Tómas og trúin

Tómas og trúin

Hvenær er ljósið í sálinni svo sterkt að allir skuggar hverfi? Í hverri heilbrigðri manneskju eiga sér stað átök, barátta, milli trúar og efa. Sú barátta er nauðsynleg til þess að manneskjan, þroskist og eflist að vilja og kjarki.
fullname - andlitsmynd Hjálmar Jónsson
15. apríl 2012
Flokkar

Tómas vildi vera viss. Hann var skynsamur maður, hljóp ekki til, hann lést ekki trúa. Hann fylgdi ekki fjöldanum, en hugsaði sjálfur og vildi fá rök. Við höfum nú undanfarnar vikur farið gegnum stóra atburði kirkjuársins í helgihaldi og trúarlífi. Fyrir hálfum mánuði var pálmasunnudagur – og þess var þá minnst að mannfjöldinn fagnaði Jesú á leið hans inn í borgina, hyllti hann sem konung. Nokkrum dögum seinna, á föstudaginn langa, hrópaði mannfjöldinn að hann vildi fyrir alla muni að Kristur yrði krossfestur. Þetta voru miklar sveiflur í vinsældum og fylgi. Á fáeinum dögum algjör umskipti. Hins vegar velti þessi sami mannfjöldi ekki mikið fyrir sér röksemdum og málefnum, fjöldinn var eins og hjörð, hjörð sem hagar sér þannig, - hjarðhegðun. Tómas var ekki í þeim hópi. 

Á páskadag urðu ennþá meiri umskipti, en þau fóru hægar. Fyrir mörgum árum, um þetta leyti árs, var Páll Bergþórsson veðurfræðingur að spá í veður í sjónvarpi. Hann sagði: “Nú hlýnar hægt og örugglega, það er besta vorkoman.” Ég tengdi þessi orð upprisunni og vorinu í trúnni og kirkjunni. Svona er vorkoman í trúarlífinu. 

Og nú hittum við Tómas hér í guðspjallinu viku eftir páskana. Honum líður ekki vel – og það getum við vel skilið. Engin vormerki, engin glaðværð. Hann er að mínu mati ranglega gerður að fulltrúa fyrir þá sem draga allt í efa. Mér virðist hann fyrst og fremst vera maður heilinda og hreinskilni. Hann er ekki trúgjarn maður. En það er sitthvað að vera trúaður og trúgjarn. Hann var ekki yfirborðsmaður heldur athugull og gætinn. Það verður heldur ekki sagt um upprisuna að hún sé auðveld til að trúa. Hún er nú ekkert mjög sennileg.  Hún er ekki frétt sem maður tekur eins og hverri annarri. Kannski er mesta grunnfærnin, líka trúarlega, að taka upprisunni sem sjálfsögðum hlut. Að þá sé nú heilbrigðara að efast.

 En margt varð til að vekja trúna að nýju, hægt og örugglega. Þeir, sem höfðu viljað flýja vettvang atburðanna og gleyma því sem hafði gerst, lærisveinarnir, þeir sem höfðu viljað leynast og leyna vonbrigðum sínum, þeir urðu sannfærðir á þessum vikum sem liðu fram að uppstigningardegi og hvítasunnu. Í fyrstunni hugðust þeir koma sér að einhverju nýtilegu starfi, vinna upp þessi þrjú töpuðu ár í för með predikara, sem ekki hafði staðið undir væntingum.  Sumir postulanna höfðu verið fiskimenn og fóru í smábátaútgerðina aftur.  Það er líka vinsælt í okkar landi að byrja aftur í þeirri grein, fá leyfi til strandveiða  -  aftur. 

