Guðsótti er feginsótti

Guðsótti er feginsótti

Þannig frelsar trúin á guðinn sem gerðist maður í Jesú Kristi einstaklinga og samfélög frá trúnni á valdið sem stærir sig og eignar sér lönd og lýð.

Á föstudaginn var sat ég margra klukkutíma langan fund með sérfræðingum á sviði velferðarmála. Ég var stoltur af þessum félagsskap því þarna var saman komið fólk úr háskólasamfélaginu, stjórnkerfi ríkis og sveitarfélaga ásamt fulltrúum ýmissa félaga og hreyfinga svo sem ÖBÍ, Hjálparstarfs kirkjunnar, Rauða Krossins, Samhjálpar og fleiri aðila með mikla reynslu og þekkingu af velferðarmálum.  Þetta fólk var saman komið að gefa krafta sína heilan vinnudag sumir vestan af fjörðum og aðrir norðan úr landi, vegna þess að það veit að það veit. Enginn af þeim sem þarna sátu sér fyrir sér eitthvert himnaríki á jörðu í útópískum ljóma því lang flest af þessu fólki hefur starfað í meira en 20 ár í sínu fagi og þekkir vel hið seigfljótandi eðli allra raunverulegra breytinga, en það veit að það veit hvar skórinn kreppir hjá íslenskri þjóð og að á Íslandi dagsins í dag eru meiri tök á jákvæðum breytingum í átt að almannahag heldur en lengi hefur verið.  Í dag er hægt að gera margt í þáu almannahagsmuna sem skorti forsendur fyrir nokkrum árum.  Þess vegna vildi þessi stóri og burðugi hópur koma saman, því þau vita að þau vita.

Á fundinum var m.a. á það bent að í dag eigum við her vel menntaðra félagsráðgjafa sem kunna til verka að laða fram og leiða jákvæðar breytingar í lífi einstaklinga, stofnana og samfélaga. Þar er stétt sem meira og meira kveður að og kann að efla kjark fólks. Eins hafa ólíkir faghópar síaukið samráð og hafa þjálfað sig í því að nýta þekkingu hvers annars opið. Smákóngahugsunin er víkjandi en samvinna kjörorð dagsins.

Þegar rætt er um velferðarmál í dag ber hugtakið valdeflingu oft á góma,  þ.e.a.s. það þegar persóna er studd og hvött til að taka líf sitt í eigin hendur og vera sjálfstæður gerandi í tilveru sinni.  Þetta er eins og Jesús fer að í guðspjalli dagsins í samskiptum við  líkþráa öryrkjann og rómverska hundraðshöfðingjann þegar hann beinir að þeim sjálfum allri athygli og sendir þá beinlínis frá sér með það verkefni að lifa. Manninum sem verið hafði líkþrár sagði hann einfaldlega að fara og fá sér heilbrigðisvottorð og vera Guði þakklátur en hundraðhöfðingjanum sem bað um lækningu fyrir svein sinn hrósaði hann fyrir trúarstyrk og mælti:  „Far þú, verði þér sem þú trúir.“ Í dag heitir þetta valdeflandi samskipti við skjólstæðing en á ensku fagmái er rætt um “empowerment”.

Og svo er líka talað um valddreifingu sem er angi af sama meiði og er um það að láta ákvarðanir sem varða líf og hagsmuni fólks vera teknar sem næst því sjálfu.  Það er bara þannig að ákvarðanir sem teknar eru í návígi eru oftast betri en þær sem teknar eru langt í burtu af fólki sem ekki deilir kjörum með þeim sem ákvarðanirnar varða. Valddreifing.

Okkar kynslóð hefur orðið vitni að mestu samsöfnun valds sem orðið hefur í veröldinni. Því veldur sjálfsagt tæknin. Samsöfnun á valdi hefur vissa augljósa kosti, það verða t.d. til pýramídar og önnur stórhýsi til að horfa á og stórar viðskiptasamsteypur sem valda því að allir drekka sama kókið og hrífast af sömu tísku í fatavali og afþreyingu.  Margar nýtar tækninýungar munu hafa orðið til í beinum tengslum við hernaðarátök og stríðsrekstur stórvelda.  Sjálft internetið er m.a.s. afkvæmi bandaríska hersins!

Ég nefni pýramídana í Egyptalandi. Þeir gnæva yfir öllum sögum Gamla Testamenntisins og átökin sem þar eiga sér stað eru beint uppgjör við það vald sem raðaði þessum pýramídunum saman, stein fyrir stein. „Þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi.” áminnir lexía dagsins þegar hún krefur fólk um að haga sér eins og manneskjur.  (5. Mós 10.17-22)

Það er merkilegt að hugsa til þess að hin félagslegu skilaboð Gamla Testamenntisins með Móse og spámennina í forgrunni snúast um höfnun á alræðisvaldi og kröfu um dreifingu valdsins þannig að það þjóni sem best almannahag. Á sama hátt má segja að hin félagslegu skilaboð Nýja Testamenntisins séu öll í átt að valdeflingu – að efla kjark fólks til að lifa sem sjálfstæðir gerendur í eigin lífi, að hver og einn taki heilshugar við því umboði sem honum er af Guði gefið til að vera hann sjálfur, hún sjálf, í sannleika og frelsi. GT hvetur til valddreifingar og NT til valdeflingar.

