Matt 14.22-33.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í dag hefjum við 40 daga andlegt ferðalag sem kallast 40 tilgangsríkir dagar. Það stendur yfir í sex vikur og er fólgið í því að taka þátt í messum á sunnudögum þar sem prédikunin fjallar um þema vikunnar, lesa bókina Tilgangsríkt líf, einn stuttan kafla á dag, og koma saman í safnaðarheimilinu á fimmtudögum kl. 18-20. Þetta er svolítil vinna en mjög gefandi. Ég hef leitt fólk í gegnum svona ferðalag sem fannst það fá mjög mikið út úr því. Hvet ykkur til að vera með. Á meðan á ferðalaginu stendur munum við notast við léttmessuformið.
Þema þessarar vikur er: Hvers vegna í ósköpunum er ég hérna? Þetta er grundvallarspurning sem við þurfum öll að takast á við. Ef við getum ekki svarað spurningunni erum við í vondum málum. Án viðunandi svars verður lífið tilgangslaust.
Þekktur heimspekiprófessor vestan hafs skrifaði 250 af þekktustu heimspekingum, vísindamönnum og andans mönnum og konum heimsins og spurði þá hver tilgangur lífsins væri að þeirra mati og setti svörin, sem voru mjög ólík, í bók. Sumir reyndu að giska á hver tilgangur lífsins væri, aðrir sögðu eins og var að þeir hefðu ekki hugmynd um það. Allmargir báðu bréfritarann um að skrifa sér um hæl ef hann finndi svarið!
Merkingarleysi þjakar marga samtímamenn okkar. Hvers vegna erum við hérna? Fyrir hvað lifum við? Hvað skiptir okkur máli? Hvað knýr okkur áfram? Er það löngunin í viðurkenningu? Er það löngun til að uppfylla væntingar annarra, foreldra, maka, kennara, vina, starfsfélaga, fjöldans? Er það löngunin í metorð, völd og virðingu? Eða er það löngun til að ná árangri á eitthverju sviði, verða bestur, dáður?
Sumir eru knúnir áfram af sektarkennd. Reyna að bæta fyrir eitthvað sem þeim varð á í fortíðinni. Stjórnar hún okkur? Rænir hún okkur gleðinni? Erum við að reyna að vinna okkur inn punkta til að standa betur að vígi við Gullna hliðið?
Vegfarendur í Helsinki, sem spurðir voru um tilgang lífsins, gáfu mjög ólík svör. Einn sagði að tilgangurinn væri að komast að því hver hann væri, ýmsir að það væri kærleikur, aðrir að hann væri að skemmta sér, njóta lífsins, trúa á Guð, en flestir sögðu að það væri að verða hamingjusamur. Ég held að við getum tekið undir mörg af þessum svörum og öll viljum við vera hamingjusöm.
Sjálfshjálparbækur benda yfirleitt á að lykillinn að lífinu sé fólginn í því að láta drauma sína rætast.
Margir á Íslandi eiga erfitt með að svara almennilega spurningunni um tilgang lífsins. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að sjá tilgang með lífi okkar og starfi. Á því byggist lífslöngunin. Það er mjög þungt að lifa án þess að hafa eitthvað til að lifa fyrir. Margir eru þjakaðir af dimmum hugsunum. Finnst þeir ekki nógu flottir, vinsælir eða vel heppnaðir. Þeir fara að trúa því að ekkert geti gengið upp fyrir þeim. Sumir ganga svo langt að einangra sig, loka sig af. Þeir sjá ekkert ljós, eiga enga von. Hversu mörg sjálfsmorð á Íslandi skyldu eiga sér þá orsök fólk eygir ekki tilgang með lífinu? Sjálfsmorð eru orðin önnur algengasta orsök dauða táninga í skólum Bandaríkjanna. Spurningin um tilgang lífsins leitar á alla, e.t.v. missterkt eftir aldursskeiðum. Hún leitaði mjög á mig þegar ég var unglingur. Tilhugsunin að vita ekki hver hann væri var skelfileg.
