Hvað er handan borðsins?

Hvað er handan borðsins?

Ræðan fjallar öðrum þræði um það að við vitum fátt um framtíðina, vitum ekki einu sinni hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Hvað tekur við að loknu þessu lífi? Hverjar eru skyldur okkar við lífið? Sagan í byrjun gefur til kynna að himinninn komi okkur algjörlega á óvart. Hverjir eru þessir heilögu sem dagurinn er helgaður?
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
01. nóvember 2009
Flokkar

Hljóðupptaka er til af ræðunni á þessari vefslóð og þar er textinn einnig.

[Sagan í byrjun prédikunarinnar var endursögð blaðalaust en er að stofni til sú sama og í textanum]

Gamall maður bjó á eyjunni Krít fyrir langa löngu. Hann elskaði eyjuna sína svo mikið að þegar dauðastundin nálgaðist lét hann bera sig út og leggja á jörðina. Þegar hann var við það að gefa upp öndina krafsaði hann í jarðveginn með hendinni og tók handfylli af ættjörðinni kæru. Andartaki síðar dó hann hamingjusamur með krepptan lófann.

Hann birtist við hlið himinsins og Guð mætti honum þar í mynd hvíthærðs öldungs sem fagnaði honum. Vertu velkominn! sagði hann. Gamli maðurinn tók stefnuna á Gullna hliðið og ætlaði inn en Guð sagði við hann: Þú verður að sleppa hendinni af jarðveginum. Aldrei! sagði sá gamli. Aldrei. Guð vék þá frá dapur í bragði og skildi hann eftir fyrir utan.

Nokkrar ljósaldir liðu. Guð kom aftur í gættina en nú í gervi vinar. Þeir fengu sér í glas, sögðu sögur og spjölluðu. Loks stóð Guð upp og sagði: Jæja, vinur, nú er kominn tími til fara inn. Þeir röltu í átt að hliðinu og aftur bað Guð hann að sleppa hendinni af jarðveginum en hann neitaði.

Ljósöldum síðar kom Guð aftur og nú í mynd glaðlegrar og kátrar afastelpu. Ó, afi, sagði hún, þú ert svo yndislegur og við höfum öll saknaði þín. Komdu nú inn með mér. Gamli maðurinn kinkaði kolli og stúlkan hjálpaði honum að rísa á fætur því nú var hann orðinn verulega gamall og liðagigt hafði sest að í líkama hans. Hægri höndin var orðin svo slæm að hann varð að styðja við hana með þeirri vinstri. Þau nálguðust hliðið og þegar þau komu þar að þá voru kraftar hans á þrotum. Krepptir fingur hans gátu ekki lengur haldið utan um jarðveginn frá Krít sem rann úr greipum hans uns höndin var tóm. Hann staulaðist inn fyrir og það fyrsta sem hann sá var, ástkæra eyjan hans, Krít!

Gömul helgisögn um dauðann og lífið. Við vitum ekki hvað bíður okkar við lok þessa lífs og við vitum ekki heldur hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Við vitum í raun ekkert um framtíðina. Við getum aðeins vonað og trúað að hún færi okkur eitthvað sem við þráum eða teljum að verði.

Miklar breytingar hafa átt sér stað í lífi okkar á liðnum árum. Tækni fleygir fram og margt sem við teljum nú sjálfsagt var ekki til fyrir örfáum árum. Ég nefni t.d. farsíma, tölvur og veraldarvefinn. Þegar ég var unglingur var ekkert af þessu til og varla heldur í hugarheimi þeirra sem sömdu villtustu vísindaskáldsögur. Við vitum svo sáralítið um framtíðina. Við menntum unga fólkið og vitum varla til hvers sú menntun verður því morgundagurinn þekkjum við ekki. Ég las nýlega grein í erlendu tímariti og þar var þetta orðað eitthvað á þennan hátt: „Við undirbúum börnin fyrir störf sem eru ekki til og fyrir tækni sem er ekki enn búið að finna upp.“ Við sjáum sjaldan inn í framtíðina. Guð veit hana og hann getur gefið okkur vísbendingar og hugboð um það sem verður en það er nú ekki daglegt brauð.

Í sömu grein er fleira nefnt um litla þekkingu manna á framtíðinni. Grover Cleveland sem var forseti Bandaríkjanna undir lok 19. aldar sagði til að mynda: „Skynsamar konur og ábyrgar hafa engann áhuga á að kjósa.“ Annar forseti, Harry Truman, sagði þegar hann ávarpaði Bandaríkjaþing árið 1950 að landsframleiðslan mundi fjórfaldast á næstu 50 árum. Hún 33 faldaðist. Og þegar rokktónlistin hljómaði í ársbyrjun 1955 í Ameríku skrifaði einhver í tímaritið Variety: „Þessi bóla verður nú horfin í júní.“

En presturinn og mannréttindafrömuðurinn, Martin Luther King Jr., sagði árið 1963: „Ég á mér draum.“ Rúmum 40 árum síðar hefur draumur hans ræst hvað varðar aukna möguleika Bandaríkjamanna af afrískum uppruna til að láta til sín taka í þjóðfélaginu sem birtist einna skýrast í því að núverandi forseti landsins er blökkumaður.

