Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
I. Fyrir tæpum sautján árum stóð ég fyrir altari Ísafjarðarkapellu í Menntaskólanum. Þetta var fyrir tíma Ísafjarðarkirkju hinnar nýju á fimmta sunnudag eftir þrettánda og tæpar þrjár vikur liðnar frá snjóflóðinu í Súðavík. Ég hafði tekið að mér að vera aðstoðarprestur á Ísafirði í tvo mánuði eftir hamfarirnar svo að sóknarpresturinn gæti einbeitt sér frekar að sálgæslunni og horfðist nú í fyrsta skipti í augu við söfnuðinn. Guðspjallið var sjálft Faðirvorið og það átti vel við að brýna fyrir söfnuðinum við þessar erfiðu aðstæður að biðja án afláts. Ég minnist vanmáttar míns við að flytja ræðuna, því að mér fannst erfitt að tala um bænina í kjölfar atburðanna.
Ég man þessa snjóþungu daga á Ísafirði í febrúar og mars 1995. Ég man dagana þar sem fólk gekk gjarnan niðurlútt og þungbúið í vetrarsnjókomunni, daga þar sem þungt var að tala við fermingarbörnin um bölið í heiminum sem þau höfðu nýlega kynnst sjálf og vildu helst af öllu gleyma, daga þar sem fátt var hægt að gera annað en að halda þétt hvert utan um annað. Margsinnis síðan hefur Skutulsfjörðurinn hefur tekið á móti mér með glampandi sól og bláum fjöllum. Það er gott að koma hingað og fá að eiga stund í helgidóminum fagra, eiga kyrra stund þar sem Guð ríkir, hvort sem sólin skín eða kyngir niður snjó. Og um leið og við minnumst hinna miklu hörmunga í nágrannabyggðinni fyrir sautján árum, er líka gott að minnast samheldninnar og ákveðninnar við að halda lífinu og gleðinni til streitu þrátt fyrir áföllin.
Enn á ný er okkur færður ritningarlestur sem hefur verið valinn þessum tiltekna sunnudegi til að íhuga saman í húsi Drottins. Orð seinni ritningarlestursins koma úr 12. kafla Rómverjabréfsins og hljóða svo:
Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.
Við getum ekki ráðið öllu því sem við verðum fyrir. En þessi orð um það hvernig við eigum að sigra hið illa minna okkur á það að við getum valið hvernig við bregðumst við því sem hendir okkur. Og kannski er ennþá meir um vert að þegar bölið er of mikið til þess að við getum skilið það eða brugðist við því, þegar við eigum fátt gott til að sigra hið illa með, og finnst við engra kosta eiga völ, þá eigum við Guð. Og það er nóg.
II. "Lát ekki hið illa sigra þig, en sigra þú illt með góðu" segir pistillinn og þar sem góð svör vekja nýjar spurningar, þá hljótum við að spyrja hvernig. Í guðspjalli dagsins réttir líkþrár maður hönd sína til Jesú og segir: „Drottinn, ef þú vilt, þá getur þú hreinsað mig.“ Og Jesús svarar: Ég vil, ver þú hreinn.“ Mér finnast þessir tveir lestrar hljóma svo sterkt saman hér í dag, pistillinn um það að sigra illt með góðu og guðspjallið þar sem hinn þurfandi biður um hjálp. Og Jesús vill og hjálpar, líka þegar verkefnið er stórt og erfitt. Flest vildum við gjarnan sleppa við hið illa og upplifa líf sem væri laust við leiða, illkvittni, angist, hatur og hræðslu. En ef við byggjum við slíkar aðstæður ættum við ekki heima í mannlegu samfélagi.
Hvernig getum við sigrað illt með góðu? Hvernig getum við verið hreinsuð af hinu illa, arga, bitra og reiða? Er ekki það að sigra illt með góðu eitthvert alerfiðasta verkefni sem við getum staðið frammi fyrir? Sumt af bölinu sem hendir okkur í sambúð okkar við annað fólk og óblíða náttúru er þess eðlis að það er engum sérstökum að kenna. En það er líka til böl sem er af manna völdum og að því skulum við snúa okkur nú þegar við íhugum hvernig við getum sigrað illt með góðu.