En hvað sem þeir fóru nú að gera þá gleymdi hinn upprisni Kristur þeim ekki. Hann leitaði þá uppi, kom til þeirra. Og hann var þar sannarlega lifandi kominn. Það staðfestist að sá sem gekk í dauðann – hafði sigrað dauðann. Myrkur vonleysis vék fyrir ljósi trúar og fullvissu. Myrkur föstudagsins langa vék fyrir ljósi páskasólar. Ljós og myrkur, trú og efi. Við þekkjum þessar andstæður í eigin huga og lífi. Hvenær er trúin svo sterk að ekki sé vottur af efa þar einnig? Hvenær er ljósið í sálinni svo sterkt að allir skuggar hverfi? Í hverri heilbrigðri manneskju eiga sér stað átök, barátta, milli trúar og efa. Sú barátta er nauðsynleg til þess að manneskjan, þroskist og eflist að vilja og kjarki. Stundum kynnumst við viðhorfum og afstöðu fólks, sem allt telur sig vita. Eins og það sé með allan sannleikann í sínum höndum – og allar gáfur sín megin. Algengt er að hitta slíkt fyrir á vettvangi dægurmálanna.  Og í trúarefnum eru þeir einnig til sem trúa öllu rétt, vita allt, vita nákvæmlega hvaða tónlist Guði falli í geð, hvað þá heldur annað. Stundum verður hún leiðigjörn, þessi háleita fullvissa um eigið ágæti og skoðanir. Það fannst höfundi þessarar vísu:

Aðdáun og öfund hafa aukið hjá mér jafnt og þétt þeir sem aldrei eru í vafa og alltaf vita hvað er rétt. 
Efi er málefni hjartans, eins og trúin. Hluti af innri manni. Og þegar efi nær tökum á hjartanu og ætlar að slökkva ljósið sem þar skín þá skulum við passa okkur. Með þessum orðum í ljóði komst Lárus Jónsson að niðurstöðu og gerði upp við efann:
Þú mikli, eilífi efi, ekki get ég hrópað til þín í sárustu kvöl og nauð, beðið þeirrar bænar, sem öllum sköpum skiptir. Hvaðan kemur mér hjálp, ef þú heltekur mig og sigrar?
Hér í er margt fólgið. Þú ákallar ekki efann í erfiðleikum og í áföllum lífsins. Efasemdir geta verið gagnlegar. Heilbrigður efi hvetur til áframhaldandi rannsóknar, meiri prófana. En sá maður er illa staddur sem alltaf kvelst af innri baráttu.  Lítum heldur eftir vorinu, sjáum Krist, hittum hann upprisinn.

Ég hef séð og hitt hann í margvíslegum atvikum lífsins. Það var Kristur sem var næstur honum Jóhannesi…       hér við skírnarfontinn áðan. Það er hann sjálfur, sem heitir vernd sinni og nærveru. Hann er næstur fermingarbörnunum á hátíðastund í þeirra lífi, brúðhjónum sem vinna sín helgu heit. Hann blessar lífsveginn okkar.

Ég gegni því eftirsóknarverða hlutverki að verða oft vitni að þessu – Þá er ljúft að þjóna þeim Drottni sem er upprisan og lífið. Ég fæ líka oft að sjá hann ganga með fólki sem annars gæti ekki risið undir byrðum lífsins, skynja hann, ljósið hans, anda hans, persónu hans við dánarbeð, þegar ástvinur skilur við og hinir nánustu eru þar næstir. Á vettvangi slysa, í þeim sárustu aðstæðum sem nokkur manneskja getur komist í. Þegar allt virðist vonlaust og örvænting og uppgjöf það eina í stöðunni, þá gerist það! Ljós rennur upp, sólin kemur upp. Lífið ekki á undanhaldi. Lífið sigrar. sá er boðskapur kristni og kirkju. Kirkjan í landi okkar er alls staðar nærri með þann boðskap í orði og verki. Hún er ekki ágeng, en reiðubúin til þjónustu í anda Jesú Krists – því að Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn.  Amen.

Vísur fluttar í upphafi predikunar. Faðir skírnarbarnsins, Helgi Zimsen,  orti til skírnarbarnsins, Jóhannesar Jökuls:

Æska vor er vori lík vex þá allt og dafnar Upp má spretta auðnurík urt sem birtu safnar.

Lífs á akri ýmsir sá á því höfum gætur. Frjóan jarðveg finna má fyrir ungar rætur.

Visku, kærleik, von og trú vaxtarsprota á nærðu. Best mun gagnast gjöfin sú, góðan ávöxt færðu.