Velkomin til kirkju á menningardegi prófastsdæmisins. Kynning á nýútgefnu glæsiriti ,,Kirkjur í Kjalarnesprófastsdæmi” er meginefni dagsins og saga kirknanna og kirkugripir þeirra. Þessi Guðsþjónusta hófst með helgistund hjá minnismerkinu við Hágranda í gotneskum steinboga um þýsku kirkjuna lútersku, sem Hansakaupmenn reistu 1533, átján árum áður en siðbreyting Lúters var viðtekin á Íslandi. Sem farvegur siðbreytingarinnar er þýska kirkjan frummynd þessarar kirkju enda nefnd Hafnarfarðarkirkja. Því er við hæfi að halda íslenska - þýska messu á þessum menningardegi, sem vísar sérstaklega til liðinnar kirkjusögu.
Þýsku Hansakaupmennirnir voru augljóst tákn um breytta og bætta tíma frá fyrri einangrun og stopulum skipaferðum frá Noregi og Danmörku eftir sjálfstæðismissi og Þjóðveldisöld, þegar Íslendingar réðu yfir eigin skipakosti. Gleðileg og tilkomumikil sjón hefur það verið að vori að fylgjast með þýska flotnum stefna inn Fjörðinn, vörum hlaðinn, á þrímöstruðum skonortum, seglum þöndum, að Hvaleyrartjörn og Háagranda. Hafnarfjörður varð fyrir tilstilli þýska verslunarflotans stærsta verslunarhöfn landsins á þessum tíma, vegna þess hve greiðfær höfnin var og skjólgóð fyrir hin stóru skip. Með kaupmönnnum þýsku bárust tíðindin miklu um umskipti í kirkjumálum í Þýskalandi. Þar var boðað aukið frelsi í trúmálum og trúin á frelsarann gerð persónulegri en fyrr og óháðari ytra valdi og forsjá. Marteinn Lúter hafði þýtt ritningarnar, opnað heim Biblíunnar fyrir þýskri alþýðu, gert fagnaðarerindið ljósara en áður og dregið fram kjarna þess í náð og elsku Guðs, sem væri æðri öllu þvingandi lögmáli. Lúter hafði líka fært trúnni glaðan söng, svo að dægurlög og alþýðusöngvar voru nú farvegir lofgjörðar til Guðs og hjálpræðisorða hans á móðurmáli. Þessi boðskapur glæddi líka frelsi til framtaks og viðskipta, og skapandi drifkraft til að taka mál í eigin hendur og nýta útsjónarsemi og hæfileika og auka samskipti og viðskipti milli manna og þjóða. Lúter lagði áherslu á almennan prestdóm, sem merkir það einfaldlega, að hvert starfssvið og verk er þýðingarmikið sem þjónusta við Guð og menn, sjósókn og verslun jafnt og þjónusta prestsins við altarið þótt dýrmæt sé. En Guðsþjónustan, túlkuð sem þjónusta Guðs við menn, var ekki síður mikilvæg. Hún var forsenda alls annars. Hún gaf stefnuna fram, orku og kraft til gagnlegra verka. Því var þýska kirkjan byggð hér í Hafnarirði, að hún skyldi vera vettvangur orða hans og nándar í helgum sakramentum. Sjálf var kirkjan vönduð smíð úr eikarkjörviði og með koparþaki og hefur sett mikinn svip á umhverfi sitt, og verið sem kjarni og hornsteinn hinna þýsku umsvifa í Hafnarfirði meðan þau vörðu. Þessi síðari tíma Hafnarfjarðarkirkja, sem reist var hér undri Hamri við höfn 1914, setur líka mikinn svip á umhverfi sitt og mun enn teljast kjarni fagurrar bæjamyndar Hafnarfjarðar. Hafnarfjarðarkirkja tók við af Garðakirkju sem sóknakirkja og helstu munir Garðakirkju bárust þessari kirkju, altari, altaristafla, skírnarfontur og prédikunarstóll, ljóskrónan, sem nú er hér í miðri kirkjuhvelfingunni og silfurljósastikurnar fögru á altarinu og fleiri altarisgripir og verðmæti. Þýskt Walcker- orgel kirkjunnar, sem þótti afar hljómfagurt, var vígt 1955 en tekið niður á fyrra ári enda úr sér gengið. Þýskir orgelsmiðir setja nú saman nýtt 25 raddda orgel í rómantískum stíl á söngloftinu: Það er byggt í verkstæði Christan Schefflers í Sieversdorf við Frankfurt/ Oder. Það líkir eftir frábærum orgelum í rómantískum stíl, sem hinn virti þýski orgelsmiður Wihelm Sauer smíðaði í byrjun fyrri aldar.