Samkvæmt efahyggju samtímans, svo kölluðum postmodernisma, er það dyggð að efast um allt sem er viðtekið, grundvöll vísinda, almenn gildi, trú og hefðir. Ekkert er algilt, allt er véfengt. Það er gott í vísindum veikleiki efahyggjunnar er að hún veitir engin svör. Þannig er samtími okkar. En það er grundvallarþörf mannsins að lifa við öryggi, eiga grundvöll til að byggja líf sitt á. Sumir reyna að skapa tilgang með því að búa sér til guði með þeim eiginleikum sem hentar þeim, þ.e. að skálda tilganginn upp, ímynda sér hver hann er og byggja líf sitt á þeirri blekkingu. Þetta er í samræmi við boðskap sumra sjálfshjálparbóka. Sumir heimspekingar segja að tilgangur lífsins sé að haldast á lífi, aðrir að hann sé að viðhalda mannkyninu. Nautnahyggjumenn segja að hann sé að nautnast, lifa lífinu og vera í stöðugu partýi. Efnishyggjumenn segja að tilgangur lífsins sé að safna efnislegum verðmætum og verða ríkur.
Mörgum finnst þeir komast í snertingu við Guð úti í náttúrunni v.þ.a. hún er svo stórkostleg. Þekktur vísindamaður frá Nýja-Sjálandi komst að þeirri niðurstöðu að „öll þekking lífsvísinda styðji þá niðurstöðu … að heimurinn sé hannaður sem heild þar sem lífið almennt, og mannkynið sérstaklega, er markmiðið og tilgangurinn með gerð hans. Hann er heild,“ segir hann, „þar sem allir þættir hafa hlutverk út frá þessum tilgangi.“ Þegar sköpunarverkið er skoðað má spyrja: Skyldi maðurinn einn vera utan samhengis náttúrnnar og sköpunarverksins án hlutverks eða tilgangs? Er hann feilnóta í sinfóníunni? Skyldi öll þessi snilld og undur hafa orðið til af sjálfu sér, fyrir misskilning, tilviljun?
Heimspekingurinn og alfræðingurinn Bertrand Russel sagði: „Án Guðs hefur tilveran enga merkingu.“ Ef Guð er ekki til erum við öll slys. „Maður án tilgangs er eins og skip án stýris, heimilislaus umrenningur, mannleysa,“ sagði annar vís maður.
Það eru í grundvallaratriðum tvenns konar svör við spurningunni „Hvers vegna í ósköpunum er ég hérna?“ Í fyrsta lagi ágiskun af einhverju tagi. Í öðru lagi getum við spurt skaparnn. Í tvöfalda kærleiksboðorðinu segir að við eigum að elska Guð af öllu hjarta okkar, allri sálu okkar, öllum huga okkar og öllum mætti okkar en einnig að gefa af okkur og elska náungann eins og sjálf okkur. Guð skapaði heiminn og setti manninn í miðju hans sem ráðsmann. Hvað þýðir það fyrir okkur? Það þýðir að Guð skapaði mig og þig v.þ.a. hann vildi félagsskap, eignast vin til að deila lífi sínu með. Hefur þú nokkurn tíma hugsað um Guð út frá þessu sjónarhorni? Hann skapaði þig til að elska, deila hjarta sínu með. Þú varst skapaður til þess að Guð gæti glaðst yfir þér, fagnað yfir framförum þínum á hans vegi, öllu sem gengur þér í haginn? Hann skapaði þig til að blessa þig, leiða þig áfram til velfarnaðar. Í sögunni af týnda syninum er sagt frá ungum manni sem leiddist á glapstigu og sólundaði föðurarfinum í vitleysu. En samt þótti föður hans svo vænt um hann að hann skimaði út á veginn á hverjum degi í von um að hann sneri heim þrátt fyrir allt. Hann lifði í voninni. Þegar hið ólíklega gerðist, að hinn horfni sonur sneri heim, varð hann svo glaður að hann tjáði gleði sína með því að slá upp dýrindis veislu þar sem engu var til sparað. Hann varð að fá að deila gleði sinni með öðrum. Kannist þið við þessa tilfinningu þegar eitthvað gleður ykkur, að ykkur finnst þið verða að fá að deila því með öðrum? Samt hafði sonurinn brennt allar brýr að baki sér með framkomu og lífi sem var óhæfa í þjóðfélagi þeirra.