Eitthvert misskildasta og misþyrmdasta hugtak Biblíunnar í dag er guðsótti. Það halda flestir að guðsótti sé það að vera hræddur við Guð á sama hátt og maður óttast reitt fólk, óblíða náttúru eða ill örlög.  Nú ætla ég að lesa lexíu dagsins þar sem Móse er í miðjum klíðum að leggja þjóðinni lífreglurnar sem hún skuli halda þegar hún verði komin í fyrirheitna landið og búin að stofna þjóðfélag. Þar er talað um Guð sem ógnvald og fólk hvatt til að óttast hann. Taktu eftir því hverjum þessi Guð hótar og hverja hann ver: „Því að Drottinn, Guð ykkar, er Guð guðanna og Drottinn drottnanna. Hann er hinn mikli Guð, hetjan og ógnvaldurinn, sem gerir sér engan mannamun og þiggur ekki mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði. Þið skuluð því sjálfir elska aðkomumanninn því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi. Þú skalt óttast Drottin, Guð þinn. Þú skalt þjóna honum, vera honum trúr og sverja við nafn hans. Hann er þinn lofsöngur og hann er þinn Guð sem hefur unnið fyrir þig öll þessi miklu og ógnvekjandi verk sem þú hefur séð með eigin augum. Þegar forfeður þínir héldu niður til Egyptalands voru þeir sjötíu að tölu en nú hefur Drottinn, Guð þinn, gert þig að fjölda til sem stjörnur himinsins.” (5. Mós 10.17-22) Munaðarleysinginn, ekkjan og aðkomumaðurinn sem hér eru sérstaklega tínd til ganga líkt og rauður þráður í gegnum allt GT þegar lagðar eru línurnar um gott siðferði, góðan sið í landi. Munaðarleysinginn, ekkjan og aðkomumaðurinn áttu það sameiginlegt í hinu forna hebreska samfélagi að eiga sér engan málsvara, skorta tengslanet. Og Guð tekur sér stöðu með þessu fólki gegn hverju því valdi sem hundsar kjör þeirra og líf. ‘Guð guðanna og Drottinn drottnanna, hinn mikli Guð, hetjan og ógnvaldurinn, sem gerir sér engan mannamun og þiggur ekki mútur’- þessi guð er á öllum öldum bandamaður þeirra sem skortir tengslanet. Svo einfalt er það. Í okkar íslenska samfélagi eru ekkjur ekki endilega sá hópur sem helst skortir tengslanet og standa halloka. Okkar þjóðfélag kann all vel að standa með syrgjendum og fjárhagur fólks sem missir maka sína er ekkert alltaf í rúst. En hvernig skyldi vera að vera útlendingur á Íslandi? Af hverju hópast útlenskar fjölskyldur í ódýrustu íbúðirnar í borginni svo að það eru byrjuð að myndast gettó? Ég tek þetta eina dæmi. Sá guðsótti sem rætt er um í lexíu dagsins hvetur okkur til að opna samfélagið fyrir aðkomumanninnum og öllum öðrum sem ekki hafa viðunandi tengslanet svo að lífið megi þróast fallega. Aflið sem safnar sjálfu sér og í sífellu flokkar fólk og þrýstir þeim máttvana út á jaðarinn, hrokavaldið, það afl má hræðast Guð. En guðsótti þeirra sem þrá réttlætið er feginsótti. Feginsótti. Á sömu nótum talar Páll postuli í pistli dagsins þegar hann leitast við að valdefla áheyrendur sína og hvetur þá til að vera sjálfstæðir siðferðislegir gerendur í eigin tilveru: „Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum. Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi. Leitið ekki hefnda sjálf, mín elskuðu, látið reiði Guðs um að refsa eins og ritað er: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,“ segir Drottinn. En „ef óvin þinn hungrar þá gef honum að eta, ef hann þyrstir þá gef honum að drekka. Með því að gera þetta safnar þú glóðum elds á höfuð honum.“ Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.  (Róm 12.16-21) Á sama hátt og guðóttinn skýtur öllu hrokavaldi skelk í bringu en heldur uppi hag þeirra sem skortir tengslanet, þannig gefur guðsóttinn þeim sem trúir frelsi frá reiðinni og hefndinni. Sá sem treystir Guði má bera sama hug til allra, þarf ekki að iðka stórlæti en getur fúslega samsamað sig þeim sem minnst megna. Þvert á viðteknar hugmyndir nútímans er guðsóttinn sem Biblían mælir svo sterklega með hagnýt þekking og farsæl lífsafstaða sem samfélag dagsins í dag þarf mjög á að halda. Guðsótti er valddreifing og valdefling í senn.  Guðsótti veldur því að glígjan hverfur úr augum okkar frammi fyrir öllu frægðar- og hefðarvaldi.  Guðsótti er feginsótti. Sá sem á guðsótta skelfist ekki hið saman safnaða vald en elskar að dreifa því til þeirra sem þurfa að nota það. Sá sem á guðsótta getur hvorki horft niður á neinn eða upp til neins því hann veit í hjarta sínu að allt vald er hjá Guði.  Þannig frelsar trúin á guðinn sem gerðist maður í Jesú Kristi einstaklinga og samfélög frá trúnni á valdið sem stærir sig og eignar sér lönd og lýð.  Því að Drottinn, Guð okkar, er Guð guðanna og Drottinn drottnanna. Hann er hinn mikli Guð, hetjan og ógnvaldurinn, sem gerir sér engan mannamun og þiggur ekki mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði. Hversu fegin megum við vera að eiga kross í okkar fána og sálm sem þjóðarsöng? Amen.

Textar:

5.Mós 10.17-21 Róm 12.16-21 Matt 8.1-13