Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar. Símon svaraði: Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna.Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður. En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða. Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum. Lúk. 5. 1 – 11
Bæn.
Vertu Guð faðir faðir minn í frelsarans Jesú nafni hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.
Heilagi faðir helga þú oss í sannleikanum. Þitt orð er líf, andi og sannleikur. Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði föðru og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Kæri söfnuður.
Nú bar svo til. Svona byrjaði guðspjallið. Eins og í föstum takti eða hrynjandi árstíðanna koma sunnudagsguðspjöllin til okkar. Hrynjandi þeirra er aldeilis alveg óháður annarri hrynjandi hins daglega lífs eða umhverfis, en getur þó sannarlega hljómað fullkomlega við hið ytra samhengi. Þannig er mikið vatn í guðspjalli dagsins eins og verið hefur undanfarna daga hjá okkur, - þótt það sé auðvitað verulegur munur á því hvort vatn er kyrrt á sínum stað eða hellist yfir mann.
Guðspjallið í dag er okkur vel kunnugt og verður þó seint predikað til fulls, vegna þess að í því talar Jesús Kristur sjálfur, hér og nú og´á hverjum tíma. Þess vegna hlýtur að leita á hugann um leið og við heyrum guðspjall dagsins og njótum þeirrar friðsældar sem það gefur okkur, hversu skelfilegt ástand ríkir einmitt á þessum forðum þekktu slóðum jarðvistar Jesú Krists. Það er ekki elska hans sem ræður. Þó að við séum ef til vill ekki mjög fróð um raunverulegt ástand eða ástæður þess, getum við ómögulega horfið frá þeirri megin hugsun að það sé ekki hægt að tryggja frið með ófriði. Ef það er reynt þá einungis í þeim tilgangi að drepa og hrekja burtu meinta andstæðinga. Og ofbeldi verður heldur ekki kveðið niður með ofbeldi. Það þarf ekki að lesa margar blaðsíður í mannkynssögunni til að læra það. Það þarf heldur ekki að lesa lengi til að sjá að þegar þriðji aðili ákveður að lausn vandans sé sú að annar stríðsaðilinn hætti að berjast og bíði bara þess sem koma vill og þá sé stríðinu lokið, þá sé sú tillaga ekki byggð á miklum gáfum.
En guðspjallið í dag sem sannarlega snertir heimspólitíkina gerir það algjörlega á sínum eigin forsendum. Það er sem betur fer heldur ekki hið fyrsta hlutverk predikarans að reyna að finna lausnir á vandamálum samtímans í ljósi guðspjallsins
Það er miklu fremur hlutverk hans að leggja guðspjallið út til samtímans svo að heyrendurnir geti sjálfir á grundvelli guðspjallsins fengið leiðsögn eða áminningu til þess að leysa þau mál sem að ber og við nálgumst hvert og eitt með ólíkum hætti.
Hvert er megininntak guðspjallsins? Yfirskriftin er: Fiskidráttur Péturs.
Ég get ekki neitað því að mér brá dálítið þegar ég las það í ágætri guðfræðirannsókn þessa guðspjalls eftir Nýjatestamenntisfræðinginn og biskupinn Wilhelm Stählin, að þessi yfirskrift: Fiskidráttur Péturs væri varasöm, sérstaklega fyrir börn og unglinga. En það eru einkum þau sem lesa millifyrirsagnirnirnar með textanum, eins og þær væru hluti hans eða inntak hans.
Og hversvegna er þetta varasamt? Jú, það er vegna þess að þar með er sneitt hjá aðal boðskap textans, sem er köllun fiskimannanna við Galileuvatnið og einkum köllun Símonar Péturs til að vera lærisveinn og postuli.
Okkar umhugsunarefni er því þetta: Hvað má læra af köllum Péturs um okkar eigin köllun til eftirfylgdar?
