Guð elskar Úganda

Guð elskar Úganda

Trúboði evangelista um allan heim, eins og við höfum nýlega orðið vitni að frá Franklin Graham, fylgir íhaldssemi í siðferðisefnum sem fordæmir kynlíf fyrir hjónaband, hjónaskilnaði og samkynhneigð. Bandarískir evangelistar eru í dag með beinum hætti að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnvalda um réttindi hinsegin fólks í Afríku.

Guð elskar Úganda God-Loves-Uganda1__130830023929-275x302Réttindabarátta samkynhneigðra rekur upphaf sitt til Stone Wall óeirðanna í San-Francisco 28. júní 1969 og er ávöxtur þeirrar miklu mannréttindavakningar sem varð í kjölfar réttindabaráttu svartra á 6. og 7. áratugnum og mótmælum gegn stríðsrekstri bandaríkjanna í Víetnam stríðinu. Réttindabaráttan var studd af frjálslyndum kirkjum og trúarleiðtogar á borð við Dr. Martin Luther King voru í fararbroddi hreyfingarinnar sem breiddist út um allan heim. Ávöxtur hennar eru meðal annars Samtökin ‘78 sem hefur náð ótrúlegum árangri hérlendis við að minnka fordóma og jafna réttindastöðu hinsegin fólks á Íslandi. Martin Luther King tjáði sig hvergi opinberlega um samkynhneigð en ekkja hans, Coretta Scott King, var ötull talsmaður hinsegin fólks eftir andlát hans og einn af nánustu ráðgjöfum King var opinberlega samkynhneigður (Bayard Rustin), sem var óalgengt á þeim tíma.

Bandaríkin hafa verið leiðandi í réttindabaráttu hinsegin fólks frá Stone Wall óeirðunum en vaxandi bókstafshyggja og aukin pólitísk umsvif íhaldsamra kirkna hefur leitt af sér bakslag í þeirri baráttu. Andstæðingar réttinda samkynhneigðra í Bandaríkjunum eru flestir tengdir kristnum íhaldsöflum og réttindi samkynhneigðra eru orðin eitt mesta hitamál bandarískra stjórnmála, á sama hátt og þrælahald og kynþáttahyggja var á árum áður. Trúboði evangelista um allan heim, eins og við höfum nýlega orðið vitni að frá Franklin Graham, fylgir íhaldssemi í siðferðisefnum sem fordæmir kynlíf fyrir hjónaband, hjónaskilnaði og samkynhneigð. Bandarískir evangelistar eru í dag með beinum hætti að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnvalda um réttindi hinsegin fólks, í Bandaríkjunum og á þeim svæðum þar sem Bandaríkjamenn hafa ítök, þar með talið Afríku. Fordæming samkynhneigðar er réttlætt í Jesú nafni og því skiptir afstaða Jesú til samkynhneigðar máli.

Í guðspjalli dagsins leitar rómverskur hundraðshöfðingi til Jesú með þá bón að lækna svein sinn, sem ,,liggur heima lami, mjög þungt haldinn.” Frásögn þessi hefur verið nokkuð þekkt af fylgjendum Jesú en útgáfu af henni er að finna í Lúkasarguðspjalli (Lk 7.1-10) og svipaða sögu í Jóhannesarguðspjalli (Jh 4.46-54). Sú atburðarás sem hér er lýst lýsir mikilli væntumþykju af hálfu hundraðshöfðingjans til þess sveins sem um ræðir en stöðu sinnar vegna er hann að taka nokkra áhættu með því að leita til gyðinglegs trúarleiðtoga og gefa sig honum á vald með þeim hætti sem orðaður er.

Sveinninn er á grísku pais og hefur það litla orð ollið miklum umræðum meðal fræðimanna á sviði Nýja testamentisins. Í stuttu máli koma til greina þrjár þýðingar á orðinu: Pais getur þýtt sonur, þræll eða elskhugi en það er þriðja skilgreiningin sem vekur áhuga okkar. Í merkingunni elskhugi merkir pais þann sem karlmaður á í átarsambandi við en slík samkynhneigð sambönd voru algeng í grísku og rómversku samhengi. Í hinu forna samhengi voru slík sambönd viðurkennd og opinber en þó ekki fyllilega sambærileg samkynhneigð að nútímaskilningi því þau voru ekki jafningjasambönd, þó þau hafi verið stunduð af samkynhneigðum karlmönnum.

Í Grikklandi til forna tíðkaðist pederastía meðal efri stétta þar sem ungir karlmenn voru opinberir elskhugar eldri manna. Þessir eldri menn voru þá af sömu stétt og elskhugar þeirra og gegndu hlutverki sem kennarar þeirra í samhengi heimspeki eða hernaðar. Á tímum Rómverja hafði siðferðismat breyst frá því sem Grikkir héldu á lofti að því leiti að elskhugar manna máttu ekki vera af sömu stétt og það var álitið meira við hæfi að taka sér karlkyns elskhuga sem var útlendingur eða af lægri stétt. Þessi sambönd voru með samþykki beggja þó ekki hafi verið um jafningjasamband að ræða, sem sést af því að það þótti dauðasök fyrir hermann að nauðga karlmanni þó hann væri af hernumdri þjóð (1).

