Guðs kirkja er byggð á bjargi

Guðs kirkja er byggð á bjargi

Við höfum safnast saman hér í húsi Guðs á Hálogalandshæðinni. Við höfum heyrt og þekkt guðspjall dagsins. Því að það eru litlar líkur á því að þið sem hér eruð nær eða hlustið fjær þekkið það ekki og hafið hugsað um það, - og ef til vill líka einhverntíma sungið um það barnasönginn: Á bjargi byggði hygginn maður hús .... og látið eða séð regndropana streyma úr litlum tifandi fingrum og heyrt smellinn þegar hús hins heimska féll.

(Á þeim dögum sagði Jesús:) Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi.

Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi. En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið. Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu, undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá, er vald hefur, og ekki eins og fræðimenn þeirra. (Mt. 7.24-29)

Drottinn Guð vek eyrun og hjörtun svo að við getum tekið á móti þinni duldu visku Lát ljós þitt lýsa okkur leiðina og vísa veginn, svo að við megum hlýða kalli þínu og fylgjum Jesú Kristi frelsara okkar og bróður. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Við höfum safnast saman hér í húsi Guðs á Hálogalandshæðinni. Við höfum heyrt og þekkt guðspjall dagsins. Því að það eru litlar líkur á því að þið sem hér eruð nær eða hlustið fjær þekkið það ekki og hafið hugsað um það, - og ef til vill líka einhverntíma sungið um það barnasönginn: Á bjargi byggði hygginn maður hús .... og látið eða séð regndropana streyma úr litlum tifandi fingrum og heyrt smellinn þegar hús hins heimska féll.

Með þessum söng tókum við með okkur einfaldan auðskilinn boðskap: annað hvort förum við eftir því sem Jesús segir eða ekki. Annað hvort byggjum við á bjargi eða ekki. Og samhengið þarna á milli fannst með því að syngja einn barnasönginn til: Jesús er bjargið sem byggja má á.

En það syngja fleiri en börnin söngva með þessu innihaldi:

Guðs kirkja er byggð á bjargi, það bjargið Jesús er...

eða:

Bjargið alda, borgin mín, byrg þú mig í skjóli þín...

Það er sem sagt bjarg í miðjunni á guðspjallinu, eða kannski klettur, eða kirkja.

Þegar þessari kirkju var valinn staður hér á Hálogalandshæð þá var ekki byggt á sandi, hvorki í bókstaflegum né yfirfærðum skilningi. Það eru nú aðrir kunnugri jarðfræðinni hér á hæðinni en svo mikið er víst að ekki er það sandur sem hún er gerð úr. Og söfnuðurinn sem kaus að reisa hér kirkju var sjálfur á bjargi. Hann var grundvallaður á góðu og göfugu starfi frumherjanna sem stóðu á bjargi. Það var eldur í því fólki – ástareldur.

Það var ekki byggt á neinum sandi heldur þegar barnaskarinn söng í gamla Hálogalandsbragganum – þegar hér var lagt af stað -. þau voru mörg hundruð.

Hvar eru þau nú? Nú eru þau lifandi steinar í kirkjubyggingu Guðs sem er ekki bara hús heldur samfélag og líkami Krists, - nema þau sem eru farin heim til Guðs eilífa húss á himnum. Þessi eldur kulnar ekki, þegar hann hefur eitt sinn verið kveiktur.

Þegar Daniel Glad var að ferðast fyrir Hvítasunnukirkjuna eitt sinn sem oftar og hitti prestinn sem hér stendur sem þá var á Raufarhöfn, og við borðuðum saman saltað hreindýrakjöt, skrifaði hann í gestabókina tilvitnun í pistil dagsins: Hann skrifaði : Guð er kærleikur. Hann skrifaði það á öllum þrem tungumálunum sem voru hans, - á finnsku, sænsku og íslensku. Því að þessi eldur er starfsamur og glaður.

Eldurinn á klettinum.

* * *

Dæmisagan sem er guðspjall dagsins er niðurlag Fjallræðunnar. Boðskapur dæmisögunnar gildir því um allt það sem þar stendur, en líka miklu meira. Það væri hægt að setja hana aftan við allar ræður og öll orð Jesú. En við værum að gera merkingu hennar rangt til ef við gerðum úr henni einfalda uppskrift, að ekki sé talað um einfaldar áminningar um breytnina eina.

