Deilt hefur verið á aðkomu þjóðkirkjunnar til nokkurra grunnskóla landsins í gegnum hina svokölluðu Vinaleið. Arnold Björnsson skrifaði nýlega grein þar um (sjá Morgunblaðið, 4. nóvember 2006) og gagnrýndi kristið fólk og kirkju í því samhengi. Ekki ætla ég að gera Vinaleiðina að umræðuefni hér en ég vil bregðast við nokkrum atriðum úr grein Arnolds.
Arnold lætur skína í þau rök, sem sumir guðleysingjar beita gjarnan í gagnrýni sinni, að kristni og kirkja telji sig einhvern veginn hafa eignað sér kærleikann, gott siðferði og almenna réttlætishugsun svo að þeir sem standi utan við kristni eða vébanda kirkjunnar séu með einhverjum hætti ofurseldir vondu siðferði. Þetta er að sjálfsögðu rangt og umræðunni alls ekki til góða. Að ætla að maður verði að vera kristinn til þess að flokkast sem siðferðisvera og/eða eiga möguleika á siðferðilegum framförum er fjarstæða. En það er jafnrangt ef einhver telur sig geta gert lítið úr kærleikanum sem boðaður er á kristnum forsendum og ætlar að það sé einhver neikvæður eðlismunur þar á; að kristin (trúarleg) kærleikshugsun sé minna virði en önnur (veraldleg) kærleikshugsun. Þá er einfaldlega verið að beita sömu rökum og verið er að gagnrýna. Auðvitað er til eitthvað sem heitir kristið siðferði í þeim skilningi að kristin trú réttlætir með sínum hætti tiltekið siðgæði eða siðalögmál og er leiðbeinandi og hvetjandi um ytri hegðun og breytni. En kirkjan boðar ekki að kristið siðferði sé forsenda siðferðilegrar hugsunar. Kristin kirkja (þ.e. kristið fólk) tileinkar sér þá kærleikshugsun sem birtist í orðum og verkum Jesú Krists og vill raungera hana og útbreiða, m.a. á þeim forsendum að þar fáum við skýrustu myndina af því skapandi afli sem virkur kærleikur er.
Þá viðrar Arnold þá röngu hugsun, líkt og fleiri guðleysingjar hafa gert, að meta megi kristna trú og kristin boðskap á grundvelli bókstafskenndrar túlkunar á einstaka ritningagreinum Biblíunnar. Eins og annað hófsamt fólk, trúað sem vantrúað, er ég ekki talsmaður trúarlegrar bókstafshyggju og bið ég alla að forðast slíka umgengni við Biblíuna. Ein afleiðing slíkrar biblíunotkunar er sú tímaskekkja (anakrónismi) sem Arnold gerir sig sekan um þegar hann reynir að upplýsa fólk um eðli kristni og kirkju í dag í ljósi dapurlegrar kirkjusögu fortíðarinnar og úr sér gengnum boðskap um helvítisvist. Tímaskekkja af þessum toga er því miður algeng í umræðunni. Ef Arnold vill eiga uppbyggilegt samtal um trúmál í íslensku samfélagi í dag bið ég hann að staðsetja sig einmitt þar og kynna sér kirkjuna með opnum huga eins og hún er í samtíma sínum. Kirkjan reynir ekki að breiða yfir sögu sína heldur reynir hún að læra af henni. Jafnframt má fólki vera ljóst að kristni þróast líkt og önnur trúarbrögð og að kirkjan sem stofnun gerir það einnig. En það þýðir ekki að sá trúarlegi grundvöllur sem kirkjan hvílir á, fagnaðarerindið um Jesú Krist, gangi þar með úr sér.
Boðskapur Krists er vissulega kærleiksboðskapur fyrst og fremst. Það er ekki boðlegur umræðugrundvöllur að vitna samhengislaust í fáein orð Jesú, m.a. þau er hann segir: „Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð ... ég er kominn að gjöra son andvígan föður [og] dóttur móður,“ og láta að því liggja að Jesús boði almennt „harðræði“ og „óvild“. Jesús var tilfinningaríkur maður og oft ómyrkur í máli og vissi vel að fólk hafði skiptar skoðanir um sig og að ekki mundu allir fylgja sér að máli. En það að fylgja honum eftir hafði gjarnan afdrifaríkar afleiðingar á líf fólks, m.a. hvað snertir tengslin við þá sem stóðu eftir.
Gleymum ekki kjarna fjallræðunnar þegar dæmt er um boðskap Jesú Krists, eða dæmisögunum, m.a. um miskunnsama Samverjann og týnda soninn; gleymum ekki viðmóti Jesú gagnvart þeim sem minna máttu sín. Látum ekki bókstafshyggju villa okkur sýn og breiða yfir samhengi kærleikans sem skín í gegnum orð og verk Jesú frá Nasaret.
Umræða um trú getur verið snörp, sérstaklega þegar öndverð sjónarmið mætast, og upphrópanir heyrast enda er viðfangsefnið innilegt hjá mörgum er láta sig það varða. Að sjálfsögðu ætti umræða um trú og skoðanir að mótast af umburðarlyndi og gagnkvæmri virðingu og ætti fólk að reyna að gera greinarmun á tiltekinni skoðun og þeim sem heldur henni fram. Það þjónar t.d. engum tilgangi að staðhæfa eins og Arnold gerir að trúað fólk eigi almennt rýran hlut í þeirri „hamingju“ og „velsæld“ sem mannkyni hefur tekist að skapa sér í gegnum sögu sína, og ýja að því að ekki séu til trúaðir vísindamenn. Slík staðhæfing, jafnröng og öfgafull sem hún er, hljómar heldur óheppilega í kjölfar þeirrar gagnrýni að kirkjan úthrópi vantrúað fólk sem hættulega siðleysingja. Með því stígur Arnold einatt í sömu spor og hann gagnrýnir aðra fyrir að vera fastir í, þ.e. hann alhæfir á rangan og öfgafullan hátt. Kirkjan hefur sína ágalla líkt og aðrar stofnanir og trúað fólk sem annað. En að eigna kirkjunni þann málflutning að vantrúað fólk sé siðlaust og hættulegt er jafn rangt og að segja að trúað fólk sé illa að sér og skorti rökhugsun, en þó hefur það heyrst, m.a. frá virtum breskum vísindamanni sem heimsótti Ísland sl. sumar.