Krossar í kyrruviku

Krossar í kyrruviku

Það er regnvotur dagur og blokkin rís upp eins og sæbrattur hamraveggur. Sjávarbarin og grænleit. Vindurinn leikur sér að ruslinu í kringum blokkina og þegar að útidyrum er komið blasa við kámugir dyrabjölluhnappar, sumir brotnir og aðrir á kafi inni í dósinni.
fullname - andlitsmynd Hreinn Hákonarson
18. mars 2008

I.

Það er regnvotur dagur og blokkin rís upp eins og sæbrattur hamraveggur. Sjávarbarin og grænleit. Vindurinn leikur sér að ruslinu í kringum blokkina og þegar að útidyrum er komið blasa við kámugir dyrabjölluhnappar, sumir brotnir og aðrir á kafi inni í dósinni. Límt og krotað yfir gömul nöfn, önnur yfirskrifuð með barnslegri hendi. Þriðja hæð til vinstri var það og þó hnappinn vanti er árætt að þrýsta á oddhvassan pinnann. Skruðningar heyrast og óskiljanleg rödd í öræfafjarska og síðan urgar veikt í hurðarkarminum til merkis um að dyrnar séu opnar. Þegar upp er komið er skældri hurð hrundið upp. Kona stendur í gættinni með sígarettu milli skininna fingra þar sem hringur sat við hring og svipur hennar er þungur og ásakandi. Inni í stofu situr karlmaður vandræðalegur á svip og handtak hans er þvalt og öryggislaust. Sonur þeirra var kominn í fangelsi. Móðir hans öryrki og áfengissjúklingur. Hún og faðir piltsins sem þarna sat augljóslega nauðugur voru skilin. Móðirin hafði þröngvað manninum til þess að koma á þennan fund og las honum pistil um skyldur hins ábyrga föður sem hann hafði reyndar heyrt áður. Heyrt en ekki skilið. Skyldur sem hann hafði auðheyranlega gjörsamlega brugðist og því var nú komið svo fyrir syni þeirra sem raun bar vitni um. Það voru að minnsta kosti hreinar línur. Eftir reiðilesturinn brast konan í grát og eiginmaðurinn fyrrverandi horfði á hana tárvotum augum alls ómegnuður – eins og svo oft áður.

II.

Gatan var lokuð og dýpst í botnlanga hennar stóð reisulegt einbýlishús og nokkrir bílar þar fyrir utan. Húsið var umgirt trjágróðri og dauft ljós frá litlum garðstaurum varpaði birtu sinni yfir fagurlega hönnuð blómabeð. Þegar stutt var á bjölluhnapp flóðu innandyra og milli stafs og hurðar skærir hljómar æðri tónlistar svo ekki færi fram hjá neinum að þar bjó hugsandi fólk. Dyr voru opnaðar í skyndi svo sem fylgst hefði verið með komumanni. Konan sagði að þau væru öll komin og lagði áherslu á öll. Þegar inn var gengið stóð lítill hópur fólks upp og hver og einn kynnti sig. Þar var faðir og móðir, systkini, sambýliskona og móðir hennar, afi og amma. Brothætt kyrrðin var rofin með spurningu um hvort koma ætti með kaffi. Rám og gömul rödd barst frá afanum sem sat í djúpum leðurstól, harðleitur á svip og sagði að enginn í þeirra fjölskyldu hefði setið í fangelsi. Fyrr en nú. Lét þess jafnframt getið að hann kærði sig ekki um að vera þarna en gerði það aðeins fyrir dóttur sína. Svo svívirðilegan glæp sem barnabarn hans hefði framið fyrirverði hann sig fyrir. Gæti ekki litið framan í nokkurn mann. Þurrkaði tár af elligulum hvarmi. Amman bað hann ekki að láta svona. Drengurinn gæti farið í meðferð. Afinn vissi ekki til þess að nauðgarar færu í aðra meðferð en vönun. Þetta var dálítið bratt upphaf og móðirin spurði með ýktum uppörvunartóni hvort hann gæti ekki farið í skóla í fangelsinu. Hann væri góðum gáfum gæddur en hefði reyndar alltaf verið eirðarlaus í skóla og væri með allar greiningar sem nöfnum tjáði að nefna og afinn rumdi að vandræði mannfólksins ykust í jöfnu hlutfalli við aukinn fjölda sérfræðinga. Strákurinn hefði bara verið ódæll og ekki fyrir bókina. Faðir piltsins sagði að þau stæðu með honum í gegnum þykkt og þunnt. Hann væri sonur þeirra og þó svo hann hefði lent í þessu – nauðgað, skaut afinn í milli samanbitinna tanna – þá vildu þau að fangelsisvistin yrði honum sem bærilegust. Systkini hans fyndu til með honum og væru hrædd um hann inni í fangelsinu. Þau væru öll hrædd.

