Náttúruvernd og lífsins gæði

Náttúruvernd og lífsins gæði

Þess vegna verð ég áhyggjufull þegar ráðamenn tala um að afturkalla lög um náttúruvernd án þess jafnvel að gera grein fyrir markmiði eða tilgangi þeirrar ákvörðunar
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
29. september 2013
Flokkar

Í sögunni af Litla prinsinum eftir flugmanninn og rithöfundinn Antoine De Saint-Exupéry á litli prinsinn eftirfarandi samtal við kaupsýslumann sem er í óðaönn að telja allar stjörnur himinsins sem hann telur sig réttilega eiga. Rökin fyrir eignarrétti hans yfir stjörnunum eru þau að þegar maður finni eitthvað sem „enginn“ á þá megi maður réttilega kallast eignaraðili að því sem er fundið. „Þegar þú finnur gimstein sem enginn á, átt þú hann. Þegar þú finnur eyju sem enginn á, átt þú hana. Þegar finnur hugmynd fyrstur , færðu á henni einkaleyfi. Þú átt hana. Og ég á stjörnurnar af því að enginn hefir nokkurn tíma á undan mér hugsað um að eiga þær.“ En litli prinsinn hafði mjög ólíkar hugmyndir um eignarrétt fólks. Hann sagði við kaupsýslumanninn. „ Ég á blóm sem ég vökva daglega. Ég á þrjú eldfjöll sem ég hreinsa vikulega. Því að ég hreinsa líka það sem er kulnað. Maður veit aldrei. Það er til gagns fyrir eldfjöllin og það er til gagns fyrir blómið að ég eigi þau. En þú ert stjörnunum ekkert til gagns.“ Ég held að það sé fátt sem hafi haft eins mikil áhrif á umhverfisvitund mína eins og það að slíta barnsskónum í æðarvarpi. Á vorin vantaði bara David Attenborough heim í Laufás, smá styrk frá Kvikmyndasjóði og Óskarsverðlaunin hefðu bókstaflega legið í túnfætinum. Laufáshólmarnir iðuðu af lífi og milli þeirra rann Fnjóskáin með sinn urriða og bleikju og smádýr sem augað nemur varla en hafa samt svo ótrúlega mikilvægu hlutverki að gegna í lífríkinu. Æðarfuglinn var minn Litli prins í æsku, kollan var sú sem fræddi mig um „eignarrétt“ mannsins í náttúrunni. Hún gerði það með trausti, með því að ganga af hreiðri og gefa okkur færi á að taka æðardúnskransinn sem var afgangs af framleiðslu hennar til að halda hita á eggjunum. Þegar maður hefur upplifað að deila gæðum með náttúrunni er ekki aftur snúið, það er næstum eins og að verða móðir eftir það sér maður allan heiminn sem móðir, það getur verið bæði fallegt og sárt. Æðarkollan kom og verpti í hólmunum af því að koma hennar var undirbúin, það var búið að setja upp flögg, fæla burt varginn eins og frekast er unnt og virða þann tíma sem hún þarf til að velja sinn stað og útbúa hreiður. Það er svo merkilegt að það gilda nákvæmlega sömu reglur um samskipti manns og náttúru og samskipti manna á milli. Það gilda sömu reglur ef markmiðið er að stuðla að kærleiksríkum, sanngjörnum og réttlátum samskiptum. Það er þessi afstaða Litla prinsins sem þarf að liggja til grundvallar, þetta að gera hvert öðru gagn. Þetta er lífsspeki litla prinsins , kjarninn í heimspeki Kants og síðast en ekki síst grundvallar mannskilningur kristindómsins, sbr tvöfalda kærleiksboðorðið og gullnu regluna. Við verðum að gefa til að þiggja, verðum að setja okkur í spor annarra til að eiga í gagnvirkum og gefandi samskiptum, verðum að hafa vilja til að þjóna hvert öðru til þess að skapa gæði. Kaupsýslumaðurinn í ævintýrinu um Litla prinsinn og ungi ríki maðurinn í guðspjalli dagsins sem kemur til Jesú og spyr um ávísun að eilífu lífi, eiga það sammerkt að sjá gæði lífsins en vita ekki hvernig best er að höndla þau og kannski eigum við það flest sammerkt með þeim að vita hvað er gott og rétt en finna ekki alltaf leiðina að því. Jesús er nokkuð ákveðinn við unga manninn í svari sínu þegar hann segir „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ Einhver gæti sjálfsagt komist að þeirri niðurstöðu eftir lestur guðspjallsins að það að eiga veraldlegan auð sé út af fyrir sig brenglandi og augljós fyrirstaða í leitinni að raunverulegum lífsgæðum en það er ekkert svarthvítt í mannskilningi Jesú. Svarthvítur mannskilningur er bara misskilningur, menn geta hvort tveggja í senn verið ríkir að veraldlegum og andlegum gæðum. Það sem Jesús hins vega sér og skynjar í fari unga mannsins er að hann er svag fyrir skyndigróða í andlegum efnum, hann ætlar að slá eign sinni á Guðs ríki af því að enginn hefur nokkurn tímann á undan honum hugsað um að eiga það rétt eins og stjörnurnar. Hann fattar ekki að hann þarf að gefa eitthvað til Guðs ríkis til að eignast hlutdeild í því. Jesús er í sjálfu sér alveg sama um peninga unga mannsins hann veit að á alheimsvísu munu þeir ekki útrýma fátækt eða leysa stóran vanda en honum hugnast ekki sú afstaða mannsins að vilja bara eiga til að eiga, hvort sem það eru peningar eða trú. Öll gæði eru ætluð til dreifingar. Þess vegna verð ég áhyggjufull þegar ráðamenn tala um að afturkalla lög um náttúruvernd án þess jafnvel að gera grein fyrir markmiði eða tilgangi þeirrar ákvörðunar. Réttur náttúrunnar er nefnilega samofinn mannréttindum komandi kynslóða sem eiga að fá að njóta hennar og nærast af hennar gæðum bæði til líkama og sálar. Lífríkið er keðja þar sem hver hlekkur gegnir ómetanlegu hlutverki, það lærir barn mjög fljótt sem alið er upp í sveit. Æðarkollan kemur og verpir í hólmunum af því að í kringum hólmanna rennur á sem er full af næringu fyrir fuglinn og þegar fuglinn er nærður og öruggur býr hann sér til hreiður og verpir og framleiðir dún sem er ómetanlegur efniviður í sængur sem halda hita á mannfólkinu á köldum íslenskum vetrarnóttum osfrv. Svona má lengi telja og auðvitað er keðjan ólík eftir landssvæðum og gæðin og afurðirnar sömuleiðis. Þegar Kárahnjúkum var sökkt vildu ráðamenn lítið kannast við að það hefði áhrif á lífríki Lagarfljóts en nú hefur annað komið á daginn. Það er náttúrulögmál bæði í mannlegum samskiptum og í samskiptum við náttúruna að við getum ekkert átt nema gefa. Við verðum að fara að horfast í augu við þá staðreynd ef við ætlum að vera sanngjörn þjóð. Það er ekki hægt að slá eign sinni á stjörnurnar á þeim forsendum að engum öðrum hafi dottið það í hug, það er bara hægt að eiga í því sem maður hefur hlúð að og haft trú á að muni vaxa. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.