Hver sá sem staðnæmist við hinn undursamlega fiskidrátt getur lent á villigötum. Hann getur í fyrsta lagi festst í útskýringum á kraftaverkinu sjálfu: Netið fyllist af fiski þótt áður hafi verið ördeyða á sama stað. Hvað þýðir það? Eða hann sér í þessu fyrst og fremst þá þá blessun sem fylgir því að sinna störfum sínum í trú og í hlýðni. Það er siðræn leið og alþýðleg og sérstaklega hagnýt, en algjörlega fjarri því sem er kjarni málsins. Um þetta allt má sjá dæmi í predikun kynslóðanna.
Hinn undursamlegi fiskidráttur er ekki dæmisaga eða líking í venjulegri merkingu, heldur framúrskarandi dæmi um líkinga verk.
Jafnframt er guðspjallið eins og staðfesting á tengslum starfs og köllunar. Vísa má til þess að á tungu siðbótarmannsins Lúthers heitir starf Beruf, en köllun Berufung.
Símon Pétur og félagar hans sjá í guðspjallinu sín daglegu störf og verkefni í nýju ljósi. Það er eins og hulu hafi verið svift af þeim. Þeir sjá þjónustu og fyrirheit postulans í líkingu af sínum eigin hversdagslegu störfum. Hin ytri skilyrði undristrika hið undursamlega: Jesús sagði þá við Símon: Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða. Og hann sér ,ef svo má segja, þar með hið andlega innihald þessa hversdaglsga gjörnings að varpa út neti.
Köllunin verður til með venjulegum og skiljanlegum atburði sem sannfærir þá sem í hlut eiga.
Reyndar er það sem gerist og umbúnaður þess sem það gerist í af þerirri tegund að Símon Pétur, sem málið snýst fyrst og fremst um, bregst ekki við eins og kannski mætti búast við. Hann lyftist ekki allur upp í sjálfsvitund sinni eða fær vængi eins og maður segir stundum, við þennan mikla árangur að hafa fengið stórt embætti, heldur er það miklu fremur þannig að hann brotnar saman og verður alveg hjálparvana og alveg óverðugur fyrir framan Herra sinn.
En einnmitt þessi örvæntingarfulli maður með skekkta og brenglaða sjálfsmynd og hrædda samvisku , hann er kallaður til postula og skal alla ævi þaðan í frá gera og reyna það sem hann einmitt er að gera, steinhissa og ringlaður og hálfvegis gegn vilja sínum í sínu daglega striti.
Að veiða. Að voga. Að strita.
Það sem hér gerist við Geneseratvatnið er einstakt og óviðjafnanlegt. Það þarf alls ekki að draga neina dul á það þó að bent sé á að í þessari frásögn endurspeglist öll reynsla kirkjunnar og reynsla hins venjulega kristna manns.
Köllunin til eftirfylgdar við Krist gerist ekki með útskýranlegum rökum um grundvöll kristnilífsins og með sannfæringarkrafti, heldur fyrst og fremst með því að það gerist eitthvað, sem er gjarna ekki í neinu samhengi við það sem vænst er eða líkindi eru til, eða getur með nokkrum hætti verið skilgreint sem árangur mannlegs erfiðis.
Og þar sem það gerist, er alveg eins líklegt að sá eða sú sem í hlut á upplifi auðmýkingu, glati öryggi sínu og finnist sem hann eða hún geti ekki haldið út í sterkri nálægð hins heilaga. Maður glúpnar. Maður bráðnar eins og vax við hita.
Hin raunverulega köllun felst ekki í því að uppgötva að loksns heppnist manni eitthvað! Hún felst miklu fremur í því þegar sá sem í hlut á mætir í fullu trausti og gegn allri skynsemi þeim mætti sem sigrar hann og lætur hann skammast sín fyrir það sem áður var. Í hinni raunverulegu köllun er manneskjan gerð að þjóni Guðs og verkfæri hans.
Ein afleiðing þessarar túlkunar guðspjallsins er að við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu hvernig slíkt getur skeð í okkar eigin guðsþjónustu, í starfi með unglingum og jafnvel börnum, þar sem við sjálf og áheyrendur okkar verða gagntekin af boðskap og nærveru Krists með þeim hætti að ekkert annað kemur til greina en að leita leiða til að komast í starf hjá kirkjunni, eða voga að verða kristniboði eða sinna þjónustu kærleikans.
