Nýbúi úreltur?

Nýbúi úreltur?

Stundum gerist það að starfsfólk við kvikmyndagerð eða frá sjónvarpsstöðum hringir í mig eða í vini mína og segir; „okkur langar til að fá „nýbúa“ fyrir þáttinn okkar. Geturðu bent á einhvern?“. Þá spyr ég hvort hægt sé að takmarka hvers konar „nýbúa“ það langar í, frá Kína, Nígeríu eða Póllandi?
fullname - andlitsmynd Toshiki Toma
21. mars 2002

Stundum gerist það að starfsfólk við kvikmyndagerð eða frá sjónvarpsstöðum hringir í mig eða í vini mína og segir; „okkur langar til að fá „nýbúa“ fyrir þáttinn okkar. Geturðu bent á einhvern?“. Þá spyr ég hvort hægt sé að takmarka hvers konar „nýbúa“ það langar í, frá Kína, Nígeríu eða Póllandi? Svörin eru næstum alltaf þau sömu „okkur vantar nýbúa frá Asíu eða Afríku“. Það kennir okkur hvað þetta orð einkennist mikið af sjónarþættinum, s.s. af útliti fólks. Er þetta bara vegna þess að starf kvikmyndargerðar eða sjónvarpsstöðva er sérstaklega nátengt við hið sjónræra í eðli sínu? Eða er þetta einkenni að finna víðar í þjóðfélaginu?

Nýbúi verður til

Orðið „nýbúi“ fæddist í íslensku þjóðfélagi á síðasta áratug. Mér skilst að þetta orð hafi verið búið til í þeim tilgangi að benda á fólk sem er af erlendum uppruna á fallegan hátt í staðinn fyrir að nota orðið „útlendingur“ eða „innflytjandi“ sem hljóma köld eða eins og vörur. Í upphafi áratugsins stóðst orðið vel. Miðstöð nýbúa var stofnuð og nýbúafræðslu var komið á hjá Námsflokkum Reykjavíkur á sama tímabili. Orðið „nýbúi“ fylgdi í kjölfar breytinga í þjóðfélaginu. Engu að síður er notkun orðsins orðin svolítið öðruvísi en ætlast var til. Skilningur á orðinu „nýbúi“ og notkun orðsins skiptist a.m.k. í tvennt. Annað er skilgreining í nýbúafræðslu eða skólakerfinu og hitt er almenn notkun í þjóðfélaginu sem er undir miklum áhrifum frá fjölmiðlum.

Nýbúi í fræðslusamhengi

Í fyrstu er „nýbúi“ skilgreindur í nýbúafræðslu sem einstaklingur sem hefur annað móðurmál en íslensku. Þess vegna vísar „nýbúi“ til allra barna sem eiga annað móðurmál en íslensku í skólakerfinu, án tillits til þess hvaðan þau koma upphaflega. Þetta er ágæt skilgreining sem ég er jákvæður gagnvart. Mig langar til að benda á tvö atriði um þessa skilgreiningu. Þau eru; a) þessi notkun er mjög sérfræðileg og nátengd við kennslu. b) skóli er smásamfélag þar sem allir þekkja alla. Í skólum eru samskipti með upplýsingum um sérhvern einstakling. Þess vegna er hægt að skilgreina hverjir eru nýbúar og hverjir ekki. Enda er þetta að mínu mati mjög takmörkuð notkun orðsins.

Nýbúi í þjóðfélaginu

Aftur á móti virkar ekki slíkt einstakt upplýsingarkerfi í þjóðfélaginu eins og í skólum. Þótt Ísland sé smáþjóð eru flestir á götum borgarinnar ókunnugir. Í slíkum aðstæðum er það mjög algengt að maður byrji að flokka menn í kringum sig á einhvern hátt; eins og t.d. „gott fólk“ eða „framandi fólk“. Önnur orðanotkun „nýbúa“ tengist við þennan almenna málaflokk. Ólíkt því sem gildir í skólum á orðið „nýbúi“ eingöngu við útlendinga sem eru aðgreinanlegir í útliti, eins og fólk frá Asíulöndum eða Afríkulöndum. Evrópabúar teljast ekki lengur hér með, því „venjulegur“ Þjóðverji er óaðskiljanlegur frá Íslendingum á þennan hátt. Því miður sýnist mér að þessi merking sé algengari í hefðbundinni notkun orðsins „nýbúi“.