Sumt böl verður til vegna þess að við vorum á röngum stað á röngum tíma. Annað verður til vegna þess að við vorum óheppin með foreldra, vini eða maka. Sumt böl er blandað okkar eigin sjálfskaparvítum sem vinda upp á sig og búa til nýjar óþolandi aðstæður. Annað getur verið fólgið í andstreymi, illvilja eða ofbeldi sem er beinlínis beint gegn okkur. Við getum auðveldlega lent í hinum verstu aðstæðum og mörg hver jafnvel án þess að hafa nokkuð um það að segja. Og þá er úr vöndu að ráða með úrvinnsluna.
Það er auðvelt að segja öðrum að þau eigi að sigra illt með góðu, erfiðara að fara eftir því sjálfur. Í ríkissjónvarpinu er einmitt verið að sýna vikulega framhaldsþætti sem heita Hefnd og fjallar um unga konu sem gerist refsinorn yfir þeim sem beittu föður hennar órétti. Ætli slíkir þættir séu ekki vinsælir vegna þess að að það er stutt í hefndarþorstann og langræknina í okkur undir sléttu yfirborðinu? „Hefndin er sæt“ segir máltækið, hefndin er yfirleitt öflug freisting, eins og allir þekkja sem hafa einhvern tímann orðið reiðir og sárir. Hefndin er nærtæk freisting fyrir þann sem þráir endurgjald fyrir harma sína og reiði og hún getur orðið sterk, mikil og eyðandi hvöt.
Í lestrinum er mikil áhersla lögð á það að við eigum ekki sem kristnar manneskjur að hefna okkar. Þegar hefndin nær tökum á okkur, hefur hið illa unnið. Í hefndinni höfum við komið höndum yfir vald en það vald er ekki okkar eigið heldur Guðs. Við eigum ekki að hefna okkar en þar með er ekki sagt að við eigum ekki að láta óréttlæti okkur varða. Næsti kafli Rómverjabréfsins á eftir þessum ritningarstað talar um mikilvægi yfirvalda og að borgarinn eigi ekki að taka sér það vald sem dómaranum ber. Þetta samhengi textans segir okkur að Páll postuli er ekki að biðja fólk um að láta ofbeldi og alls kyns ólög malla undir yfirborðinu, heldur að láta lög og rétt ráða för. Á þeim stöðum sem fólk býr við sæmilegt réttarfar getur dómskerfið leyst úr mörgu málinu og endurreist heiður þeirra sem fyrir skaðanum hafa orðið. En svo er líka margur mannlegur sársauki sem aldrei hefur í réttarsal komið og á ekki þar heima.
Að sigra illt með góðu er ekki það sama og að sleppa því að hefna sín. Það er ekki nóg að bera harminn í hljóði til að hið góða hafi sigrað. Manneskja getur sleppt því að hefna sín en orðið bitur og reið inni í sér. Hún getur alið með sér gulgrænar eiturhugsanir og ljóta tungu sem eru litlu betri en hefndarhöndin reidd á loft.
Hvað er þá til ráða ef við megum hvorki hefna okkar né láta okkur nægja að næra reiði okkar í einrúmi? Hvernig í veröldinni eigum við að fara að því að sigra illt með góðu og sleppa því að leika í okkar eigin hefndarsjónvarpsseríu? Meðan við veltum því fyrir okkur hvernig við eigum að sigra og verða hrein eins og líkþrái maðurinn í guðspjallinu, þá langar mig til að segja ykkur dæmisögu.
III. Einu sinni var drottning sem átti frægan og fagran demant. Dag hvern glitraði demanturinn eins og tærasta vatn og gladdi eiganda sinn. Svo varð demanturinn fyrir hnjaski á einhvern óskýrðan hátt. Það myndaðist stór sprunga í hann og nokkrar ljótar rispur líka. Drottningin varð hnuggin yfir demantinum sínum sem var ekki svo fallegur lengur og hún leitaði til margra demantaslípara til að fægja steininn. En hvernig sem þeir hömuðust á steininum þá var engin leið að losna við rispurnar og sprungan var alveg jafn stór og áður. Drottningin hélt áfram að leita og að lokum frétti hún af manni sem var sérfróður um eðalsteina. Hún sýndi honum demantinn og maðurinn skoðaði hann í krók og kring. Eðalsteinsmiðurinn var lengi að vinna við steininn og hann vann af natni og elju. Þegar hann loksins sýndi drottningunni demantinn var steinninn gjörbreyttur. Steinsmiðurinn hafði grafið hárfínan rósaknúpp í kringum skemmdina og rispurnar og í sprungunni hafði hann greypt rósastilkinn. Þegar drottningin sá steininn fylltist hún gleði, því demanturinn hennar var ennþá fallegri en fyrir óhappið.
