Ljúfi Jesús lýstu mér svo lífsins veg ég finni láttu ætíð ljósið frá þér ljóma í sálum minni.
Við þráum að þessi bænarorð Gísla á Uppsölum rætist í kvöld. Að lífsins veg ég finni og heilagt ljósið ljómi í sálu minni.
Guð gefi okkur gleðileg jól.
Við höfum undirbúið jólahátíðina á aðventunni samkvæmt traustum og rótföstum sið eins og Jesúbarnið eigi að fæðast hjá þér og mér í kvöld. Fjárhúsið orðið að heimili þínu og jatan er í hjarta þínu.
Ljósin og jólatréð, góðar gjafir og falleg veisla í samfélagi ástvina með góðgjörðum. Við leggjum okkur fram um að rækta frið, fegurð og von. „Verið óhrædd“, sögðu englarnir, „sjá ég boða yður mikinnn fögnuð. Yður er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn“. Nú fögnum við og blómgum ástina á lífinu.
Þessi einstaka saga í jólaguðspjallinu er hvort tveggja í senn svo jarðnesk og himnesk, raunsæ og vonarrík. Segir af hinu unga pari, sem var eins og lítið mannsins korn í mannhafi jarðar, og ekki þekkt af neinu, nema að komast af í samfélagi ástvina. Það breyttist allt með fæðingu barns.
Nú er það samofið í lögmáli lífsins að fæða barn og enn fæðast þau á jörðinni í fjárhúsum eða hreysum og jafnvel á víðavangi. Það finna þau sárt sem reyna, en er um leið einstök reynsla foreldra að eignast barnið sitt og elska það.
Barnið sem fæddist í fjárhúsinu í Betlehem þessa nótt fór rækilega á spjöld sögunnar. Og lengra en það. Fór alla leið í gegnum aldirnar og inn í hjörtun okkar, svo þjóðin fagnar með fallegri hátíð.
Sagan af fæðingu Jesú í Betlehem er meira en listrænt og fallegt bókmenntaverk, heldur frásögn af lífi sem vonar, treystir og elskar. Þetta er saga um mig og þig. Á æviveginum er ekkert fremur sem við þráum en að elska og treysta og njóta þess í samfélagi með ástvinum okkar.
Og við speglum okkur í sögunni, leyfum henni að ljóma í sálinni og verða hvatning til góðra verka. Að vera umvafin dýrð Drottins, finna barnið í hjarta sínu, vera eins og fjárhirðarnir á Betlehemsvöllum þar sem dýrð Drottins ljómaði í kringum þá.
Þessi saga sameinar þjóð í gefandi hátíð. Við búum í fallegu landi og við betri lífskjör og meiri frið, en flestir aðrir á jörðinni. Við eigum allt til alls af efnislegum verðmætum og meira en nóg. Á sama tima geisa stríð og sár örbirgðin víða um jörð, og flóttafólk knýr á okkar dyr og hrópar á hjálp
Við eigum í hjartanu inngróna vitund um réttlæti og kærleika. Það finnum við svo vel, þegar þjóðin speglar sig í boðskap jólanna. Víst lifum við í ófullkomnum heimi. En við þráum að byggja upp af ábyrgð til velferðar, þar sem ræktin við vonina um réttlæti er í fyrirrúmi, skipta gæðum af sanngirni, uppræta fátækt, hlúa að þeim sem eiga við þjáningu að stríða og fara vel með það sem til forsjár er falið.
En það á ekkert skylt við tilgangsleysi og bölsýni sem flæðir víða. Þarf ekki annað en að horfa í umræður á netmiðlum til vitnis um það, þar sem orðaleppar æða með níði um fólk og án þess að sjá nokkuð til farsældar. Gerist það, þegar maðurinn er að springa úr ofdekri og lýðskrumi? Engin viðmiðun eða hugsjón nema ágirndin í sjálfum sér sem hefur alltaf rétt fyrir sér, kann og getur allt best. Er þá leyfilegt að ásaka samferðafólk um öfund sína og beiskju? Tæknin með öllum sínum tækifærum til samtals og frjálsrar umræðu er dýrmæt, en gerir kröfur um ábyrgð og virðingu í samskiptum.
Er dómsýkin farin að hamla opinberri og málefnalegri umræðu í landinu, af því að fólk veigrar sér við að leggja þar gott að mörkum og gefa um leið kost á að láta rakka mannorð sitt niður með rætnum athugasemdum?
Það er mannlegt að reiðast, en vandmeðfarið af því að tilfinningarnar eru viðkvæmar. Reiðin getur sært, en réttlætir ekki hatur og persónuleg illmælgi. Nú gæti sagan í jólaguðspjallinur falið í sér viðbrögð við reiði. En þar er óttanum umbreytt í frið með mætti ástarinnar.
Keisarinn skipaði fólkinu að leggjast í erfiða för til ættborga sinna til að skrá sig í manntalið og vildi herða skattheimtuna í landinu. Ekki hefur það verið til vinsælda fallið og eflaust valdið reiði hjá mörgum. María komin að fæðingu barns, og fátækur Jósef banka á dyr hjá fólki með beiðni um húsaskjól eftir torsótt og erfitt ferðalag. Þeim var hafnað og vísað í útihúsin á meðal dýra. Víst gæti það verið tilefni til að reiðast.
