Vatn

Vatn

Hvað var í kringum þig, var þitt nærsamhengi, þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú svamlaðir og fórst kollhnísa í legvökva. Hátíðnihljóðin, sem bárust eyrum þínum alla daga, voru frá hinu hraða rennsli blóðsins, vökvans, í æðum móður þinnar og í takti við slátt hjartans sem dældi.

Vatn

Hvað var í kringum þig, var þitt nærsamhengi, þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú svamlaðir og fórst kollhnísa í legvökva. Hátíðnihljóðin, sem bárust eyrum þínum alla daga, voru frá hinu hraða rennsli blóðsins, vökvans, í æðum móður þinnar og í takti við slátt hjartans sem dældi. Svo þegar legvatnið fór var ekki lengur hægt að lifa inní mömmu - þá fæddist þú. Síðan varstu baðaður eða lauguð í vatni. Móðurmjólkin var að mestu vatn. Þú varst og ert vatnssósa. Svo héldu elskuarmar á þér við skírnarlaug. Glitrandi vatnið í fontinum var borið að kolli þínum og orðin um föður, son og heilagan anda voru nefnd með nafninu þínu.

Síðan hefur vatnssagan haldið áfram. Þú hefur verið í vatni og notið vatns. Í þér er mikið vatn, sem hefur lengi verið til, jafnvel tugi milljóna ára. Það hefur farið um líkama fiska, sóleyja, hvala, trjáa, tígrisdýra, apa, snigla, kaktusa og jafnvel risaeðla. Það hefur borist um allan heim, verið í Jórdan og mörgum jökulám, verið í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, Rauðahafinu, vatninu í Krossá. Meðan þú lifir finnur þú fyrir vatnsbúskap líkama þíns. Vatnið er lífinu nauðsynlegt. Líf okkar slokknar ef vatnið hverfur eða fúlnar.

Margir elska vatn og vötn, veiðimenn, fagurkerar og trúmenn allra hefða. Auður djúpúðga var svo elsk að sjónum að hún vildi láta jarða sig í flæðarmáli. Merkilegt, flestum hryllir við ef grafir fyllast af vatni. En af hverju skyldi hin vitra, kristna, Auður hafa sótt til sjávar? Getur verið að vatn hafi eitthvað með Jesú að gera? Getur verið að við þurfum að sjá hið djúptæka í hinu yfirborðslega, greina trúarleg gildi í hinu hvunndagslega?

Skírn Jesú og vatn veraldar

Þegar Jesús vildi skírast var hann sér fullkomlega meðvitaður um, að skírn hans væri ekki með sama móti og iðrunarskírn þeirra sem flykktust til Jóhannesar við Jórdan. Skírnaróskin markar upphaf starfsferils hans. En Jesúskírnin er ekki heldur hin sama og okkar. Jesús skírðist ekki heldur til lífsins eins og við, ekki að endurnýjast eins og við, ekki að losna úr viðjum sorans eins og við. Skírn Jesú var upphaf frelsisverks hans sem gerir skírn okkar mögulega. Skírn Jesú var og er lind, uppspretta í eyðimörk, árstraumur, sem mótar umhverfi og er forsenda gróðurs, sem kenndur er við himininn. Skírn Jesú hefur áhrif á allan heiminn, ekki bara eyðimörk, heldur líka blautsvæðin.

Á miðöldum gátu menn séð í Jórdanskírn Jesú helgun allra vatna heimsins. Jesús helgar allt sem er, gerir það heilagt. Vatnið notum við svo í hinu kirkjulega samhengi skírnarinnar til að helga lífið. Í bikarnum er vatnið helgað þér til blessunar. Í því er helgað vatn og þú mátt því leyfa þér og lífi þínu að blómstra. Af því veröldin er Guðs sköpun, blessuð af Jesú eiga kristnir menn að verja vatn veraldar, vernda og hreinsa. Lífið þarfnast þess. Jesús var skírður - ekki aðeins til að gefa mönnum líf heldur gefa allri veröld líf, vatninu líka.

Vatnsvernd fjær og nær

Vatn hefur verið misnotað og mengað um allan heim. Víða er vatnsskortur og vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Við ættum að styðja Hjálparstarf kirkjunnar við að gera brunna á vatnsvana svæðum. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt, að fólk getur ekki farið út í vatnið til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Meira en einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum platna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.

Við þurfum að innræta okkur þá frumreglu, að aðgangur að hreinu vatni séu mannréttindi. Vatnsvernd er lífsvernd. Við berum ábyrgð á lífsgæðum barna okkar, ófæddum kynslóðum. Kirkjan gegnir ábyrgðarhlutverki í náttúruvernd og við berum öll ábyrgð í þeirri þjónustu.

Notum vatnsdag til að íhuga köllun okkar til verndar og blessunar vatns. Land, fólk, vatnssósa sköpun Guðs er heilög.