarinn Jesús býður okkur til sín með útbreiddan faðminn. En þótt hægst hafi verulega á daglegu lífi margra standa aðrir, sérstaklega barnafjölskyldur, frammi fyrir annars konar áskorun. Að skapa jafnvægi og ramma utan um daglegt líf þegar vinnan fer fram heima og skólastarf, íþróttastarf og frístundastarf er takmarkað. Þá er ekki óeðlilegt að finna til þreytu, kvíða og jafnvel aukinnar streitu. Í slíkum aðstæðum er ekki síður dýrmætt að heyra orð Jesú Krists, sem standa á styttunni í kapellu sumarbúðanna í Vatnaskógi: „Komið til mín.“
Kæri lesandi, það er von mín að þú megir finna frið, styrk og huggun í bæninni og samfélaginu við Guð á þessum umbrotatímum. Það er von mín að þegar þú lítur aftur til þessara flóknu tíma sem við nú lifum megir þú minnast bæna- og íhugunarstundanna með Jesú Kristi, sem þú gafst þér ýmist í hægagangi Covid-19 hversdagsins eða í skarkala hans. Að þessar stundir megi verða þér dýrmætar á sama hátt og stundirnar í kapellu Vatnaskógar eru þeim sem þar hafa dvalið ómetanlegar.