Orð Jesú eru ekki gagnabanki sem hægt er að leita til eftir svari við öllum spurningum. Jesús segir ekki neitt um tiltekin mál. Hvernig gæti það svo sem verið?

En pistillinn segir okkur að kærleiksandi hans, kveiktur af orði hans,sé ekki bara starfsandi heldur leiðbeiningar andi. Það er með honum sem okkur er falið að prófa andana.

Það er sannarlega margs að gæta í auglýsingasamfélaginu og ekki bara þegar eru útsölur. En það er ekki bara nauðsynlegt að prófa hvort um gallaða vöru er að ræða í búðunum. - Prófið andana. Prófum líka þá sem okkur eru næstir. Hverju skila þeir og hvað kenna þeir?

Prófa hvar þú stendur.

Leitið að klettinum, segir guðspjallið, og beitið hyggindum en ekki heimsku.

Hver sem reynir að færa hugsun af einni tungu yfir á aðra stendur frammi fyrir miklum vanda. Tungumál breytast, orð fá nýja merkingu og tapa merkingu. Marteinn Lúther glímdi við að færa texta Biblíunnar yfir á móðurmál sitt og líkast til hafði enginn meiri áhrif á þýðingu Odds Gottskálkssonar en hann. Oddur færði okkur Orð Krists á íslensku. Hann kallar hinn hyggna vitran en hinn heimska fávísan. Eins og í málheimi Lúthers voru hjá honum greinileg tengsl á milli orðanna hyggindi og viska.

Orðið viska geymir í sér mjög margt frá fyrri tíðar skilningi. Það geymir guðfræðilega hugsun um Guð og þekkingu á vilja hans, það geymir vangaveltur um heiminn og yfirbragð hans, það geymir hæfileikann til handverks og listiðnar, næma tilfinningu fyrir stjórnmálum og það er fullt lífspeki daglegs lífs.

Þessi skilningur á orðinu var ríkjandi allt þar til sú kenning fór að njóta verulegra vinsælda að það væri ekki Guð sem ætti að ráða endanlegri farsæld í heiminum, heldur væru það tilteknir menn. Við nefnum engin nöfn. Það væri þá líkast til einhver annar en hann sem stjórnaði þörf einstaklinga til að fara með öll völd á jörðu.

Hvað er þá heimska? Það getur til dæmis verið skortur á hæfni og vilja til að gjöra hina æðri þekkingu á dýpstu leyndardómum að athöfn og framkomu og gjörðum.

Að heyra sannleikann og viðurkenna hann en láta hann ekki birtast í orðum og gjörðum, er alla vega ekki kennimark þeirra sem vinna vilja samkvæmt Guðs vilja.

Að gjöra sannleikann er að láta hann birtast í gerðum sínum. Það er grundvöllur og grunneðli visku og hygginda. Guðsþekking og guðsótti eru forsenda þess að gjöra sannleikann og fullkomnun þess er óforgengileg gleði.

Þessi endir fjallræðunnar, bundinn í dæmisöguna um húsbyggendurna mætti vera leiðbeinandi í hvert sinn sem orð Guðs er boðað og útlagt og hugleitt.

Það er þess vegna hyggilegt að skoða lok fjallræðunnar í ljósi upphafs hennar. Dæmisagan um hygginn mann og heimskan og hús þeirra helst í hendur við sæluboðin í upphafi ræðunnar. Það sem þar er lýst er þó sannarlega ekkert sem maður getur framkvæmt, heldur það sem maður getur verið, og leiðin sem maður getur farið.

Hyggindi og viska og hús reist á bjargi leiðir athyglina beint að kirkjunni.

* * *

Kirkja er hús á bjargi, annars er hún ekki kirkja. Kirkja er samfélag sem er grundvallað á klettinum Kristi. Þar er líf í andanum - þar sem, með orðum lexíunnar, ber að standa vörð um rétt lítilmagnans ...meðan hinar háreistu hallir mannanna hrynja (Jesaja).

Kirkja verður til úr fólki sem Jesús Kristur hefur kallað til þess að mynda kirkju og vera kirkja. Hann hefur kallað með orði.