Þessi notkun á orðinu pais í merkunni ástmögur var almenn vitneskja á ritunartíma Biblíunnar en hún hefur aldrei komið til greina við biblíuþýðingar og er ekki að finna í eldri grískum orðabókum, sem endurspeglar fordóma í garð umræðuefnisins. Nýleg grein í einu þekktasta fagriti á sviði nýjatestamentisfræði leiðir að því líkum að í samhengi Matteusarguðspjalls sé þetta eina mögulega merking orðsins en það er áhugavert að hin guðspjöllin fara ólíkar leiðir í að draga úr tvíræðni hugtaksins, þau halda pais en Jóhannesarguðspjall bætir við sonur og Lúkasarguðspjall þræll til að taka burt hinn kynferðislega undirtón (2).

Auk þess að biðja um lækningu fyrir ástmann sinn er jafnframt áhugaverð sú valdsmynd sem birtist í textanum. Hundraðshöfðinginn, sem stendur ofarlega í stigveldi hersins, undirstrikar undirgefni við Jesú þegar hann dregur úr boði hans um að koma með honum. ,,Drottinn, ég er ekki verður þess að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Ger þetta, og hann gerir það.“

Hin hefðbundna túlkun á þessum texta er sú að með samskiptum þeirra sé verið að sýna fram á að Jesús sé efstur í valdstigum, bæði hins veraldlega valds (Rómarveldis) og hins andlega valds (yfir þeim sjúkdómsöndum sem herja á hinn sjúka). Sú túlkun tekur hinsvegar ekki tillit til þess með hvaða hætti Jesús hafnar valdstigum, bæði veraldlegum og andlegum, í Matteusarguðspjalli. Í beinu framhaldi af þessari sögu hafnar hann því að vera hluti af valdstigum illra anda (Mt 12.24), trúarbrögðum samtímans eða Rómarveldis (Mt. 15-22). Hundraðshöfðinginn nálgast Jesú með augum valdsins og gefur sig honum á vald en Jesús mætir honum af elsku og veitir honum það sem hjarta hans þráir fyrir elskhuga sinn. Það sem liggur að baki staðhæfingu hans ,,þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael” er gagnrýni á þá sem segjast hafa siðferðilega yfirburði yfir öðrum og valda meiri skaða en gagni með verkum sínum. Sagan verður ögrandi vegna þess að það þótti óhugsandi í augum gyðinga að Guð gæti blessað karlmenn sem stunda saman kynlíf og hún kallast á við loforð Jesú um að vændiskonur og skækjur, erfa guðsríkið á undan hræsnurunum.

Það er ekki hægt að draga af þessari sögu beina ályktun um afstöðu Jesú til samkynhneigðar en hún er þó vonarglæta í baráttunni við þá hópa sem taka sér vald til að fordæma aðra á grundvelli kynhneigðar í hans nafni. Ólíkt gyðinglegum trúbræðrum sínum og fylgjendum fordæmir Jesús ekki þá kynhegðun sem hundraðhöfðinginn aðhyllist, heldur lyftir honum upp sem fyrirmynd trúar og gerir enga tilraun til að fordæma ást hans. Þá er sagan áminning um þá ábyrgð sem fylgir því að taka sér vald í lífi fólks og sú afstaða Jesú að standa utan við og verja ekki ofbeldisfullt valdskipulag má yfirfæra sem ádeilu á nútíma trúboð bókstafshyggjumanna. Það trúboð fer fram með valdi í nafni Jesú og gerir mikið gagn í formi aðstoðar og uppbyggingar en kyndir jafnframt undir fordóma og ofsóknir á hendur hinsegin fólki, sem nú birtist í skelfilegri mynd í löndum Afríku.

Afstaða Afríkuríkja til samkynhneigðar er jafn fjölbreytt og álfan er stór en þegar litið er yfir sviðið verður ljós sú þróun sem er að eiga sér stað í átt til ofsókna og útskúfunar þeirra sem ekki falla inn í hina gangkynhneigðu staðalmynd. Samkynhneigð er bönnuð með lögum í 38 löndum Afríku og af þeim eiga samkynhneigðir yfir höfði sér dauðarefsingu í Máretaníu, Súdan og Nígeríu og lífstíðar fangelsi í Tansaníu, Síerra Leóne og nú síðast í Úganda (3). Í Nígeríu eru lög um dauðarefsingar í gildi í þeim héruðum þar sem múslímsk Sharía lög eru lögð til grundvallar en forseti landsins, Goodluck Jonathan, samþykkti í þessum mánuði löggjöf (4) sem nær til allra héraða Nígeríu. Þau lög hóta 14 ára fangelsisvist fyrir að eiga í samkynhneigðu ástarsambandi sem og fangelsisvist fyrir að hylma yfir með hinsegin fólki. Forsetinn, sem er kristinn, réttlætti löggjöfina opinberlega með vísun í trúararfleifð landsins en um helmingur íbúa eru múslimar og helmingur kristinn (5).

