Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir, hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins. Feður yðar átu manna í eyðimörkinni, en þeir dóu. Þetta er brauðið, sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því, deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs. Jh. 6. 47-51
Það er mikið talað um brauð í textunum sem ég las úr Biblíunni áðan. Það líður að fermingum og í dag er mikið af fermingarbörnum og forledrum þeirra í kirkjunni. Ég ætla að tala svolítið við ykkur um brauð. Hvað farið þið nú að hugsa? Ef til vill um fermingarveisluna sem mörg ykkar haldið að lokinni hátíðarstundinni í kirkjunni. Það verða eflaust brauðréttir á einhverjum veisluborðunum. Ég luma reyndar á nokkrum góðum uppskriftum að brauðréttum. En ég ætla nú ekki að fara að gefa uppsrkiftir héðan úr prédikunarstólnum þótt mér finnist gaman að tala um mat og uppskriftir.
„Gef oss í dag vort daglegt brauð“ segir í bæninni fallegu sem Jesús kenndi okkur. Brauð er oft notað sem samheiti fyrir mat eða fæðu. Vissulega þurfum við brauð í þeim skilningi orðsins til þess að lifa, án næringar verðum við máttfarin og slöpp og deyjum að lokum. Fyrir nokkrum árum var söfnun á vegum Hjálparstofnunnar kirkjunnar sem hafði yfirskriftina „brauð handa hungruðum heimi” Við erum svo lánsöm að búa í landi það sem hvorki ríkir hungursneyð né ófriður. Það er rík áhersla lögð á það í kristinni kirkju að þau sem nóg hafa og eru aflögu fær gefi þeim sem minna mega sín. Það er hluti af kristnu uppeldi að kenna börnum að sælla er að gefa en þiggja. Þannig höfum við undanfarin ár hér í barna og unglinga starfi Árbæjarkirkju styrkt börn í Indlandi til menntunar, átt tvö fósturbörn á vegum ABC barnahjálparinnar. Það er mikilvægt að hafa nóg að borða, þakkarvert að þurfa ekki að fara svöng að sofa og vakna svöng aftur líkt og veruleiki fólks víða um heim er í dag.
En við lifum ekki af brauði einu saman. Við þurfum ýmislegt annað til þess að lifa, lifa góðu innihaldsríku lífi. Það er einlæg trú mín og sannfæring að með því að kenna börnunum okkar bænir og fræða þau um allt það góða sem Jesús kenndi með lífi sínu og starfi gerum við þau færari til þess að takast á við lífið bæði þegar vel gengur og á móti blæs. Í gleði og sorg. Þá komum við að því sem Jesús segir í guðspjalli dagsins sem ég las frá altarinu áðan.
Sá sem trúir, hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins.
Þarna er Jesús að tala í líkingum eins og hann gerði svo oft. Síðan bætir hann við:
Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs.
Hann líkir sér við brauð og seinna þegar hann átti sína síðustu máltíð með lærisveinunum kenndi hann þeim hvernig þeir ættu að minnast hans með því að borða brauð og drekka vín sem tákn um líkama hans og blóð. Svo nálægur vill hann vera okkur að við tökum þessi efni, brauð og vín, etum og drekkum og hann er hjá okkur og með okkur. Það er falleg trú að hann fylgi okkur í eilífðina. Við sem höfum misst einhvern sem okkur þykir vænt um getum fundið huggun og styrk í þeirri trú að ástvinirnir sem við söknum eru eins og við í hendi Guðs.
Við köllum fermingarbörnin okkar stundum trúnema. Þau koma til okkar síðsumar og við fáum að fylgja þeim á þeirri leið sem liggur hingað, framfyrir altari Guðs, leið sem þau velja sjálf. Þau segja við Guð og menn að þau vilji að Jesús verði leiðtogi lífs þeirra. Það er hátíð í lífi þeirra og fjölskyldnanna og það er yndislegt að fá að vera samferða börnunum þessa leið og að fá að taka þátt í stóru stundinni.
Allt starfsfólk kirkjunnar kemur að undirbúningnum og það er alveg sérstök stemning hér þessar vikur fyrir og á meðan fermingum stendur, enda fjölmennur hópur sem kemur ár hvert og staðfestir skírnarheitið. Organistinn okkar hún Krisztína fann sálm sem við sungum hér í dag: Vér biðjum þess að blessist skóli vor og björt og farsæl verði þeirra spor.
Þegar hún sá þennann fallega texta eftir sr. Helga Sveinsson varð henni hugsað til fermingarbarnanna og hún sýndi mér hann. Mikið var ég sammála. Þessi sálmur er eitt af þessum gullkornum sem sálmabókin okkar hefur að geyma en er sjaldan sunginn. Hugsið ykkur hvað það er falleg bæn ef við notum orðið trúnemi um fermingarbörnin og þá skóli um fermingarfræðsluna og segjum:
Vér biðjum Guð að blessa skóla vorn. Hér blómgist saman þekking ný og forn. Svo blessist hver, sem frá oss burtu fer. Hann finni Drottin vaka yfir sér.
Í heimi fullum af freistingum og hættum er ég líka viss um að við sem erum foreldrar getum tekið undir:
Í veröld manna mörg er brautin hál og margur háskinn búinn ungri sál, því fylli ljómi og kraftur öll þau orð, sem eru sögð og skráð við þessi borð
Við fögnum þeirri fræðslu sem Tollgæslan býður fermingarbörnum á ári hverju um skaðsemi fíkniefni. Við erum stundum spurð hvað það komi eiginlega kristindómnum við? Það er einmitt lykilatriði að við látum okkur ekkert mannlegt óviðkomandi. Þess vegna söfnum við fyrir mat handa hungruðum heimi. Þessvegna leggjum við áherslu á gullnu regluna og leitumst við að koma fram við annað fólk á sama hátt og við viljum að það komi fram við okkur. Við látum okkur varða líðan hvers annars. Við leitumst við að byrgja þá brunna sem við blasa og við við viljum ekki að unglingarnir okkar detti í.
Páll postuli var að kenna það í bréfinu sem hann skrifaði til safnaðarins í Filippi. Nú er hann að kenna okkur það sama hér í Árbæjarsöfnuði þegar hann segir:
gjörið gleði mína fullkomna með því að vera samhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd.
Við eigum að vera samhuga. Við eigum líka að hugsa um fleiri en okkur sjálf það sagði Páll postuli fyrir bráðum 2000 árum og þau orð eru í fullu gildi í dag:
Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.
Hvað ættum við helst að hafa í huga þegar við reynum að ná þessu markmið sem Páll er að hvetja okkur til? Hvað getum við gert til að minna okkur á að líta ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra?
Jú, Páll gefur okkur svarið:
Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var.
Það er eimitt það sem fermingarbörnin stenfa að með jásvari sínu hér í Árbæjarkirkju á næstu vikum. Þau vilja hafa Jesús leiðtoga í lífinu og við skulum sameinast um reyna að vera þeim góðar fyrirmyndir í því að vera með sama hugarfari sem Jesús Kristur. Það er verkefni sem við lærum ekki á einum degi, heldur ekki á námskeiði eða í fermingarfræðslu. Það er lífstíðarverkefni og við skulum vera samferða í því verkefni.