Við getum sem best endurlifað síðustu máltíð Jesú með því að nota sams konar brauð og hann og notið þar með allrar táknhefðar Biblíunnar. Bakstur ósýrðs brauðs er einfaldur og öllum fær. Brauðið er fljótbakað og bragðgott.
Í 2. Mósebók 12:39 segir:
Og þeir bökuðu ósýrðar kökur af deiginu, sem þeir höfðu með sér úr Egyptalandi, því að deigið hafði ekki sýrst, þar eð þeir voru reknir burt úr Egyptalandi og máttu engar viðtafir hafa og höfðu því ekkert búið sér til veganestisþ
Gyðingar allra alda hafa síðan minnst framhjágöngu engilsins og brottfararinnar með hátíðahaldi um páska. Í síðustu máltíð Jesú gæti svona brauð hafa verið það sem Drottinn braut. Söfnuður Jesú Krists hefur um allar aldir brotið brauðið sbr. orð altarisgöngunnar: „Brauðið sem vér brjótum er samfélag um líkama Krists.“
Uppskrift ósýrðs brauðs er þessi: 2 bollar af spelt-hveiti ¾ bolli kalt vatn 2 matskeiðar ólívuolía 1 teskeið salt
Blandið hveiti, olíu, salti og vatni saman, hnoðið í þrjár mínútur. Skiptið í 8 hluta. Fletjið hvert stykki í þunna hringlaga köku og stingið hana sem víðast með gafli. Best er að steikja á pönnu, en einnig hægt að baka í ofni við 250°C í 10 mínútur. Pottpanna, þ.e. flatkökupanna, gafst mér vel. Athugið, að steikingarhátturinn skiptir máli hvað varðar bragð.
Steikið vel og þannig að brauðkökurnar þorni vel. Leggið síðan til kælingar hverja köku sér og staflið ekki.
Ef nota á brauðið sem matarviðbit er hægt að krydda það með hvítlauk, sesam eða öðru því kryddi, sem fólki líkar best.
Brauðið, sem vér brjótum, er samfélag um líkama Krists.
Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er samfélag um blóð Krists.