Inntak þessarar sögu er að við skulum ekki gefast upp fyrir hinu illa, heldur seiglast áfram með Guðs hjálp í átt til umbreytningar. Það er ekkert auðvelt að breytast, breyta ósigrum sínum og skipbrotum í sigra og löstum í kosti. Við erum þessi eðalsteinn í sögunni sem verður fyrir hnjaski og á okkur myndast sprungur og rispur. Í hvert sinn sem við veljum að smakka hefndina eða látum reiðina sjóða inni í okkur þá bætist við ný rispa og nýr flekkur á steininn fagra. Kannski erum við ekki alltaf falleg undir yfirborðinu og það er hægara sagt en gert að pússa upp þessar rispur og fylla upp í sprungurnar. Og þá er svo gott að drottningin skuli aldrei gefast upp. Hún byrjaði á að tala við alla demantaslíparana í ríkinu og þegar þeir gáfust upp á demantinum hélt hún lengra uns hún fann þann sem gat breytt ljóta rispusteininum í fegursta rósaflúr.
„Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig,“ sagði líkþrái maðurinn. Og Jesús sagði: "Ég vil, verð þú hreinn." Það er eitthvað stórkostlegt við það þegar sprungnar skurnir verða að fegursta rósaflúri. Þegar vinir sættast. Þegar einhver biður fyrirgefningar. Þegar einhverjum tekst að reisa líf sitt úr rústum eftir margra ára villustigu. Þegar demantur verður heill. Þegar líkþrár maður verður hreinn. Þegar fólki tekst að byggja upp líf að nýju eftir hræðileg áföll. Þegar einhvern veginn tekst að umbylta öllu því ljóta og sára og raunalega sem skemmt getur líf okkar yfir í það sem er gott, vonarríkt og fallegt.
Það gerir Guð: Guð segir við okkur sem búum í leyni til okkar eigin hefndar og reiðisjónvarpsseríur: „Ég vil, verð þú hrein/n.“ Það breytir því ekki að raunir og rispur eru á demantinum okkar. Eðalsteinsmiðurinn slípaði ekki rispurnar burtu eða múraði yfir sprunguna. Hann beitti list sinni til þess að skorurnar og sárin í steininum öðluðust nýja merkingu.
Það er líka merkilegt að ritningarlesturinn ber okkur út úr eigin hugskoti og yfir til þeirra sem við búum með. Í honum segir:
Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum. Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.
Þannig eru ávextirnir af því að hafa látið greypa rósir á hugann sinn í staðinn fyrir rispur. Sá sem er orðinn hreinn situr ekki lengur og horfir á eigin sáramerki, heldur horfir í kringum sig. Og þangað skulum við fara og sigra með Guðs hjálp illt með góðu.
IV. Ég man það enn þegar ég stóð við altarið í Menntaskólanum og vissi ekki almennilega hvernig ég átti að tala um bænina eftir snjóflóðið. Það var erfitt að fjalla um það óvænta og ógnvænlega sem mannleg stjórn og hugvit ræður ekki við, erfitt að orða holt tómið og reyna að láta fagnaðarerindið hljóma í húsi sorgarinnar. Það er yfirleitt erfitt að hugsa um og orða það sem við ráðum ekki við. En þegar upp var staðið þurfti ég ekki að tala mikið um bænina í minni fyrstu guðsþjónustu á Ísafirði eftir snjóflóðið. Guð kom og dvaldi þessa stund í bænum okkar, orðum, atferli og samfélaginu við Guðs borð.
Guð umbreytir. Guð hreinsar sára sorg og erfiðar tilfinningar. Guð lagar demantinn okkar og beinir okkur upp úr sprungunum yfir í að hugsa hvert um annað. Þangað streymir bænin. Þangað leitar hið góða. Og það er nóg, það er allt sem við þurfum til að verða hrein og sigra illt með góðu.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.