„Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir hefur eilíft líf. ég er brauð lífsins. Feður ykkar átu manna í eyðimörkinni en þeir dóu. Þetta er brauðið sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.
Manstu þegar þú varst barn hvað gott bragð var gott og hvað vont bragð var afgerandi? Manstu lyktina úr barnaskólanum þínum og tilfinninguna af því að ganga á nýjum skóm? Og manstu hvernig það var að eiga líkama sem óx og breyttist? Þegar þú varst barn og unglingur, hver var þá góður við þig? Var einhver sem vildi að þú borðaðir hollt, klæddir þig vel, hefðir nóg? Og umhyggjan sem þú naust, manstu hvernig þú skynjaðir hana með líkamanum öllum? Og eins umhyggjuleysið, ranglætið sem þú þoldir, einnig það var líkamleg skynjun og reynsla. Svo gerðist það líkt og fyrir einhvern galdur eða misskilning að með aldrinum fórum við að færa skynjun okkar burt frá húðinni. Smám saman hættum við að taka umhverfið inn í gegnum skinnið og færðum meðvitund okkar sem allra mest upp í höfuðið þar sem lyktarskyn og heyrn og sjón er fyrir hendi og líka skynsemin. Við lærðum að við ættum að vera skynsöm og nota skilningarvitin en ekki láta líkamann trufla. Og okkur fór að líða eins og við værum fyrst og fremst höfuð með líkama. Eða hvernig ert þú? Finnst þér að þú sért líkami þinn allur, eða ertu fyrst og síðast til staðar uppi í höfði þínu? Það var einu sinni leikrit í útvarpinu þar sem aðal söguspersónan var bara höfuð án líkama. Ég gleymi ekki þessu dæmalausa útvarpsleikriti, ég heyrði það sem unglingur og það skelfdi mig. Líkamslaust höfuð tengt við vélar. Persóna sem talaði og lifði og tókst á við líf sitt hafandi einungis höfuð sem einhver annar varð að snúa til að gefa nýtt sjónahorn. Og auðvitað endaði leikritið illa eins og öll leikrit á 8. áratungum. - Það er eitthvað varðandi líkamann sem er ómissandi. Þú ert líkami þinn jafn mikið og þú ert hugur þinn.
II
Í guðspjöllunum er sífellt verið að búa mat og snæða? Jesús er líka alltaf að snerta fólk eða þá að einhver snertir hann, hellir t.d. ilmandi olíu yfir höfuð hans eða vætir fætur hans með tárum og þerrar með höfuðhári sínu. Jesús guðspjallanna er mjög líkamlegur, ef svo má að orði komast. Í guðspjalli dagsins líkir hann sjálfum sér við brauð og segir:
...brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.- Þetta langar mig svo að skilja betur. Hvað er verið að segja þegar fullyrt er að Jesús hafi gefið öllum heiminum líkama sinn? Í hvaða skilningi er hægt að gefa líkama sinn?
Þá kemur upp í huga minn hún Dýrfinna ljósmóðir. Þegar ég hugsa um Dýrfinnu ljósmóður sem lengi starfaði á Fæðingarheimilinu í Reykjavík fara sterkar tilfinningar af stað innra með mér. Ég man hvernig ég fyrir bráðum tuttugu og einu ári mændi á hendur þessarar konu sem ég aldrei áður hafði séð og vissi ekki að væri til. Ég horfði á sterku og holdugu hendurnar hennar Dýrfinnu og fann að einungis þessar hendur hefðu visku og mátt til þess að leiða barnið mitt heilt út í veröldina. Fæðingin var erfið, klukkustundirnar liðu og án nærveru Dýrfinnu sem gaf alla sína krafta, ást og visku þá veit ég ekki hvernig hefði farið. Og er dóttir okkar var fædd og var lögð á brjóst mömmu sinnar og hin helga ró fæðingar-stofunnar var dottin yfir á miðri nóttu þá kom Dýrfinna inn til að kveðja. Ég mun aldrei gleyma þeirri sjón. Hver einasti andlitsdráttur hennar og hver hreyfing er hún gekk á braut sýndi að hún hafði gefið allt. Síðar hef ég orðið þess áskynja að inni í heilbrigðiskerfinu okkar og líka í skólum landsins og á mörgum fleiri stöðum þar sem líf og heilsa þessarar þjóðar er meðhöndluð þar eru innanum svona manneskjur, svona englar eins og hún Dýrfinna ljósmóðir, fólk sem gefur sjálft sig, fólk sem gefur líkama sinn og sál og veitir þannig lífinu brautargengi.