Og strax á næsta ári er stefnt að því að reisa, hér í kirkjuskipinu, 11 radda þýskt orgel í barrokk stíl. Þessi Kirkja mun því enn votta fagurlega hin löngu og góðu samskipti sem Þjóðverjar hafa löngum átt við okkur Hafnfirðinga. Það mun nú taka aðeins um þrjár klukkustundir að fljúga yfir höf á milli Íslands og meginlands Evrópu, og samskipti til umheimsins eru hröð og greið í tæknivæddu samfélagi og mjög ólík því sem var fyrr á öldum. Hér gætir áhrifa úr öllum áttum og mannlífs- og menningarstrauma austurs og vesturs, sem móta og samlagast íslensku þjóðlífi, líka núna þegar að kreppir, þótt fjárstreymið hafi verulega minnkað. Áhrif frá Íslandi berast líka víða og voru umsvifamikil í fjármálaumsýslu á meginlandinu síðustu árin, svo mjög reyndar að furðu vakti. Alþjóðleg fjármálakreppa og lánsfjárskortur hafa nú komið hart niður á þeim viðskiptum og steypt fjármálafyrirtækjum og rýrt gjaldeyri og hlutabréf og leitt til mikillar óvissu og ótta um ytri hag þjóðarinnar í nánustu framtíð. Kreppan gefur þó jafnframt tækifæri til til að endurmeta verðmæti og breyta áherslum og gildum, móta nýja viðskiptahætti og glæða félaglegt réttlæti, ábyrgðarkennd og elsku í kristnum anda, en til þess má hvorki reiði vegna áfallanna, heift né hatur, móta samskipti, viðhorf og verk. En það er vandasamt og reynir á skapstyrk og dómgreind. Orð postulans í pistli dagsins tala mjög inn í þessar aðstæður, þegar hann segir: ,,Og þess bið ég að elska ykkar aukist enn þá meir að þekkingu og dómgreind, svo að þið getið metið þá hluti rétt, sem máli skipta, og verið auðug að þeim réttlætisavexti, sem Jesús Kristur kemur til leiðar.” Og lexían úr Gamla testamentinu er líka áhrifarík. Hún lýsir fyrirgefningu og sáttum milli Jósefs og bræðra hans, sem fyrr höfðu nýðst á honum, en hann sýndi þeim göfuglyndi í neyð þeirra. Frásaga Guðspjallsins er líka nærtæk þótt hún sé dregin stórum og grófum dráttum. Friður, samlyndi og sáttargjörð eru enda, sé rétt horft, stefnumið kristins samfélags og lífshátta. Kjarni fagnaðarerindis Jesú Krists kemur fram í tilboði hans og kröfu um fyrirgefningu og sættir, sem hann staðfestir með krossfórn sinni. Hann heldur því fram og sýnir glöggt, að nauðsynlegt sé að fyrirgefa, vegna þess að Guð er við því búinn að fyrirgefa líkt og konungurinn í dæmisögunni, bæta brot og bresti, lækna djúpu sálarsárin öll, með þeim skilmálum þó að menn fyrirgefi sjálfir. En ekki er auðvelt að fyrirgefa. Það lærist vist seint, því að hefndin er sætt og knýjandi, en hún eykur aðeins harm og dýpkar sár. En kunnum við listina að fyrirgefa og berum við í trú sár og tjón fram fyrir lifanda Guð, svo að hann geti létt undir með okkur?, og þegar við andmælum órétti, felum við honum þá endanlegan framgang réttlætisins? Og gerumst við þeir friðflytjendur, sem í sannleika kallast eftir orðum frelsarans Guðs börn?
Þjóðverjar hafa orðið að horfast í augu við sögu sína og fortíð, líka eftir fall Berlínarmúrsins og endurmetið verðmæti og lífshætti. Dýrmætur tónlistararfur þeirra og glæst orgelsmíði eru sígild verðmæti, sem við fáum hér notið. Ríkisrekinn kommúnismi féll með múrnum, og gráðug auðhyggjan hefur nú orðið fyrir áfalli, sem afhjúpar siðblindu hennar og miskunnarleysi. Hvað tekur við? Endurgerð þess sem var? eða róttækari umbreyting sem virðir lífríki og manngildi og byggir upp betri og ábyrgari viðskipti og samfélög? Til þess þarf elskan vissulega að aukast, þekking og dómgreind og mannlíf að auðgast af réttlætisávöxtum lifandi trúar á Guð í Jesú nafni, friðarviðleitni og sáttarvilja. Þýðingarmikið er að þekkja liðna sögu og geta lært af henni, ekki síst að skynja og meta trúararf ogt verðmæti, sem fela í sér blessun Guðs á ferð mannlífs og kynslóða í hverfulum tímans heimi. Menningardagur sem þessi miðar að því.
Kirkjur Kjalarnessprófastsdæmis setja mikinn svip á umhverfi sitt svo sem kirkjur jafnan gera og saga þeirra tengist lífi safnaða þeirra í blíðu og stríðu. Hafnarfjarðakirkja á sér merka sögu og dýrmæta muni, sem votta umhyggju sóknarbarna hennar lífs og liðinna fyrir henni. Þýska kirkjan, sem Hansakaupmenn reistu og nefndist Hafnarfjarðarkirkja, færði með ser nýja strauma trúar og viðskipta hingað til lands. Þeirra gætir enn. Við syngjum hér kröftuga Lúterssálma. Og þótt við metum mikils samkirkjulegt starf í Þjóðkirkju Íslands, þá móta áherslur siðbreytingarinnar um frelsandi náð Guðs og elsku fyrir trú, lífssýn hennar og trúarboðun. Við uppbyggjumst á helgum stað af lífsins orði og sakramentum frelsarans til að þjóna Guði í nafni hans á vettvangi hverdagsins, í verkum okkar og viðskiptum. Öll erum við skuldug honum um líf og lífsgæði og gjöldum þá skuld með því að gerast fyrir lifandi trú ljós af ljósi frelsarans, sem lýsir upp myrkur og óvissa framtíð, og miðla líknandi nærveru hans milli manna og þjóða, fórnandi elsku hans, fyrirgefningu og friði. Guð gefi styrk og blessun til þess í Jesú nafni og lýsi veginn fram.