Framtíðin kemur og hún færir með sér nýja tíma, tækni og tækifæri. Abraham Lincoln sagði: „Það besta við framtíðina er að hún kemur bara dag í senn.“

Dag í senn! Og því er ástæða til að segja: Góðan og blessaðan daginn! Þetta er góður dagur! Notum hann vel því við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér eða hvort við drögum ennn lífsandann að morgni. Stundum hitt ég fólk sem segir: Þú átt að jarða mig. Og þá segir ég: Já, ef ég lifi það þá skal ég reyna það en veit ekki ekki hvort ég vakna á morgun. Þannig er nú lífið.

Við erum hvött til þess í dag að vera salt, að láta um okkur muna, að bragðbæta veröldina. Heimurinn þarfnast seltu, heilnæmrar seltu. Salt er hreinsandi efni. Saltið varðveitir. Jesús tekur líkingu af þessu mikilvæga efni sem við getum ekki verið án. Svo talar hann líka um ljósið. Við eigum að vera ljós í þessum heimi. Við eigum ekki að fela ljósið. Við setjum ekki ljósið inn í skáp eða ljósakrónuna undir sófa. Nei, við setjum ljósið á áberandi stað svo að birtan nái að breiðast út.

„Þér eruð ljós heimsins“, sagði Jesús. „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“ Köllun okkar er að lýsa.

Og nú þarfnast Ísland ljóss og ljósbera. Þú ert ljósberi. Íslenska þjóðin bíður eftir að sjá ljósið þitt. Við þurfum öll að taka okkur á og lýsa miklu skærar. Kirkjan þarf að taka sig á og láta um sig muna, vera öðrum til blessunar og gleði á enn áhrifaríkari hátt en hingað til. Við erum kirkjan, ég og þú.

Við erum frátekin til þess að vera salt og ljós. Í heilagri skírn vorum við vígð því hlutverki. Við vorum tekin frá, helguð til heilags hlutverks. Í þeim skilningi erum við heilög, helguð, og eigum að vera öðrum til fyrirmyndar.

Í dag er Allra heilagra messa, dagurinn þegar við minnumst þeirra sem í aldanna rás lýstu skært og skærar en gengur og gerist með venjulegt fólk. Við skulum þakka þau sem þannig lifðu að ljósið þeirra lýsir jafnvel enn. Dýrlingar fyrri tíðar eru okkur hvatning til góðra verka. Við minnumst jafnframt látinna ástvina í dag. Við eigum öll minningar um fólk sem hafði djúp áhrif á okkur með elsku sinni og verður okkur alltaf kært þótt dauðinn skilji þau nú að frá okkur um sinn. Við þekkjum öll fólk sem lifði góðu lífi og lét okkur eftir fordæmi, góðar minningar og hvatningu til góðra verka. Við minnumst þeirra í dag. Við gerum það á eftir með hljóðri bæn og svo vil ég benda ykkur á að hægt er að tendra bænaljós í forkirkjunni að messu lokinni.

Látnir ástvinir eru horfnir frá okkur og hafa lokið sínu hlutverki hér á jörðu en við höfum tekið við kefli þeirra og erum kölluð til að vera þeim yngri fyrirmynd. Þannig heldur óslitin keðjan áfram. Við söknum þeirra sem horfin eru en við skulum treysta því að Guð geymi þau til efsta dags og um eilífð alla.

Við höfum verk að vinna. Njótum andartaksins og grípum daginn.

„Veistu hvað tekur við að þessu lífi loknu“, sagði spyrjandinn við Sigurbjörn heitinn biskup. „Nei“, sagði hann, „ég veit ekki hvað tekur við.“ Svo kom löng þögn og loks bætti hann við: „En ég veit hver tekur við.“

Kristur er hér og hann verður þar. Handan þilsins, kórveggjarins, sem er tákn um skilin á milli lífs og dauða. Kristur er hér og hann verður þar. Og þegar við göngum til altaris hér á eftir við þetta veisluborð þá eru þau sem eru í himninum handan borðsins, með okkur. Þau sem þú elskar, hugaðu um það, þau eru hér. Það er ekki svo langt á milli okkar. Við bara sjáum þau ekki nema í minningunni. Hann er hér og hann verður þar. Hann er með okkur í verki í dag og veður til staðar að verklokum.

Lærum að sleppa takinu af því sem bindur okkur og opna lófana í trausti til Guðs sem hefur allt og alla í sínum höndum.

Amen.

- – -

Lexía: 5Mós 33.1-3

Þannig blessaði guðsmaðurinn Móse Ísraelsmenn áður en hann dó: Drottinn kom frá Sínaí, hann lýsti þeim frá Seír, ljómaði frá Paranfjöllum. Hann steig fram úr flokki þúsunda heilagra, á hægri hönd honum brann eldur lögmálsins. Þú sem elskar þjóðirnar, allir þeirra heilögu eru í hendi þinni. Þeir hafa fallið þér til fóta, rísa á fætur er þú skipar.

Pistill: Opb 7.13-17

Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: „Hverjir eru þessir menn sem skrýddir eru hvítum skikkjum og hvaðan eru þeir komnir?“ Og ég sagði við hann: „Herra minn, þú veist það.“ Hann sagði við mig: „Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins. Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans og sá sem í hásætinu situr mun búa hjá þeim. Þá mun hvorki hungra né þyrsta framar og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur breyskja vinna þeim mein. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“

Guðspjall: Matt 5.13-16

Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum. Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.