III
„Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs." Jóh 6.51Manstu þegar fólkið með apelsínugulu borðana stillti sér upp til varnar lögreglunni þegar átökin stóðu hér í miðbænum á fyrstu dögum hrunsins? Þau voru ekkert mörg og þau voru ekki máttug, bara óvarðar manneskjur og óvön svona átökum, venjulegir Íslendingar. Samt urðu kaflaskil einmitt þarna, niðurrifinu lauk og uppbyggingin hófst vegna þess að þau gáfu líkami sína. Þau tefldu fram eigin líkömum og miðluðu þannig skilyrðislausri samstöðu með lífinu og réttlætinu. -Líkaminn er svo máttugur. Líkami okkar er fær um að miðla lífi og réttlæti. Sagan af Jesú frá Nasaret færir okkur þá fregn að mannslíkaminn sé m.a.s. fær um að miðla guðlegri nálægð. Við tölum gjarnan um líkama okkar eins og tæki. Segjum t.d. að við séum að fara í viðgerð, þegar við þurfum að leggjast undir hnífinn eða tölum um „hulstrið” þegar við eigum við okkar eigin skrokk, en ef að er gáð þá vitum við ofurvel að það er eitthvað varðandi líkama okkar sem er heilagt og hreinlega stórkostlegt. Og það gildir einu þótt við eldumst og hrörnum eða veikjumst, líkaminn er áfram stórkostlegur. Það mikilvægasta sem við höfum að segja getum við bara sagt með líkamanum. IV
Þetta er ástæðan fyrir því að líkamleg tengsl eru svo djúp og merk. Við eigum í daglegu lífi margvísleg góð viðskipti og mikilvæg samskipti við fólk sem felast í því að miðla upplýsingum og hugmyndum, jafnvel virðingu og kærleika. En þau samskipti sem öllu varða, samskiptin sem gefa líf og nægtir, felast í því að gefa líkama sinn með einhverjum hætti. Það er mikið rannsóknarefni og um leið mikils virði að kunna á því skil hvernig leið okkar út til annarra manna liggur einmitt í gegnum líkama okkar.
Róttækasta dæmið er e.t.v. það að við þáðum líf af lífi foreldra okkar. Þau gáfu okkur líkama sinn líffræðilega og umönnun þeirra, erfiði og umhyggja okkur til handa er af sama meiði. Ef það ríkir ekki virðing í þessum tengslum þá er lífið einhvern veginn óbærilega skakkt. Þetta vitum við. Annað róttækt dæmi er það þegar við elskum maka okkar og gefum honum líkama okkar. Ég er að tala um kynlíf. Það er enn ein hliðin á þessu merkilega máli. Í kynlífi er gefið og þegið af mannlegri rausn og stundum kviknar líf af lífi. Líka þar getum við ekki þrifist án virðingar og trúnaðar. Og einnig þar gildir einu þótt við eldumst og hrörnum eða veikjumst, líkaminn er áfram stórkostlegur og það mikilvægasta sem við höfum að segja við elskuna okkar getum við bara sagt með líkamanum.
Hvernig sem við gefum líkama okkar og hvernig sem við þiggjum líkama annarra, hvort heldur það er í gegnum þjónustu sem innt er af hendi í samfélaginu eða fyrir blóðtengsl eða umönnun foreldra og forráðamanna, hvort heldur það er í ástarsamböndum okkar eða þegar einhver tekur sér stöðu og teflir fram eigin líkama öðrum til varnar, - í öllum tilvikum þegar einhver gefur líkama sinn er unninn sáttmáli um ást og réttlæti. Þetta er kjarni máls. Allskyns samninga getum við unnið í viðskiptum og allra handa yfirlýsingar er hægt að gefa í stjórnmálum með orðum og atferli en svo heilagur er mannslíkaminn, svo heill og magnaður veruleiki að hann einn getur miðlað þeirri rausn sem er mest og best, sjálfum sáttmála ástarinnar. Þetta er ástæðan fyrir því að rekstur nektardanstaða og vændishúsa er í eðli sínu lygi og ofbeldi. Það er ekki hægt að kaupa líkami. Mannslíkaminn verður ekki verðmetinn, það er ekki hægt að hrifsa hann til sín heldur er einungis mögulegt að þiggja hann að gjöf. Ef líkamsárásir eru refsiverðar hljóta vændiskaup að vera það líka.
V
Í manninum Jesú Kristi hefur höfundur lífsins gefið sjálfan sig heiminum og unnið þann sáttmála um ást sem ekki verður afmáður. Henni Guðrúnu Ingu var gefin hlutdeild í líkama Jesú þegar hún var borin til skírnar hér áðan. Og er við göngum upp að altarinu til þess að þiggja líkama Krists í brauði og víni þá staðfestum við að við tilheyrum sáttmála hans með líkama okkar og ætlum ekki og munum ekki yfirgefa hvert annað. Það var út frá þessari félagslegu og líkamlegu reynslu að Páll postuli skrifaði hvatningarorðin sem flutt voru hér áðan:
„Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Fil 2.1-5
Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.