Orð sem speglar

Orðið „nýbúi“ sjálft er hlutlaust. Ef þetta orð bendir í alvöru eingöngu, eða a.m.k. aðallega, á fólk sem er með öðruvísi útlit en hefðbundin mynd Íslendinga, þá verðum við að skynja viðhorf samfélagsins sem hefur leitt orðanotkunina í þá áttina. Orðanotkun hefur viðhorf notenda að baki. Orðanotkun endurspeglar hugmynd samfélags um ákveðið málefni. Það þýðir ekki að viðkomandi viðhorf sé alltaf skýrt og meðvitað fyrir notendur orðsins. Kannski eru þau frekar dulin eða ómeðvituð. Þess vegna er það nauðsynlegt að reyna að skynja þau og skilja hvað þau eru í raun.

Etnísk sjálfsvörn - fordómar

Ég tel að ástæða þess að orðið „nýbúi“ bendir á fólk með öðuruvísi útlit en „venjulegir“ Íslendingar sé etnísk sjálfverndarkennd Íslendinga, sem þeir læra til að halda í sameiginlega þjóðerniskennd. Hún er ótti um að mæta manni sem talar öðruvísi tungumál, sem trúir á öðruvísi guð eða sem er með öðruvísi siðvenju. Etnísk sjálfverndarkennd finnur fyrst og fremst fólk með öðruvísi útlit til að aðskilja það frá sínum hópi. Síðan finnur hún þá sem tala ekki sama tungumál o.s. frv. Varðandi fólk frá Asíu og Afríku blandast þessi etníska vitund saman við staðalmynd sem lítur á það sem fátækt og ómenntað fólk og mótar fasta fordóma. Að þessu leyti er orðið „nýbúi“ fordómafullt orð. Sá sem skynjar ólýsanleg leiðindi þegar hann er kallaður „nýbúi“ er ekki aðeins ég sjálfur, heldur margir. „Okkur langar í nýbúa“. Hver getur sagt að slík tjáning sé ekki fordómafull?

Nýbúavíddir

Nú langar mig til að benda á athugaverð atriði um notkun orðsins „nýbúi“. 1. Hver sem ástæðan er, þá er ekki rétt að flokka fólk eftir útliti þess og nota yfir það sérstak orð. 2. Orðið „nýbúi“ gengur fram hjá þeirri staðreynd að á Íslandi búa mörg ættleidd börn eða fólk af erlendum uppruna sem eru þegar Íslendingar. Hvað þýðir orðið „nýbúi“ fyrir þau? 3. Margt fólk sem er af erlendum uppruna segist ekki vilja vera kallað „nýbúi“.

Ég ítreka að segja það til að forðast að valda misskilningi, að ég segi ekki að notkun orðsins „nýbúi“ sé alltaf vond. Ég segi ekki að allir sem nota orðið „nýbúi“ séu fordómafullir. Eins og í skólum er orðið „nýbúi“ notað til að bæta aðstæður fyrir fólk af erlendum uppruna á ýmsan hátt. Ég þekki margar góðar manneskjur sem nota þetta orð án fordóma. Engu að síður er það líka satt að þetta orð er notað oft á afar fordómafullan hátt við aðrar aðstæður.

Úrelt orð

Það er eðli samfélaga að breyta tiltekinni orðanotkun og skipta út orðum. Það sem er heimilt þegar samfélag er ekki búið að læra um ákveðið málefni getur orðið óheimilt þegar það er búið að læra nóg. Með því að hugsa um orð og notkun þess þróast samfélagið sjálft líka. Um málefni kynþáttafordóma eða um málefni fatlaðra eru mörg slík dæmi til staðar. Er ekki kominn tíminn til að endurskoða líka orðið „nýbúi“ núna? Að mínu mati er hlutverk orðsins „nýbúi“ búið. Það á að hverfa í náinni framtíð og opinberar stofnanir og fjölmiðlar eiga að sýna frumkvæði og hætta að nota þetta orð. Hvaða orð kemur þá í staðinn? Að finna rétta svarið við þeirri spurningu er okkar sameiginlega verkefni.