Keltneskt útialtari á Esjubergi

Keltneskt útialtari á Esjubergi

Inngangsorð og ljóð flutt við vígslu þess við sumarsólhvörf 3. s.d.e.tr. 20. júní 2021

Ég þakka orðin góðu sem hér hafa  verið sögð.  Og ég lýsi mikilli ánægju með að fá að taka þátt í vígslu þessa helgidóms. Nú eru nær rétt 10 ár frá því að ég kom fram með þá hugmynd að reisa útialtari/útikirkju á Esjubergi og sýndi þá jafnframt teikningu/uppdrátt að því í Power Point - myndafyrirlestri í Fólkvangi [á Kjalarnesi] sem ég nefndi, Stef í keltneskri kristni, og fluttur var í auglýstri menningardagskrá eftir Guðsþjónustu nærri Esjubergsbænum 26. júní 2011, er við dr. Gunnar Kristjánsson, þáverandi sóknarprestur og prófastur, stýrðum.  Það gleður að keltneska útialtarið, sem hér gefur glæst að líta, taki í öllum megin  dráttum mynd af þessari teikningu.   Ég þakka Guði og öllu því dugandi fólki sem komið hefur að þessu góða og mikilvæga verki og bið hann vel að launa svo sem vert er.   Hér eru viðstaddir fulltrúar ýmissa kristinna trúfélaga enda fer vel á því. Keltneska útialtarið mun verða samkirkjulegur helgidómur og helgistaður.

                                                           

Ég les nú ljóð sem birt er aftast í vígsluskránni og ég nefni einfaldlega

Keltneskt útialtari á Esjubergi   

Forðum daga komu á Kjalarnesið
kristnir landnámsmenn í trú og von.
Um þá fáum í Landnámubókinni lesið
og lært þar og fræðst um Örlyg Hrappsson


Það Kjalnesingasaga segir af honum,
af Suðureyjum lagði og Kjalarnes
fann,fylgdi glöggri forsögn, trúarsýn og
vonum, fyrirmælum Patreks er hvöttu hann


Guðshús að byggja og Kolumkilla vígja,
kirkjuvið, járnklukku og suðureyskri mold
sigla um haf í helgidóminn nýja,
og hafa í augum Kjalarness storð og fold.


Á Esjubergi byggði kirkjuna sína,
er bar svo keltneska gleði og trú með sér.
Þeir fá að vita sem fornar bækur rýna,
að fyrst var kirkna getið á landi hér.


Því er risið keltneskt útialtari
á Esjubergi að segja kirkju hans frá.
Að gerð þess stendur Steini sem þess forsvari 
og stefnt hefur einbeitt settu marki að ná.


Sögufélagið hlúir að helgum arfi,
og horfir til róta mannlífs Kjalarness,
þeirrar keltnesku kristni í lífi og starfi,
er kraft Guðs skynjar í fögru undri þess,
 
Að lífið anda dregur og dafnað getur       
af dagsins sólarloga, Guðs hlýju náð.             
sem efst á himni sólhvarfa ljóma setur         
á sumar og fyllir það lífi, gleði og dáð.


Esjubergskross í keltnesku sniði og merki.
um kærleik Frelsarans vitnar í bjartri sól
sem kjarna alheims í öllu sköpunarverki,
er umlykur sólir og hjörtu og veitir skjól.

Þrenning þar sést í trúartáknum og myndum,
sem tengja fiska, lauf og smárablöð,
er fléttast saman og bærast blítt í vindum.
Og börn úr fjöru steina týndu glöð.
 
Þeir krossinn fegra, sem steinar frá Ionaeyju
og einnig úr Lindisfarne helgum stað.
Altarið hringinn mótar í mjúka sveigju
sem myndar faðm og indælt kirkjuhlað.


Altarisvígslan veiti blessun Steina
og verðmæti færi kirkjusókn og byggð,
svo fái keltneska kristni vel að reyna,
sem kærleikann ræktar og alla sanna dyggð.


Héðan frá blessun berist landið yfir
er bregði ljósi á kristna söguþjóð,
keltneskan trúararf sem áfram lifir
og eldi glæðir hennar trú og ljóð.
Gunnþór Þ. Ingason