Í Úganda var lagt fram í þinginu frumvarp um dauðarefsingar við samkynhneigð 2009 og frumvarpið var samþykkt með breytingum þann 20. desember síðastliðinn. Í núverandi mynd er refsingin milduð í lífstíðarfangelsi fyrir að vera opinberlega samkynhneigður og það gert refsivert að hylma yfir með LGBT fólki. Forseti landsins, Yoweri Museveni, neitaði í síðustu viku að staðfesta löggjöfina vegna þrýstings frá alþjóðasamfélaginu en náist nægilegur meirihluti í þinginu þarf ekki samþykki forsetans til að lögin taki gildi (6). Ofsóknir á hendur hinsegin fólki hefur náð nýjum hæðum í landinu, dagblöð hafa birt myndir af samkynhneigðu fólki og hvatt til ofsókna á hendur þeim og ofbeldi í garð þeirra fer stigvaxandi (7). Löggjafir þessara Afríkjuríkja um dauðarefsingar og fangelsisvistun fyrir það að hylma yfir með samkynhneigðum vekja óneitanlega upp hugrenningatengsl við framgöngu nasista í garð samkynhneigðra á árum seinni-heimstyrjaldarinnar.

Nýleg heimildamynd God Loves Uganda eða Guð elskar Úganda, greinir með sláandi hætti frá því hvernig amerískir evangelistar hafa með beinum hætti ýtt undir fordóma í garð samkynhneigðra í landinu. Myndin, sem hefur sópað að sér verðlaunum á kvikmyndahátíðum haustins, veitir innsýn í hugarheim bókstafhyggjumanna sem sjá Úganda sem fremstu víglínu í baráttu Guðs gegn samkynhneigðum og afleiðingar þess. Baráttu sem óðum er að þeirra mati að tapast í bandaríkjunum þar sem réttindabarátta hinsegin fólks veitir þeim öflugt viðnám. Í myndinni eru sýnd myndskot frá trúarsamkomum þar sem ýtt er undir hatur gegn hinsegin fólki en jafnframt tekin viðtöl við baráttumann fyrir réttindum samkynhneigðra, sem var myrtur skömmu síðar, og við biskup Christopher Senyonjo, sem var sviptur hempu og eftirlaunum fyrir að berjast gegn fordómum í garð hinsegin fólks. Laugarneskirkja hefur sótt um leyfi til að sýna myndina í safnarheimili kirkjunnar og vonandi verður hún tekin til almennrar sýningar í kvikmyndahúsum á árinu.

Samkynhneigði hundraðshöfðinginn verður með þessum gleraugum vitnisburður um hvernig að Jesús mætti hinsegin fólki og hvatning til kristinna að fara að fordæmi hans. Jesús var með framgöngu sinni að ögra fordómum, mótmæla valdbeitingu og mæta þörfum fólks, sérstaklega þeirra sem standa á jaðrinum í samfélaginu. Það ofbeldi og sú valdbeiting sem réttlætt er í hans nafni er því í hrópandi mótsögn við erindi hans og það er skylda kirkjunnar að standa með réttindabaráttu hinsegin fólks um allan heim. Guð elskar sannarlega Úganda, eins og hann elskar allar þjóðir mannkyns, en ofbeldi og elska geta aldrei farið saman.

Að lokum er vert að hafa eftir ummæli sem ekkja Dr. King, Coretta Scott, hafði yfir þegar 30 ár voru liðin frá andláti hans. ,,Ég heyri fólk segja að ég eigi ekki að ræða um réttindi lesbía og homma og að ég eigi að halda mig við að tala um málefni kynþáttafordóma. Ég minni þau á að Martin Luther King Jr. sagði að ‘óréttlæti, hvar sem það birtist, er ógnun við réttlæti allsstaðar’. Ég skora á alla þá sem trúa á draum Martin Luther King Jr. að skapa rými við borð systra- og bræðralags fyrir hinsegin fólk.”

(1) Um þetta er t.d. fjallað í ritum Plútarkusar Moralia 202b-c og Marius 14 og Quintilíanusar Institutio oratoria 3.11.12-14. Fyrir umfjöllun um samkynhneigð á tíma Biblíunnar er bent á bók Martti Nissinen: Homoerotism in the Biblical World (1998). (2) Jennings, Theodore W. og Benny Liew, Tat-Siong: “Mistaken Identities but Model Faith: Rereading the Centurion, the Chap, and the Christ in Matthew 8:5-13” Journal of Biblical Literature 123/3 (2004), s. 467-494. (3) http://en.wikipedia.org/wiki/LGBT_rights_in_Africa (4) http://www.scribd.com/doc/74807203/Nigeria-Same-Sex-Marriage-Bill-final (5) http://www.economist.com/blogs/baobab/2014/01/nigeria (6) http://www.bbc.co.uk/news/world-africa-25775002 (7) http://edition.cnn.com/2013/12/23/world/africa/uganda-anti-gay-bill/