Þegar við lesum frásagnir guðspjallanna af því þegar Jesús kallar til fylgdar þá sjáum við að köllunarorðið verkar alveg eins og sköpunarorð Guðs. Verði ljós, og það varð ljós. Fylg þú mér – og hann stóð upp og fylgdi honum.

Hann kallar og þú getur ekki látið vera að fylgja honum.

Hann kallar þig til samfélags. Og það er ekkert venjulegt samfélag. Kenningar um að samfélag verði til eins og sjálfkrafa milli þeirra sem hafa líkar skoðanir, líkt uppeldi , líkan bakgrunn, sama litarhaft, sömu trúarskoðanir, því kollvarpar samfélagið sem Jesús kallar til við borð sitt.

Það hafnar öllu aðgreinandi samfélagi. Hann raðar saman við borð sitt undarlega og undursamlega sundurleitum hóp í einskonar systkinasamfélag. Það er samfélag þar sem ekki er allt fyrirfram í samhljómi, heldur er líka hægt að segja:

Ég deili ekki skoðunum þínum og ég hafna algerlega gjörðum þínum, en þú ert systir mín eða bróðir minn - og ekkert fær því breytt og þess vegna erum við hérna hlið við hlið og þiggjum lífgjöf Guðs saman.

Þetta samfélag þýðir að við könnumst við systkini okkar sem sama hold og blóð og okkar eigið, og blygðumst okkar ekki fyrir það. Við blygðumst okkar ekki heldur fyrir bróður okkar Jesú.

,,Kirkjan ætti sem minnst að tala um tengsl sín við Ísrael”, sagði ágætur maður á dögunum.

Hversu sem okkur mislíkar framkoma, hugsun og gerðir tiltekinna leiðtoga í Ísrael getum við ekki gleymt því að bróðir okkar og frelsari var að því leyti sem hann er sannur maður, sonur Davíðs og að saga hans og starf hans og erindi hans er samofið sögu Guðs lýðs – þótt hann sé ekki hafður með í ráðum.

Einmitt þess vegna og hans vegna eigum við að þora að tala opinskátt um órétt og valdníðslu gagnvart Palestínu. Við eigum að þora að prófa andana, ekki síst þá sem eru með nafn Guðs á vörunum en myrkur og hatur í hjartanu – og gá í okkar eigið. Samfélagið við borð Drottins er samfélagið sem kannast við Krist og kannast við kirkju hans og grundvallargildi hennar.

Dóms- og kirkjumálaráðherra Björn Bjarnason talaði tæpitungulaust í Sauðárkrókskirkju við setningu preststefnu 23.júní sl. Þar ávarpaði hann kirkjuna í fyrsta sinn með formlegum hætti sem kirkjumálaráðherra. Það sem hann sagði var heiðarleg brýning og heilsusamleg. Hann sagði:

,,Á sínum tíma var sagt: Hér stend ég og get ekki annað! Of oft vaknar sú spurning, hvort ekki sé nauðsynlegt að endurtaka þá staðfestu í þágu kristni og kirkju. Ekki vegna lokunar matvörubúða heldur til að árétta hlut þess, sem stendur vörð um mikilvæg gildi. Óttafull kirkja í vörn er þverstæða, því að hún er reist á bjargi, - og að bregðast við ögrun með þögn er ekki í anda hins lúterska fordæmis".

Þetta sagði ráðherrann.

Kirkjan hefur einn grunn, sem er Jesús Kristur. Það er hellubjarg – segir Oddur Gottskálksson í þýðingu sinni. Og í fyrstu þýðingu Mattthíasar Jochumsonar á sálminum sem við syngjum á eftir , stendur: Hellubjarg og borgin mín.

Og það er hellubjarg hérna undir.

Grunnur kirkjunnar er traustari öllum öðrum vegna þess að Jesús Kristur er sá sem allt vald á bæði á himni og á jörðu.

Hann er Guð.

Hann kallar til djörfungar þau sem vita og finna á hvaða kletti þau standa.

Það sem ég segi yður í myrkri skuluð þér tala í birtu, (segir hann) og það sem þér heyrið hvíslað í eyra skuluð þér kunngjöra á þökum uppi. Mt.10.27

Á bjargi byggði hygginn maður hús, - og þá kom steypiregn.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Lexía Jes. 26. 1-7 - Pistill 1.Jh. 4.1-6 - Guðspjall Mt. 7.24-29.