Kristur er upprisinn.
Páskadagurinn flytur okkur boðskap um undur og stórmerki: Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn, og allt í einu stöndum við frammi fyrir veruleika sem setur allt í nýtt samhengi og segir okkur að möguleikarnir í lífinu séu miklu fleiri og dýpri en okkur hafi nokkru sinni órað fyrir. Fram til þessa má segja að við höfum einungis komist í snertingu við það sem er hið ytra; að við höfum sjaldnast náð dýpra en að gára yfirborðið, ef svo má að orðið komast. Á páskum stöndum við hins vegar frammi fyrir leyndardómi lífsins í öllu sínu veldi og við skynjum betur en áður að undir niðri er að finna strauma og krafta sem fá okkur til að skilja, að ekki er allt sem sýnist og að allt er mögulegt í lífinu, því dauðinn er uppsvelgdur í sigur; dauði, hvar er sigur þinn; dauði, hvar er broddur þinn. Já, Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottinn vorn Jesúm Krists. Amen!
Tilfinning fyrir lífinu sem leyndardómi Það gerðist vestur í henni Ameríku árið 1930, að einn af helstu leiðtogum Gyðinga í stórborginni New York, Herbert Goldstein að nafni, sendi Albert Einstein áríðandi símskeyti. Og í skeytinu stóð einfaldlega: Trúir þú á Guð? – stop. Í skeytinu sagði svo til viðbótar, að búið væri að greiða fyrir 50 orða langt svarskeyti frá Einstein. Tilefni þessa símskeytis var að Einstein hafði tjáð sig um trúarleg efni með frekar vafasömum hætti að mati Goldsteins sem og fleiri gyðinga, og því vildi hann fá afdráttarlaust svar frá hinum virta vísindamanni og gáfumenni og það sem allra fyrst. En hvað var það sem Einstein hafði eiginlega sagt? Hvernig hafði hann tjáð sig um guðdóminn og hið trúarlega? Það sem Einstein hafði fært í orð, og hafði kallað fram þessi skörulegu viðbrögð framámanna gyðingasamfélagsins, var að hann hafði einfaldlega sagt, að “fallegasta tilfinningin sem hægt væri að upplifa væri tilfinningin fyrir lífinu sem leyndardómi.” Hann hafði m.ö.o. sagt að heimurinn væri “mysterious.” Og Einstein hafði svo bætt við: “Sú tilfinning að lífið sé leyndardómsfullt er sú tilfinning sem liggur öllum vísindum og allri sannri list til grundvallar. Sá sem er þessari tilfinningu ókunnugur; sá sem ekki kann að undrast og aldrei finnur sig uppnuminn í hrifningu, er svo gott sem dauður og eins og útbrunnið kerti. Að komast í snertingu við þá tilfinningu, að á bak við allt sem hægt sé að reyna búi fegurð og dásemd, sem hugur okkur getur með engu móti skilið nema óbeint, það er að upplifa sanna trúartilfinningu. Í þessu skilningi – og í þessum skilningi einum – er ég innilega trúaður maður.” Þetta var sem sagt það sem Einstein hafði látið frá sér fara og hafði orðið þess valdandi að Gyðingurinn Goldstein vildi fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll, hvort hann væri sannur Gyðingur eða ekki. Nú er þess að geta, áður en lengra verður haldið í umfjöllun um lífið sem leyndardóm, að leyndardómur er ekki það sama og ráðgáta. Ráðgátur eru yfirleitt þeirrar náttúru að jafnan er hægt að finna svarið við þeim, og þá með alveg óyggjandi hætti. Við verðum oft vitni að ráðningu þeirra, eins og t.d. þegar við á síðkvöldum fylgjumst með þeim Taggart, Barnaby og inspector Lewis, og hvað þeir nú allir heita þessir vinalegu rannsóknarlögreglumenn sem gera sig heimakomna í hýbýlum okkar um helgar. Ef þessir heimilisvinir okkar stæðu hins vegar frammi fyrir lífinu sem leyndardómi, þá er hætt við að öll þeirra kunnátta og skarpskyggni, að ekki sé minnst á allt þeirra innsæi, kæmi fyrir lítið, því leyndardóm lífsins leysir enginn í eitt skipti fyrir öll – ekki einu sinni snillingurinn Einstein, sem í svarskeyti sínu til Goldsteins sagðist hneigjast til trúar á guð, sem birtist í samhljómi alls þess sem til er. Hins vegar sagðist hann ekki trúa á þann Guð, sem lætur sig varða athafnir og örlög mannanna, og þar með varð það ljóst, að trúarskoðanir Einsteins, með áherslu á lífið sem leyndardóm og samhljóm, féllu ekki allskostar að trúarskoðunum gyðingasamfélagsins í New York.
