Ekki er allt sem sýnist

Ekki er allt sem sýnist

Borgarstjórinn í Reykjavík sagði á faceboksíðu sinni í vikunni að „mistök væru forsendur breytinga og framfara“. Og í framhaldi af því talaði hann um að stjórnmálafólk væri hrætt við að vera mistök og að því yrði að breyta. Ég er sammála þessu. En það er ekki skrýtið að þau sem kosin hafa verið til þess að stjórna landinu séu hrædd við að gera mistök. Svo mörg afgerandi mistök hafa verið gerð síðustu ár.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
15. ágúst 2010
Flokkar

„Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn“  hefðu bankastjórnendur á Íslandi alveg eins geta sagt þegar þeir lýstu yfirburðum sínum, síns fólks og sinna banka.

„Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn“  hefðu, kaupsýslumennirnir sem voru sérfræðingar í að búa til viðskiptaflækjur sem enginn skildi, eins geta sagt þegar þeir lýstu yfirburðum sínum í viðskiptum áður en allt hrundi til grunna.

Forseti Íslands hefði einnig vel getað sagt þessi orð þegar hann , í erindum sem hann flutti bæði austan hafs og vestan, nefndi tíu eiginleika sem hafi gert íslensku útrásina glæsilega. Öll þessi tíu atriði lýsa yfirburðum Íslendinga.

Það var ekki auðmýkt, heldur hroki sem einkenndi íslenska þjóðarsál á tímum útrásar og útþenslu hagkerfisins. Svo sprakk allt saman og hinn bitri sannleikur kom í ljós.

Þetta var bara bóla.

Þetta var bara blekking.

Íslendingar, íslenskir viðskiptamenn voru alveg eins og aðrir menn. Ekkert betri eða verri.

Er það kannski málið þegar allt kemur til alls?

Voru þeir bara eins og ég og þú. Er ég, sem ekki tók þátt í þessu, ekkert betri? Hefði ég alveg eins getað hrifist með ef ég hefði fengið tækifæri til þess?

Hafa útrásarvíkingarnir, kaupsýslumennirnir, banka- og fyrirtækjastjórnendurnir og stjórnendur landsins, ja allir höfundar hrunsins mikla, breyst úr því að vera faríseinn sem þakkaði Guði fyrir að hann var ekki eins og aðrir menn í það að verða sem tollheimtumaðurinn sem vissi upp á sig sökina og bað Guð um að vera sér líknsamur?

Og hafa þau sem ekki tóku þátt, þau sem ekki högnuðust og sitja nú uppi með skuldirnar og timburmennina eftir óráðsíu og hroka annarra, horfið frá því að vera hinn auðmjúki tollheimtumaður og eru nú orðin góð með sig eins og faríseinn?

Nei, ég held að þetta sé ekki alveg svona einfalt.

Höfundar hrunsins hafa ekki fundið hjá sér auðmýkt tollheimtumannsins. Í það minnsta ekki á yfirborðinu. Ég get ekki séð inn í hjarta þeirra, skoðað sjálfsmyndina en ég hef ekki séð auðmýkt eða iðrun enn þrátt fyrir að við séum komin með 9 binda rannsóknarskýrslu í hendurnar sem lýsir ósegjanlegum hroka og skáldsagnakenndri atburðarrás, já, þrátt fyrir að við vitum nokkurn veginn hvað gerðist.

Ég held að það sé styttra í hrokann nú, hjá þeim er ekki tóku þátt. Hjá þeim, að mér meðtalinni, sem voru svikin. Við höfum kannski tilhneigingu til að setja okkur á háan hest og dæma án umhugsunar öll þau er við sjálf teljum sek. En við sem hneigjumst í þessa átt höfum afsökun. Við vorum svikin. Við þurfum að greiða fyrir vítavert gáleysi annarra með blóði, svita og tárum og það án þess að nokkur viðurkenni sök eða biðji afsökunar.

Þrátt fyrir þetta er ekki gott að við förum, hvert og eitt í skotgrafirnar og skjótum á hvern þann er við persónulega teljum sekan.

Reyndar er tollheimtumaðurinn í dæmisögunni enginn sem við ættum að reyna að líkjast. Hann var í raun og veru skúrkurinn sem krafði ekkjur og fátæklinga um pening og stakk í eigin vasa á meðan börn grétu sig í svefn vegna hungurs. Hann var maðurinn sem gekk til liðs við óvininn.

Að sama skapi var faríseinn ekki vondi karlinn. Hann tilheyrði presta- og fræðimannastétt. Hann naut virðingar í samfélaginu m.a. fyrir sterka siðferðisvitund.  Hann var heiðarlegi embættismaðurinn og leiðtoginn.

Tollheimtumaðurinn var sá fyrirlitlegi  en faríseinn hinn góði.

Þannig leit þetta út á yfirborðinu en það sem Jesús er að reyna að sýna okkur er að hlutirnir eru ekki alltaf eins og þeir virðast við fyrstu sýn. Fólk er ekki alltaf eins og það virðist við fyrstu sýn.

Þau sem virðast flott og fullkomin á yfirborðinu eru það aldrei að öllu leyti og sjálfum líður þeim sjaldnast eins og annað fólk upplifir þau.