En ekki ber allt upp á sama daginn í lífinu, og enginn mannsins máttur getur reiknað út hvað framtíðin ber í skauti sínu. Það hefur saga mannsins staðfest með reynslu sinni.
Reynsla aldanna staðfestir líka, að þegar guðleysið festir rætur og gegnumsýrir gildismat, þá vex ábyrgðarleysi og tómlæti fiskur um hrygg. Það var ekki að tilefnislausu, að sálmaskáldið okkar í Heydölum, sr. Einar Sigurðsson, orti í ástæla sálminum sínum „Nóttin var sú ágæt ein, í allri veröld ljósið skein, það er nú heimsins þrautarmein, að þekkja hann ei sem bæri. Með vísnasöng ég vögguna þína hræri“.
Trúin, sem kristin jól boða, er ábyrgð gagnvart Guði og náunganum þar sem virðingin fyrir manngildum er í fyrirrúmi. Trú er að rækta traust. Að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig. „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“. „Komið til mín, öll þér sem erfiðið hafið og þungar byrðar og ég mun veita þér hvíld“.
Þá ljómar dýrð Drottins allt um kring og ljósið lýsir á veginn sem við þráum að feta. Þannig boðar saga jólaguðspjallsins svo innilega vongleði.
Guð kemur svo óvænt inn í lífið, breytir erfiðum aðstæðum í sigur ástarinnar. Lítil frétt birtist nýlega í DV, og fór ekki mikið fyrir, af bandarískri móður þriggja ára gamals barns sem hafði fæðingargalla og var sagt vera afskræmt í andliti. Móðirin sagðist þola daglega athugasemdir frá fólki sem kallar son sinn ljótan og jafnvel að hann hefði aldrei átt að fæðast. En móðirin sagði: „Mér finnst hann fullkominn nákvæmlega eins og hann er. Ég gæti ekki verið stoltari af syni mínum.“ Þessi einlæga ástarjátning ómar eins og himneskur óður engils.
Það hefur líklega ekki verið neitt sérstaklega fallegt um að litast í fjárhúsinu í Betlehem. En ástin á barninu í jötunni var björt og tær.
Útlitið tjáir ekki nema brot af veruleikanum sem við blasir, hvort sem það er í mannsins svip, umhverfi aðstæðna eða málefnum líðandi stundar. Að baki er saga og líf sem enginn getur ráðið í á sjónhendingu augnabliksins, nema þekkja, þreifa, reyna.
Við hvorki dæmum eða mælum tilfinningar ástarinnar með tommustokk eða reiknivél. Það gildir um trúna líka. Að skynja líf í trú er að þekkja, þreifa, reyna, og sjá lífið í ljósi trúarinnar. Sá sem enga reynslu hefur af trú getur lítið um hana sagt og gildir það sama um kirkjuna og samfélagið í henni. Kristin trú hefur mótað menningu okkar og gildismat um aldir.
Hvaða áhirf mun það hafa á velfarnað okkar, ef afneitun á Guði verður að heilagri viðmiðun í þjóðarsálinni?
Hvað verður þá um fögnuðinn sem jólin næra? Verður gleðin þá mæld í metrum, mínútum og skoðanakönnunum? Eða verða lækin látin duga?
Ég bað fermingarbörnin mín, hvert fyrir sig, að teikna mynd af gleði. Það var svo yndislegt að fylgjast með viðbrögðum þeirra, fyrst undrandi, en svo alveg ákveðin og tóku til óspilltra málanna og fóru að teikna og vafðist ekki fyrir þeim.
Og hvaða tákn ætli að hafi risið hæst? Andlit á manneskju með mikið bros á vör, glampandi sólin, tónstafir til tákns um tónlistina og börn í margvíslegum leikjum. Svo brá fyrir mynd í horni hjá einu barninu af ungum hjónum í sitt hvorri rólunni á leikvellinum að róla. Skynjun barnanna var tjáð af áþreifanlegri reynslu þar sem fögnuður með frelsinu er samofin brosi, birtu, tónlist og frjálsum leik. Sagt hefur verið að listin sé leikur og lífið list. Mikil gleði er fólgin í að bregða sér í fallegan leik eins og þegar alvaran mikla gegnumtekur huga og hjarta til góðra verka.
Það gerum við einmitt á jólum í viðbrögðum okkar við fagnaðarerindi jólaguðspjallsins. Við bregðum okkur saman á leik í ljósinu með bros á vör með ómandi tóna sældar og friðar í hjartanu sem er um leið mikil alvara, þar sem við treystum á vonina sem ræktar ástina á lífinu með Guði.
Þá hefur bænin rætst: Ljúfi Jesús lýstu mér, svo lífsins veg ég finni, láttu ætíð ljósið frá þér, ljóma í sálum minni. Þá ljómar dýrð Drottins allt um kring og eru gleðleg jól í Jesú nafni Amen.