Helvíti er hinir Við mennirnir lítum ekki alltaf alveg eins á hlutina, og meira að segja við sem kristin erum, getum haft alveg einstaklega ólík sjónarmið til þeirra - og þá líka til hins trúarlega – og þar er afstaða okkar til upprisunnar ekki undanskilin, því á meðan sum okkar leggja áherslu á upprisuna sem raunverulegan sögulegan atburð, þá eru önnur sem vilja einkum draga fram hið andlega og táknræna í því sambandi. Þessi ólíka afstaða okkar til trúarinnar og lífsins minnir okkur hins vegar á það, að það er ekki bara heimurinn sem er leyndardómsfullur, heldur erum við mennirnir það líka, og ég man eftir bók, sem eitt sinn kom út á íslensku og bar heitið: “Maðurinn er mesta undrið.” Og það er sannarlega mikið til í því, því oft og tíðum undrumst við þau sem við mætum á lífsleiðinni, og ekki bara þau því oft undrumst við líka okkur sjálf og botnum satt að segja stundum ekkert í okkur sjálfum. Í einu leikrita sinna lætur rithöfundurinn franski og heimspekingurinn, Jean Paul Sartre, þá skilgreiningu falla, að helvíti sé annað fólk – “helvíti er hinir,” segir hann - og þessi skilgreining tilvistarspekingsins býr satt að segja að nokkru innsæi, því stundum finnst okkur eins og þau, sem ekki eru á sama máli og við sjálf, vera hreint helvíti, og í stað þess að elska hvert annað, eins og trúin býður okkur að gera, þá hættir okkur til að falla í þá gryfju að hlutgera hvert annað. Í einni senu sem Jean Paul Sartre dró eitt sinn upp, lýsir hann manni, sem bíður einsamall á biðstofu hjá tannlækni. Maðurinn, sem finnur bæði fyrir leiða og óróleika, skimar um biðstofuna, þar sem bæði er að finna ódýrar eftirprentanir á veggjum og margþvæld tímarit á borðum. En svo breytist allt, því inn kemur annar sjúklingur á leið til tannlæknisins. Sá sest á móti þeim sem fyrir er, og til að byrja með gera þeir allt sem í þeirra valdi stendur til að komast hjá því að horfa hvor á annan. Þeir láta sem sagt eins og þeir sjái ekki hvorn annan, sannfærðir um að frekari samskipti muni einungis leiða til vandræða. Svo kemur hins vegar að því, að augu þeirra mætast, og þá hefst einvígi upp á líf og dauða, þangað til annar gefur sig og lítur undan, eða þannig vildi tilvistarspekingurinn franski a.m.k. setja þessi samskipti upp. Boðskapurinn var sá, að annað hvort værir þú – sem ert andspænis mér – hlutur í mínu lífi, eða þá að ég – sem er andspænis þér - væri hlutur í þínu lífi. Samskiptamöguleikarnir, sem þarna voru uppteiknaðir, voru því einungis tveir: Sigur eða ósigur; drottnun eða undirgefni og þannig eigum við það til að hlutgera hvert annað.
Viska ástarinnar Möguleikarnir eru hins vegar ekki bara þessir tveir eins og fransk-litháíski gyðingurinn Emmanúel Levinas, sem einnig kenndi í París, benti síðar á. Levínas, sem uppi var á síðustu öld, var virtur kennari og heimspekingur, og hann var ekki eins svartsýnn á getu mannsins eins og tilvistarspekingurinn Sartre, en Levínas skilgreindi heimspeki ekki sem “ást á viskunni” eða “ást á spekinni,” eins og viska og speki væru einhverskonar fyrirfram skilgreindur hlutlægur veruleiki sem hægt væri að bera elsku til, heldur skilgreindi hann heimspekina sem “visku ástarinnar.” Þannig snéri Levínas orsakasamhenginu við og ástin og kærleikurinn voru eins og gerð að grundvelli og útgangspunkti heimspekinnar en ekki að viðfangi hennar. Sönn ást – og sú viska sem sprettur af henni - hlutgerir nefnilega ekki einn eða neinn, heldur opnar hún ávallt nýjar leiðir þar sem öll samskipti hætta að snúast um sigur eða ósigur, drottnun eða undirgefni. Og þetta gildir ekki bara um það hvernig við mannfólkið umgöngumst hvert annað, heldur hefur þetta einnig með það að gera hvernig við nálgumst trú og trúarbrögð, heimspeki og hugmyndafræði, því það er ekkert fengið með því að stilla ávallt upp til einhverskonar andlegrar eða vitsmunalegrar störukeppni – ef ég má leyfa mér að komast þannig að orði - ef afleiðingarnar eru þær að ást, kærleika og virðingu er varpað fyrir róða.