Kannski verða miklu fleiri slík undur mitt á meðal okkar en við vitum um. Líkast til miklu fleiri.
Það mörg dæmi um að fólk telji eitthvað sem við höfum sagt, hafi breytt lífi sínu, en við munum alls ekki eftir því að hafa sagt það. Hvernig starfar heilagur andi? Veit það einhver? Já. Sá sem hann hefur snortið.
En vonandi verður það seint að það komi auglýsing á kirkjudyrnar þess efnis að hér starfi heilagur andi með undrum og stórmerkjum. Og þó gerir hann það.
Það er stórt bil, jafnvel gjá, á milli raunverulegrar, ekta andlegrar köllunar og sjálfvaldrar og sjálfsánægðar Guðsríkis - starfsemi, og gagnvart sérhverri kristilegri auglýsingamennsku þar sem fólk er annað hvort veitt, eða ekki innanborðs á skipinu.
Kæri söfnuður.
Um það má lesa í bókum að samkvæmt guðspjalli dagsins megi lýsa köllun lærisveinsins til eftirfylgdar við Jesú Krist í fimm þrepum. Það gerir t.d. áðurnefndur Wilhelm biskup í sinni bók.
Hið fyrsta er lítil og að því virðist hversdaglseg þjónusta sem Símon Pétur er beðinn um. Leggðu lítið eitt frá landi. Og því hlýðir hann.
Svo verður staður hinnar jarðnesku þjónustu og brauðstritsins að stað predikunarinnar um Guðsríki. Með því að það er Kristur sjálfur sem talar dregst hann inn í leyndardómsfulla atburðarás sem tekur ráðin af honum. Og svo djúpt sest predikunin um ríkið sem Jesús flutti úr bátnum að í honum, að hann er tilbúinn til þess að hlýða honum samkvæmt orði hans, þó að hann sé úrvinda af þreytu eftir sína vonlausu iðju alla nóttina, og þó að hin einkennilegu tilmæli stríði gegn allri hans skynsami og reynslu. Með því að reyna miskunn Guðs og mátt hans hans verður honum ljós fjarlægðin sem skilur hann frá Drottni, og nálægð hins heilaga skelfir hann. Hún veldur frekar löngun til flótta en að dvelja nær og njóta hennar. Þá er hinn auðmjúki að nýju settur til þjónustu. Það er önnur og stærri þjónusta. Þó er hinni fyrri ekki hafnað eða yfir hana strikað, heldur breytist hún yfir á æðra stig. Net fiskimannsins verður að táknmynd fyrir það net sem í predikun kirkjunnar er kastað út. Og einmitt með tilliti til þess er gefið hið mikla fyrirheit: Þeir fylltu báða bátana. Þeir yfirgáfu allt og fylgdu honum.
Það er nú svo að við sem hér erum höfum ýmsum störfum að gegna, og höfum gegnt ýmsum störfum. Við eigum ýmislegt sameiginlegt. Og alveg áreiðanlega eitt: Viljann til að taka undir orðin: Samkvæmt orði þínu vil eg leggja út netið. Og áminningin er þessi: Ekki missa af samhenginu milli þinna hversdagslegu starfa og köllunar Krists.
Við höfum sungið þennan undursamlega sálm : Legg þú á djúpið. Við ættum að syngja hann aftur þegar við komum heim, og lesa lestrana alla aftur. Þeir eru tilgreindir á messublaðinu.
Legg þú á djúpið, ó, þú sál mín auma, en eftir skildu hégómlega drauma, þeir sviku þig, og sjá, þinn afli brást. Á djúpið út, það kvöldar, Jesús kallar, því kvitta vill nú syndir þínar allar Guðs eilíf ást. (Sb. 182. Matthias Jochumson).
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda,svo sem var í upphafi er enn og verður aldir alda. Amen.