Fyrirheitið

Fyrirheitið

Ég las spurningu á Facebook frá rithöfundi sem var að fara í viðtal við erlendan fjölmiðil um hamingju á Íslandi. Hann bað um tillögur. Og margir lögðu honum til hugmyndir og bentu á mikilvæg gildi og góð augnablik.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
25. mars 2009

Lagt út af Lúk 1.46-55

Kæri söfnuður.

Þetta verður öðruvísi prédikun.

Þetta ekki prédikunin sem ég ætlaði að semja og flytja fyrir ykkur. Ég ætlaði að ræða um það hvernig þungun er staðfest – því morgunlestur þessa miðvikudags – fjallar eiginlega um viðbrögð við slíku. Ég ætlaði að ræða um sms-tilkynningar og engilsbirtingar og ClearBlue-þungunarpróf og plúsa og mínusa og undrunina og börnin sem eru velkomin og þau sem eru það ekki. Og um kraftaverkið sem öll börn og allar barnsfæðingar eru. Því þannig er það og ekki bara í þetta eina tilvik þegar engillinn vitraðist Maríu og María svaraði.

Ég ætlaði að tala um þetta. Og þetta er mikilvægt. En svo gerðist tvennt.

Ég las spurningu á Facebook frá rithöfundi sem var að fara í viðtal við erlendan fjölmiðil um hamingju á Íslandi. Hann bað um tillögur. Og margir lögðu honum til hugmyndir og bentu á mikilvæg gildi og góð augnablik. Ég skrifaði:

„Er hamingjan ekki fólgin í litlu augnablikunum þegar núið og eilífðin mætast – sem geta í raun verið hvar og hvenær sem er. Í sandkassanum úti á róluvelli þar sem barnið gleymir sér við leik og foreldið hrífst með. Á kvöldin þegar góð bók er lesin fyrir litla krílið og ævintýraveröldin verður miklu meira lifandi en hjá Disney ... Þegar við gleymum okkur í augnablikinu og njótum þess að vera saman?“

Í augnablikunum sem fengu kannski ekkert tækifæri á tímum útrásar, en verða þeim mun sýnilegri í krepputíð? Í gildum sem við skiljum nú að skipta máli.

Þetta var það fyrra sem gerðist. Hið síðara – sem tengist þessu að sjálfsögðu – var að ég las morgunlesturinn einu sinni enn. Og sá í honum vídd sem fékk ekkert rými í fyrri prédikuninni. Áherslu á réttlæti og loforð um eitthvað nýtt. Það er hreyfing í textanum. Og hann talar býsna vel inn í daginn í dag.

„Drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.“ „Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upphafið smælingja.“ „Hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.“

Fyrirheitið um Messías er fyrirheiti dagsins í dag. Í dag er Boðunardagur Maríu. En fyrirheitið um Messías er líka fyrirheiti samtíðarinnar og áskorun hennar:

Hér eru smælingjar og hungraðir og hinir minnstu í brennidepli. Og þannig skal það vera. Þörfum þeirra skal sinnt. Það er áminning og áskorun föstunnar og það er vonarboðskapurinn.

Meðtökum hann og lifum eftir honum.