Á þessum degi átti Jesús síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinum sínum og vinum. Þessi máltíð er síðan endurtekin í hverri kirkju í dag og í hvert sinn sem söfnuðurinn gengur til altaris og neytir heilagrar kvöldmáltíðar. Um þessar mundir eru margir sem ganga til altaris í fyrsta skipti því á mörgum stöðum er sú hefð í heiðri höfð að uppfræðsla fermingarundirbúngsins sé nauðsynleg forsenda þess að þiggja sakramenti heilagrar kvöldmáltíðar. En auðvitað er borð Drottins opið öllum – krökkum, konum og körlum – og hverjum skírðum einstaklingi er ætluð náðin sem heilög kvöldmáltíð er farvegur fyrir. Fermingarfræðsla í nokkra mánuði er heldur engin trygging fyrir skilningi á því sem á sér stað við altarið þegar brauði og víni er útdeilt í minningu Jesú.
Hvernig ætli þetta hafi verið þegar Jesú braut brauðið og gaf lærisveinum sínum að eta? Ætli þeir hafi skilið til fulls hvað var að eiga sér stað? Eitt er víst að þeir sem þarna voru saman komnir höfðu allir sína eigin upplifun og eigin skilning á því verki sem Jesús var að vinna og hlutverki hans í heiminum. Trú þeirra sem voru viðstaddir síðustu kvöldmáltíðina var líka eins misjöfn og þeir voru margir. Við vitum að þarna sat Tómas sem frægastur er fyrir efa sinn. Og þarna sat líka Pétur, fullur af ákafa og góðum ásetningi. Júdas, lærisveinninn sem sveik Jesú, var þarna líka og hlustaði á meistara sinn segja að brauðið sem hann braut væri hans eigin líkami.
Svona er þetta líka við hverja einustu kvöldmáltíð. Við stöndum saman í kringum altarið og hlustum á orð hans sem er lífsins brauð og bikar lífsins. Við sjálf erum eins og Tómas, Pétur og Júdas. Við trúum vel eða illa, okkar góðu áform eru á sínum stað og á stundum finnum við okkur í vef óréttlátra og svikulla atburðarása. Og við skiljum örugglega ekki alltaf það sem gerist þegar okkur er útdeilt líkama og blóði Krists. En eins og lærisveinunum er okkur gefið að eta og drekka. Og við etum og drekkum vegna þess að Kristur býður okkur að gjöra svo.
Því miður eru margir sem temja sér ekki að þiggja sakramentið þegar boðið er upp á það í kirkjunni, ýmist vegna þess að þeim finnst þeir ekki skilja alveg hvað er á seyði eða kunna ekki við að taka þátt í þessum sameiginlega gjörningi. Og sumir vilja ekki þiggja eitthvað sem þeir eru ekki vissir um hvað táknar – eða vita ekki hvort þeir trúa. En líkami og blóð Krists sem er útdeilt í altarisgöngunni eru ekki komin undir trú þeirra sem viðstaddir eru. Og Kristur gefur líkama sinn og blóð fyrir alla, burtséð frá trú þeirra.
Það eina sem lærisveinarnir þurftu að gera á skírdagskvöld var að taka á móti brauðinu og víninu sem Jesús gaf þeim. Taka og eta. Orða og skilnings var ekki krafist. Ekki heldur af okkur. Það eina sem við þurfum að gera er að opna lófann okkar og varirnar okkar og þiggja gjöf allra gjafa. Lífsins brauð og bikar lífsins. Guð gefur okkur sjálfa sig í hinum hversdagslegu og nauðsynlegu hlutum – mat og drykk. Og í þessum hlutum eru orðin og skilningurinn ekki miðlæg, heldur það að borða og drekka.
Í gegnum það að borða og drekka saman fáum við hlutdeild í guðlegum leyndardómi sem verður ekki útskýrður með orðum. Í gegnum að borða og drekka saman verðum við hluti af lífi Jesú og göngum þá leið sem hann gengur. Leið fórnar og þjáningar en líka leið gleði og lífs.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.