Þau sem virðast dómgreindarlaus og veikgeðja eru það ekki heldur að öllu leyti. Öll eiga þau sýna kosti og kannski hjartalag sem ekki er augljóst öllum.

Við stjórnum örlögum okkar ekki nema að litlu leyti. Við ráðum ekki við hvaða aðstæður við fæðumst eða hvernig uppeldi við fáum. Fátæk stúlka í Suður Ameríku hefur ekki sömu möguleika og hvítur karl í Evrópu.  Og íslenskur strákur sem á ógæfusama foreldra, kannski í neyslu og sem leggja á hann hendur og veita honum enga leiðsögn og eru honum ekki góðar fyrirmyndir í lífinu, á ekki sömu möguleika og íslensk stúlka sem fæðist inn í fjölskyldu reglusams fólks sem býr við þokkaleg efni og elur dóttur sína upp í ást og kærleika og hvetur hana til dáða.

Ef stúlkan, sem nú er virtur lögfræðingur, hefði fæðst inn í sömu aðstæður og drengurinn er alls ekki víst að hún hefði náð jafn langt. Og drengurinn, sem nú er atvinnulaus en þurr eftir að hafa farið í þrjár meðferðir á Vogi, hefði kannski átt öðruvísi ævi ef hann hefði fæðst inn í sömu aðstæður og stúlkan.

Það er svo auðvelt að dæma fólk eftir því hverju það hefur áorkað, hvernig það lítur út og hvernig það lifir. Og við gerum það. En Jesús hvetur okkur til að horfa framhjá þessu öllu og reyna að sjá manneskjuna eins og hún raunverulega er. Sköpuð af Guði og elskuð hver sem örlög hennar verða.

Að sjálfsögðu getum við þó öll haft einhver áhrif á líf okkar og örlög.

Við getum valið að vera hrokafull og góð með okkur. Að aldrei viðurkenna mistök og benda á aðra þegar okkur verður á.

Við getum líka valið að sýna auðmýkt þegar það á við og viðurkenna sekt okkar því öll gerum við okkur sek um eitthvað í þessu lífi. Öllum verðum okkur á mistök.

Ef höfundar hruns íslensks efnahagslífs og siðferðis vilja að fólk reyni að setja sig í spor þeirra og komi fram við þau af meiri virðingu þá hlýtur forsendan að vera sú að þau viðurkenni hlut sinn biðji íslendinga afsökunar. Og ég meina í alvöru. Ekki bara blaðagreinar sem ganga í raun út á að réttlæta það sem gerðist.

Í þessu landi ríkir réttlát reiði. Hún er réttlát og henni linnir ekki fyrr en við sjáum og upplifum breytingar á þjóðarsálinni. Henni linnir ekki fyrr en við upplifum  betra siðferði en viðgekkst á mörgum stöðum í uppganginum. Það verður að vera alveg ljóst að vinum og samflokksfólki sé ekki verið að hygla á kostnað þekkingar og fagmennsku. Við verðum að geta treyst því að kærleikur sé með í öllum ákvarðanatökum er varða framtíð okkar. 

En við verðum líka að sýna þeim sem eru að gera sitt besta við að hreinsa til og bæta samfélagið að við getum fyrirgefið þeim þegar þau gera mistök. Borgarstjórinn í Reykjavík sagði á faceboksíðu sinni í vikunni að „mistök væru forsendur breytinga og framfara“. Og í framhaldi af því talaði hann um að stjórnmálafólk væri hrætt við að vera mistök og að því yrði að breyta. Ég er sammála þessu. En það er ekki skrýtið að þau sem kosin hafa verið til þess að stjórna landinu séu hrædd við að gera mistök. Svo mörg afgerandi mistök hafa verið gerð síðustu ár. En ég held að mistök séu ekki vandi íslensks stjórnmálafólks heldur er það hroki. Of mörg þeirra er stjórna þessu landi og kannski sérstaklega þeirra sem stjórnuðu landinu á þensluárunum voru uppfull af hroka og viðurkenndu því aldrei mistök. Mér finnst þetta aðeins vera að breytast og þessu verður að breyta. Stjórnmálafólk verður að geta viðurkennt mistök og leiðrétt þegar þau koma í ljós. Ég held að hroki faríseans (sem virtist svo fullkominn og flottur á yfirborðinu) hafi ráðið ríkjum of lengi á Íslandi. Ég vil sjá meiri auðmýkt þeirra er fara með vald, hvort sem það eru stjórnendur fjármálastofnanna, fyrirtækja eða pólitíkusar. Ég held að við getum gert samfélagið okkar svolítið betra ef við sýnum hvert öðru meira umburðarlyndi og gerum hvert öðru auðveldara fyrir að iðrast og biðjast afsökunar þegar okkur verða á mistök. Innst inni erum við öll bara manneskjur hvað sem launaumslagið, útlitið eða staða okkar gefur til kynna. Við förum öll jafn fátæk úr þessum heimi og erum því innst inni hvorki betri né verri en náungi okkar, hver sem hann er og hver sem örlög hans verða. Sýnum því umburðarlyndi og horfum framhjá umbúðum sem við pökkum okkur inn í, hvert og eitt. Það gerði Jesús. Það gerir Guð! Amen.