Sú skoðun virðist útbreidd að engin þekking sé sönn nema hún hafi vísindalegan grunn. Það óvísindalega er grunsamlegt í okkar eyrum, ótraust og hefur á sér yfirbragð blekkingar, því okkur finnst að eina leiðin að sannleikanum sé með aðferðum vísindanna. Þess vegna er trú og vísindum gjarnan stillt upp sem andstæðum. Sumir vísindamenn eru í krossferð gegn trúarbrögðunum og sumir trúmenn hafa sagt vísindunum stríð á hendur.
Auðvitað eru vísindin ein leið til að þekkja hlutina. Þau eru mikil og þakkarverð Guðs gjöf og hafa fært manninum mikla blessun.
En þau eru mannanna verk og undir sömu rök seld og önnur slík. Sannleikur vísindanna er til að mynda ekki endanlegur. Hann breytist. Ekki er langt síðan Plútó missti stöðu sína sem níunda reikistjarnan frá jörðu og sú sem er lengst frá plánetunni okkar, svo dæmi sé tekið. Vísindin eru augu okkar og eyru en oft eru hlutirnir ekki eins og við sjáum þá eða heyrum þá.
"Gnóthí seáton" eða "þekktu þig sjálfan" sögðu Grikkir til forna. Síðan hefur margt gerst og mannkyninu fleygt fram. Nú vitum við alveg ótalmargt sem hinir gömlu Grikkir vissu ekki. Getum við þá fullyrt að þeir hafi ekki þekkt sig jafnvel og við? Þekkir nútímamaðurinn sjálfan sig betur en forverar hans? Hvað um hin gömlu meistaraverk bókmenntanna, sem mörg bera vott um djúpa og hispurslausa sjálfsþekkingu höfunda? Og þekki nútímamaðurinn sig betur en fólk á fyrri tíð, hvernig stendur þá á því að við virðumst sífellt firrtari okkur sjálfum, erum sjálfum okkur framandi, þekkjum ekki hver við erum? Hvernig stendur þá á því að margir telja sjálfsfirringu mannsins einn helsta vanda okkar upplýstu tíma?
Vísindin geta svarað ýmsu um okkur en þau svipta ekki hulunni af okkur í eitt skipti fyrir öll. Fólk sem ekkert kann fyrir sér í vísindalegum aðferðum getur öðlast mikla sjálfsþekkingu. Hálærðir vísindamenn geta á sama hátt verið sjálfum sér gjörsamlega firrtir.
Vísindin eru alveg mögnuð. Þau eiga svör við mörgu en leysa ekki allt. Þau svara til dæmis engu um margt af því sem varðar manninn mestu.
Vísindin geta stundum hjálpað okkur að finna hvað við þurfum. Þau eru samt frekar máttlaus í því finna hvað við viljum. Sá veit hvað hann vill sem þekkir sig sjálfan.
Kannski þess vegna reynist svo auðvelt að telja upplýstu nútímafólki trú um að það þurfi ýmislegt sem það vill ekki eða vilji eitthvað sem það í raun og veru hefur enga þörf fyrir.