Jesús sagði að Guð héldi veislu af þessu tagi þegar syndari sneri sér til hans. Hann gerir það líka þegar við snúum okkur til hans, sem sýnir hve dýrmæt við erum í augum hans og hve þrá hans eftir sambandi við okkur er sterk. Þú ert ekki feilnóta, misskilningur eða slys heldur skapaður til að vera sálufélagi Guðs og samverkamaður. Þú varst í huga hans áður en grundvöllur heimsins var lagður (Ef. 1,4). Í hans augum ertu flottur, flott og eftirsóknarverð. Öll velgengni er gjöf frá honum. En það er þó ekki tilgangur lífsins. Ég lauk doktorsprófi fyrir nokkrum árum. Var mörg ár að vinna að henni. Þá rættist gamall draumur sem gaf mér mikið. En þetta er samt ekki lífið eða tilgangur þess. Fyrir mér er mesta gjöfin og dýpsta merking og gleði lífsins fólgin í því að þekkja Jesú Krist, hafa hann sem sálufélaga, njóta kærleika hans og handleiðslu og þjóna honum.
Í Prédikaranum segir: „Allt hefir hann gjört hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra.“ Í sálum allra manna er tómleiki, þorsti, þrá eftir einhverju sem þeir vita ekki hvað er. Það er þráin eftir Guði, eilífðarþorstinn sem er þar vegna þess að við erum sköpuð til að lifa um eilífð. Við kristið fólk eigum loforð Jesú um upprisu frá dauðum og eilíft líf.
Hver er tilgangur lífs þíns? Að Jesús Kristur verði hluti af lífi þínu. Án hans erum við ekki að fullu sköpuð. Guð gaf þér frjálsan vilja og sjáfstæða hugsun. Hann fól þér ábyrgð á eigin lífi. Þó að hann þrái að eiga þig sem sálufélaga, þrengir hann sér ekki upp á þig en er tilbúinn hvenær sem þér þóknast að opna líf þitt fyrir honum. Þá er hann eins og faðirinn, tilbúinn að hlaupa af stað til þín og falla um háls þér eins og hann. Kærleikur hans til þín er stöðugur og óbilandi! Ekkert gefur okkur eins mikið grundvallartraust á tilverunni og merkingu á að hún hafi tilgang. Hann gefur okkur tækifæri til að lifa með honum og fyrir hann.
Textarnir í dag fjalla um það er fólk áttar sig á að Guð er til í alvörunni, að það er hægt að tengjast honum og að hann svarar bænum okkar. Guðspjallið fjallar um Pétur sem tók þá brjáluðu ákvörðun að biðja Jesú um að leyfa sér að ganga á vatni. Hann fékk að prófa það, áður enn efinn tók yfir. Ég dáist að Pétri. Hann tók Jesú á orðinu, hlýddi honum og fékk að reyna að það virkaði. Við getum líka fengið að reyna það. 40 daga ferðalagið sem framundan er hjálpar okkur uppgötva þetta.
Fátt er eins lútherskt og hið almenna prestsdæmi. Það gengur út á að allir kristnir menn eru prestar. Við erum öll samverkamenn Guðs, hvert á sinn hátt. Presturinn í kirkjunni gegnir bara sértæku hlutverki, t. d. að prédika og veita sakramentin en er í sjálfu sér ekkert meiri prestur en þið. Ég lít f.o.f. á mig sem verkstjóra til að stuðla að því að sem flestir almennir prestar safnaðarins geti rækt þjónustu sína. Við munum læra heilmikið um þetta á næstu sex vikum.
Jafn óbærilegt og lífið er án tilgangs getur maður þolað næstum hvað sem er eigi maður hugsjón til að lifa fyrir.
Með því að lifa bænalífi, lesa í Guðs orði og sækja fundi lærisveina Jesú Krists styrkist meðvitund okkar um nærveru hans í lífi okkar.
Takið postulegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.