Bankafulltrúar Sameinuðu þjóðanna Bandaríski kirkjusagnfræðingurinn og rithöfundurinn Díana Butler Bass, sem ég fjallaði lítillega um í prédikun fyrir skemmstu, og birti á vefnum tru.is, segir frá því þegar hún undir lok föstunnar árið 2011 kom inn í bankann sinn í Virginíufylki í Bandaríkjunum. Þrjár konur voru við afgreiðslu. Ein þeirra var með slæðu vafða um höfuðið að hætti múslima-kvenna, önnur var með rauðan depil á miðju enni að hætti hindúa, og sú þriðja, sem greinilega var suður-amerísk að uppruna, var með lítinn róðukross hangandi um hálsinn. Díana gekk að afgreiðsluborðinu og sagði hlægjandi við þær: “Þið lítið nú bara út eins og einhverjir bankafulltrúar Sameinuðu þjóðanna.” “Það segirðu satt,” sagði ein kvennanna, “en þú ættir hins vegar að sjá hversu fjölbreyttir viðskiptavinir okkar eru, en við þrjár ráðum vel við starfið hér í bankanum vegna þess hversu mörg tungumál við tölum. Það var rólegt að gera þennan morgun þannig að konurnar tóku að spjalla saman. Díana nefndi að hún hefði tekið upp þann sið á föstunni ásamt fjölskyldu sinni að borða einungis grænmetisfæði, og áður en hún vissi af var sú með rauða depilinn farin að gefa henni uppskriftir að gómsætum indverskum réttum á meðan sú með slæðuna vildi fá að vita meira um föstuhald kristinna manna. Díana sagði þeim frá því hvernig hún og fjölskylda hennar töluðu jafnan sín á milli um kirkjuna á Indlandi þegar þau borðuðu indverskan mat og bæðu fyrir starfi hennar, og það sama gilti líka þegar fjölskyldan borðaði kínverskan mat eða tælenskan, suður-amerískan eða afrikanskan.” “En hvað það er frábær hugmynd,“ sagði konan með slæðuna. “Við eigum nefnilega hvert og eitt að bera virðingu fyrir trúararfi okkar og vera trú þeim guði sem við leggjum traust okkar á.” Við verðum líka að vera fær um að bera virðingu fyrir trúararfi annarra,” sagði þá indverska konan, “því einungis þannig getum við stuðlað að skilningi og friði á milli þjóða.” Og svona héldu þær áfram að tala saman og lögðu áherslu á hversu mikilvægt það væri að búa þar sem trúfrelsi væri ríkjandi og hver og einn gæti iðkað trú sína í friði. Díana leit á úrið sitt. Hún var búin að fá afgreiðslu og bjó sig undir að kveðja. Að síðustu sagði hún við þær: “Ég myndi óska ykkur gleðilegra páska, en þar sem við erum ekki allar sömu trúar þá óska ég ykkur friðar. Og konurnar í bankanum tóku undir kveðju hennar með því að óska henni gleðilegra páska. Þegar hún var farin út úr bankanum og komin að bílnum sínum, þá sagðist hún fyrst hafa tekið eftir því að hún var grátandi. Einungis örsjaldan áður sagðist hún hafa upplifað svona algjörlega mátt hins krossfesta og upprisna Krists í sálu sinni, og henni fannst þetta vera eitt merki þess að vakning væri að eiga sér stað; trúarvakning sem stuðlar að umburðarlyndi, skilningi og gagnkvæmri virðingu á milli einstaklinga og þjóða, trúarbragða og trúarhópa.
Upprisukraftur Þessi stutta frásögn úr bankanum hennar Díönu Butler Bass, í Virginíufylki í Bandaríkjunum, lætur kannski ekki mikið yfir sér - og e.t.v. kann einhverjum að finnast hún fela í sér full mikla tilfinningasemi en þó svo kunni að vera þá finnst mér þessi saga vel til þess fallin, að minna okkur á, að upprisukraft Guðs getur verið víða að finna, þó við tökum kannski ekki alltaf eftir honum. Í tengslum við kraft upprisunnar megum við svo líka vera vakandi fyrir því, að rétt eins og við trúum því að kraftur Guðs birtist okkur á hverju vori í því að náttúran kviknar aftur til lífs, þá birtist máttur hans ekki síður í hverju því miskunnarverki sem unnið er, sem og sérhverri þeirri iðran og fyrirgefningu, sem kemur því til leiðar, að hægt er að takast á við lífið með endurnýjuðum hætti. Sömuleiðis er auðvelt að gera sér í hugarlund, að upprisukraftinn sé að finna í sérhverri elsku og sérhverjum kærleika, sem hlutgerir hvorki menn né málefni en finnur ávalt leiðir til að brjóta upp hlekki, rífa niður múra og endurnýja samskiptamunstur. Og máttur Guðs og leyndardómur birtist okkur svo á páskum sem aldrei fyrr, því þá komumst við í snertingu við þá tilfinningu, að á bak við allt sem hægt er að reyna búi kraftur og kærleikur, fegurð og dásemd, sem hugur okkur getur með engu móti skilið - nema óbeint. Amen! Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen!
Textar: Lexía: Jes 25.6-9; Pistill: 1Kor 15.1-8a; Guðspjall: Matt 28.1-8
Flutt á páskadag 2013 í Hallgrímskirkju í Saurbæ og í Akraneskirkju.