Ræða á hátíðinni Glæstar vonir í Þróttarhúsinu 28. september 2013
Dulræna eða mýstík er áhugaverð grein trúarbókmennta, ekki síst fyrir þær sakir að í henni kemur gjarnan fram andóf gegn ríkjandi trúarskoðunum. Í kristnum dul hefur til dæmis rödd kvenna hljómað á sama tíma og þær voru þaggaðar niður á öllum öðrum stöðum trúarkerfisins. Dulrænan getur þannig virkað eins undiralda, andóf og andhæris stroka. Hún beinis ekki endilega gegn ríkjandi trúarbrögðum, en truflar hina eintóna framsetningu forræðisins.
Mig langar að vitna til ljóðs eftir Sor Juana de la Cruz, eða systur Jóhönnu af Krossi, en eftir þá stórmerku konu liggja bæði leikrit, ljóð og guðfræðitextar. Af ástarbréfum hennar til valdamikilla kvenna í Mexíkó má milli lína lesa um samkynhneigð hennar sem hvorki kirkja né samfélag gátu samþykkt eða skilið á þeim tíma og geta varla enn. Viðhorf Jóhönnu til veruleikans einkennist af andófi gegn hinum fornu, skörpu andstæðum himins og jarðar, líkama og anda, hjarta og hugar. Í staðinn dregur hún upp myndir af guðlegum krafti, dansi, ást og blossa, sem er ekki óbreytanleg og frosin heldur tengd öllum okkar atburðum, öllum okkar sérstæða veruleika. Jóhanna yrkir um Jesúbarnið og frumefnin fjögur sem næra barnið, en að hennar tíma náttúrufræðiskilningi mynduðu frumefnin fjögur allt líf.
Þegar hríðin og hragglandinn geisa og hrekja burt kærleikann, hver kemur barni til bjargar? Vatn! Jörð! Loft! Nei, það mun Eldurinn gera.Í stað þess að tala um barnið og trúna, með orðræðu hins sterka og utanaðkomandi, sem reddar öllu ef allir fara að settum reglum, þá talar Jóhanna um kærleikann sem það sem þarf hjálp, hlýju, drykk og næturstað til þess að vaxa og dafna. Og til þess að slíkur mannkærleikur fái að lifa í samskiptum mannanna, þá sækir Jóhanna hjálp í frumefnin, í vatnið sem myndar þrjá fjórðu af líkamsmassa okkar, í eldinn sem brennur innra með okkur og milli okkar, í loftið sem við eigum sameiginleg og öndum saman að okkur, í jörðinni undir fótum okkar.Þegar barnið er veikt og vansvefta og vart dregur andann lengur hver kemur barni til bjargar? Eldur! Jörð! Vatn! Nei, það mun Loftið gera.
Þegar sækist að barninu sóttin og safnast að glóð fyrir vitum hver kemur barni til bjargar? Loft! Eldur! Jörð! Nei, það mun Vatnið gera.
Í dag þegar höfði á jörðu að halla á hvergi himnanna barn án næturstaðar hver kemur barni til bjargar? Vatn! Eldur! Loft! Nei, það mun Jörðin gera.
Jóhanna er fædd fyrir tíma nútíma mannréttindaorðræðu en samt má finna sterkan samhljóm milli þess sem hún segir og þess sem lesa má út úr mikilvægustu mannréttindabálkum nútímans. Það eru ekki girðingarnar sem gera okkur að manneskjum, ekki trúin sem við játum, liturinn á höndum okkar og andlitum, kyn okkar eða kyn þeirra sem við elskum af hjarta og sálu. Það er ekki aldur okkar sem ræður úrslitum um það hvort við séum manneskjur og elskuverð, ekki hæfi okkar eða fötlunarstig, ríkidæmi, þjóðerni eða stétt. Við erum einfaldlega öll manneskjur og óendanlega dýrmæt sem slík. Við höfum stjórnarskrárvarin réttindi til trúar og trúleysis á okkar eigin hátt, við eigum rétt á að njóta mannréttinda ferða-, félaga og tjáningafrelsis, að eiga kynverundarréttindi, að lifa án ótta við hatur og fordóma sem beint er gegn minnihlutahópum. Slík réttindi eru grundvallarréttindi, en þeim er víða gleymt í veröldinni og reisn allra manneskja er svo oft fótum troðin. Og þess vegna eru tiltekin mannréttindi ekki einhver einkamál þeirra sem mannréttindi eru brotin á og búa við undirskipun og kúgun. Þau eru líka málefni þeirra sem búa við forréttindi. Og kannski eru stærstu forréttindi lífsins þau að hafa enga hugmynd eða meðvitund um það að maður búi við forréttindi. Slíkt andóf gegn forréttindablindu og með mannréttindum þarf að eiga sér stað á öllum sviðum mannlífsins þar með talið Þjóðkirkjunni sem ég tilheyri. Þess vegna er ég glöð yfir framtaki Laugarneskirkju sem boðar til Regnbogamessu annað kvöld 29. september klukkan átta í nafni mannréttinda.
Fyrir rúmlega þúsund árum töldu menn að þeir þyrftu að velja á milli heiðni og kristni til að halda friði í landinu. Þúsöld síðar er þessi þörf til að vera eins og trúa eins ekki til staðar. Fjölbreytnin og fjölhyggjan leggur okkur flóknar og erfiðar skyldur á herðar, skyldur sem byggja á mannréttindum, manngæsku og mannvirðingu, Við viljum geta lifað saman í sátt. Við viljum geta glímt hvert við annað með því að takast á í rökræðu, gagnrýnt hvert annað, samið, eða ákveðið að vera ósammála um tiltekin atriði, í stað þess að beita valdi, útilokun, hatursorðræðu og fordómum. Þessar skyldur gera það að verkum að við verðum sem þjóð að þjálfa okkur í því að hlusta, greina og eiga saman glæstar vonir.
Mannréttindahátíðin Glæstar vonir er gott nafn. Það sem er best við nafnið er að von okkar er ekki ein, vegna þess að við erum vatn og eldur og loft og jörð og það barn sem við björgum undan hríð, sótt og þorsta kemur til okkar úr ólíkum áttum að sækja sér næturstað. Við eigum okkur ólíkar vonir og ólík viðhorf til lífsins og hjálp okkar fæðist með okkur sjálfum og í tengslunum okkar á milli. Sumir kjósa að líta á þau tengsl sem guðleg, önnur ekki. Og það er allt í lagi.
Hver kemur barni til bjargar? Megi vatnið í æðum okkar sem Jóhanna af Krossi yrkir um, eldurinn í brjóstum okkar, loftið sem við öndum að okkur og jörðin sem við stöndum á sem byggir með okkur glæstar vonir gegn lítillækkun, hatri og kúgun í sérhverri mynd.