Hann spyr: En þér, hvern segið þér mig vera? Símon Pétur svarar: Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.Mt 16.15-20
Kæri söfnuður.
Spurningar og játningar eru íhugunarefni okkar á Pétursmessu í ár. Morgunlestur þessa dags geymir þekkta spurningu og henni er svarað með enn þekktari játningu:
"Hvern segið þér mig vera," spyr Jesús. "Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs," svarar Pétur.
Hvers konar spurning er þetta eiginlega? Hver spyr svona? Og hvernig eða hvar þarf maður að vera til að geta spurt slíkrar spurningar? Getur annar spurt þessa en sá sem veit hver hann er? Er það æskilegt eða mögulegt? Er það ekki einmitt svo að Kristur getur spurt af því að hann er öruggur með sig, hann þarf ekki að fullvissa sig á því hver hann er, en vill vita hvað öðrum finnst?
En þér, hvern segið þér mig vera?
Hvað með okkur? Eigum við að feta í fótspor Péturs og leitast við að svara þessari spurningu, frammi fyrir Guði og mönnum: Jesús er Kristur, sonur hins lifanda Guðs. Gerum við ekki einmitt það, hér og nú, í messunni, þegar við játum trúna og komum saman frammi fyrir altari Guðs?
Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.
Svo má auðvitað snúa spurningunni upp á okkur og spyrja, eins og Jesús: Hvern segið þig mig vera? Erum við ekki umkringd svörum við þeirri spurningu? Auglýsingarnar, tískublöðin og allt hitt í nútíma samfélagi sem svarar svo hátt og svo skýrt: Þú átt að vera svona og svona og svona. Sá sem ekki er öruggur með sig getur verið harla ráðvilltur andspænis svaraflórunni sem er allt um kring. Og það skiptir ekki mestu máli hver við (eða aðrir) eru sagðir vera af Séð og heyrt eða Hér og nú – það skiptir hins vegar öllu máli að vera séður og heyrður, hér og nú … af Guði. Við þurfum með öðrum orðum að horfa í hina áttina og beina spurningunni að Kristi. Spurning dagsins er þannig:
Jesús Kristur, hvern segir þú mig vera?
Og hvert er þá svarið? Er nokkuð annað svar mögulegt en þetta:
Þú ert elskað barn mitt!
Þú ert minn, þú ert mín, elskuð eða elskaður, sonur eða dóttir. Og ég, ég er þinn, þinn Guð, þinn faðir, þín móðir. Á kletti slíkrar ástar, á þeim kærleikskletti, er hægt að byggja mannlegt samfélag - kirkju. Því hvað er kirkjan annað en samfélag, grundvallað í og viðhaldið af elsku Guðs? Kærleiksfélag sem einkennist af þjónustu hvers við annan.
Guð gefi okkur að mega spyrja þessarar spurningar og meðtaka þetta svör og að við fáum lifað í þessu, með honum og með hvert öðru.