III.

Þau komu að vestan úr sjávarplássi við þröngan fjörð. Alþýðufólk með stórar hendur og hlýtt hjarta. Plássið þeirra mátti muna sínn fífil fegri þegar stímið var stutt út á fengsæl miðin. Nú var allt orðið lengra að fara – og allt farið lengra. Dóttir þeirra hafði fengið þungan dóm fyrir að bera inn fíkniefni til landsins. Móðirin sagði hana hafa stungið af suður og eignast barn með sér eldri manni sem þau vildu ekki vita af. Þessi maður hefði komið í plássið þeirra og lokkað hana til sín og troðið fíkniefnum í hana. Hún hafi ætíð verið inní sér og auk þess verið lögð í einelti í skólanum. Síðan hefði bara eitthvað gerst um leið og þessi maður kom og klófesti hana umyrðalaust. Þau hefðu ekki ráðið neitt við neitt og hún ætt suður á eftir honum. Frá þeirri stundu hefði líf þeirra og hennar verið ein þrautarganga. Barnið hennar væri hjá þeim og hefðu þau tekið það að sér eftir að hún fór að búa á götunni. Sjálf vildi hún ekki koma – gatan var betri og líflegri en plássið fyrir vestan. Þau ætluðu að heimsækja hana í fangelsið ásamt barninu en vissu ekki hvernig þau ættu að bera sig að né heldur hvernig segja ætti fimm ára stúlkunni frá þessu. Reyndar vissu þau ekki hvort hún vildi yfirhöfuð sjá þau. En hún væri barnið þeirra. Og yrði það alltaf.

Jafnvel þótt gatan væri betri en plássið.

IV.

Hverfið hallaði ofurlítið mót litlum vogi og rétt ofan við flæðarmálið á besta stað stóð hálfbyggt hús sem greinilega átti að verða öðruvísi en önnur hús. Svo var að sjá sem smiðirnir hefðu gert nokkurt verkhlé til að velta því fyrir sér hvernig bogadregið þakið ætti að nema við þykkan og smáhamraðan kopargaflinn.

Hún vissi ekki annað en að fyrirtækið gengi vel. Þó hús þeirra væri hálfklárað og þau byggju í kjallaranum var eins og hann vildi taka lítil skref í einu. Vildi ekki skulda of mikið. Sjálf var hún á sama máli enda þótt hún hefði oft verð þreytt á því hvað þetta gengi allt saman hægt og hann ynni eins og þræll alla daga. Viðurkenndi þó að þau hefðu dýran smekk og vildu ekki hvað sem var um leið og hún strauk grönnum fæti sínum eftir hálfmöttu eikarparkettinu þar sem vel ættbókarfærður hundurinn lá fram á lappir sínar. En að hann gerði þetta. Seildist í sjóði fyrirtækisins. Ekki hann. Og hvað hann í ósköpunum hefði gert við alla þessa peninga hefði hún ekki hugmynd um. Ekki gekk húsbyggingin hraðar fyrir sig. Ævintýrið væri úti og eftir sæti skömmin ein.

Hún sagði að hann hefði alltaf verið góður pabbi – þegar hann hafði tíma.

Drengurinn þeirra, níu ára augasteinn hans og yndi, sem hann vildi vera sem mest með en vinnusemin hefði hamlað því. Stundirnar sem þeir áttu saman voru því einstakar. En nú. Nú væri hann í fangelsi. Breyttur maður, þögull sem gröfin og greinilega úrvinda af svefnleysi. Úr hverri heimsókn færi hún með kökk í hálsi og gréti í bílnum alla leiðina í bæinn. Og hvað ætti hún að segja drengnum? Enn hefði hún ekki treyst honum til að heimsækja föðurinn. Henni hefði tekist að leyna öllu fjölmiðlafárinu í kringum málið. Í stað háværra fréttatíma sem innbyrtir voru eins og óvænt meðlæti með kvöldmatnum hefði kliðmjúk tónlist ómað svo drengnum fannst hann vera kominn á annarlegan stað. Hvar var pabbi hans? Að vinna í Kárahnjúkum? Voru þar ekki bara skurðgröfur og smiðir? Hafði pabbi hans ekki alltaf verið að vinna í útrásarfyrirtækinu? Og hvers vegna var mamma hans alltaf svona döpur? Hann hafði séð hana gráta svo hún vissi ekki af. Hvers vegna töluðu allir svona lágt þegar þeir komu í heimsókn – eins og einhver væri dáinn? Og kæmi hann inn þar sem fólkið var að tala hækkaði það allt í einu málróminn og spyrði hvernig gengi í skólanum eða í boltanum.