María mey er á vissan hátt holdgervingur kirkjunnar. Erindi þeirra beggja er raunar hið sama, að koma Jesú í heiminn. Og í dag er boðunardagur Maríu, þá minnumst við þess er engill Drottins vitjaði stúlkunnar ungu og færði henni fréttir sem ekki einungis breyttu lífi hennar heldur lífi allra manna.
Sérhver kona sem fætt hefur barn, þekkir þær tilfinningar sem taka völdin í átökunum, hún þekkir þjáninguna, vanmáttinn og jafnvel óttann þegar sársaukinn verður yfirþyrmandi og engin leið að snúa til baka. Oft hef ég heyrt konur segja hlægjandi frá ósjálfráðum viðbrögðum sínum í miðri fæðingu þegar átökin hertust til muna, sumar tilkynntu jafnvel að þær væru hættar við meðan aðrar hreyttu ókvæðisorðum að makanum. En þegar fæðing er farin af stað þá er ljóst að það verður aldrei snúið til baka, sársaukinn er fyrirboði nýrra tíma, breyttrar lífssýnar, nýrra tilfinninga, aukinnar ábyrgðar. Ef til vill má segja að fæðing hvers barns og þar með tilvera fjölskyldunnar sé smækkuð mynd af því sem gerðist þegar Jesús kom inn í þennan heim. Allt breyttist, til frambúðar, veruleikinn varð einn og allar neikvæðar tilfinningar og gjörðir, voru afhjúpaðar í eitt skipti fyrir öll, þær voru ekki afgreiddar heldur afhjúpaðar þannig að hvar sem orð Guðs væri að verki gæti ljósið skinið í myrkrinu, sama hversu nístandi dimmt það væri, lífið var komið til að vera.
Kirkjan er oft stödd í fæðingarhríðum, hún verður líka hrædd, þjáð og vanmáttug, en hún sækir fram eins og hvítvoðungurinn og innst inni veit hún undur vel að það verður aldrei snúið til baka. Ég á sjálf tvö börn og ég man báðar fæðingarnar mæta vel, ég var lánsöm, allt gekk að óskum og í fangið fékk ég tvo hrausta stráka með sex ára millibili, ekkert inngrip, allt hafði sinn tíma og nokkrum klukkustundum síðar fór ég heim, raunar í bæði skiptin enda engin ástæða til að halda hraustri móður inn á spítala. En það sem þó skildi á milli þessara tveggja fæðinga, var sársaukinn og þanþolið gagnvart honum, í fyrra skiptið var ég í góðu jafnvægi, vel hvíld og glöð, í seinna skiptið var vika liðin frá útför föður míns, ég var uppgefin, sorgmædd og kvíðin. Og sársaukinn var yfirþyrmandi, lamandi, nístandi og ég man að ég varð í fyrsta sinn á fullorðinsárum verulega óttaslegin, mér fannst ég ekki ráða við aðstæður mínar og ég upplifði mig yfirgefna, kannski í þetta eina skipti á ævinni, þrátt fyrir að í kringum mig væru bara englar í mannsmynd. En svo kom þetta barn í fang mér, hann Jónatan Hugi og ég horfði í galopin augu hans og fann að örvæntingin dvínaði og guðlegur friður hvíldi yfir okkur báðum þar sem við lágum örmagna eftir átökin. Það er víst staðreynd að sálrænn og tilfinningalegur sársauki hefur áhrif á líkamlega líðan og þrótt, við þekkjum það öll og það þekkir kirkjan líka. Hún þekkir mismunandi fæðingar, hún þekkir það að vera í jafnvægi þrátt fyrir átök og svo þekkir hún hitt að vera vængbrotin í slíkum aðstæðum og það er tvennt ólíkt. En hún á líka þá reynslu, eins og sérhver móðir að upplifa ávöxt erfiðisins vera sársaukanum yfirsterkari, það skiptir öllu máli því sú staðreynd eflir hana að visku og náð og hugrekki, kirkjan á að vera hugrökk, ekki fífldjörf heldur hugrökk, tilbúin að mæta óttanum og takast á við hann.
María mey, holdgervingur kirkjunnar, hún var manneskja sem fékk óvænt það hlutverk að koma Jesú í heiminn, við aðstæður sem voru allt annað en auðveldar. Við þekkjum mæta vel þá frásögn, jólaguðspjallið sem segir frá erfiðri för parsins unga frá Nasaret til Betlehem og síðan þær aðstæður sem þau urðu að láta sér lynda við fæðingu barnsins. Þau voru ung og óreynd, efins um tilfinningar hvors annars, kvíðin og þreytt en þau sneri ekki við, þau héldu áfam án þess að líta um öxl og þau komu barninu í heiminn og þau flúðu með barnið og þau bjuggu á ókunnum slóðum uns þau fengu fregnir um að þeim væri óhætt að snúa heim. Þau voru hugrökk, ekki í þeim skilningi að þau óttuðust ekkert, heldur í þeim skilningi að þau tókust á við ótta sinn og ávöxtur þess var sá að Jesús Kristur óx upp til að vera sá sem hann varð og er og verður um eilífð.
Hugrökk kirkja er heilbrigð kirkja og heilbrigð kirkja er kirkja sem gerir ótvírætt gagn, kirkja sem hefur gengið í gegnum margar og mismunandi fæðingar. Kirkjan er að styrkjast, áður en kreppan skall á með öllum sínu afli, hafði kirkjan gengið í gegnum margar kreppur en hún hefur þó þrátt fyrir allt valið að snúa aldrei við heldur takast á við hríðarnar og sársaukann og þannig hefur hún leitast við að viðhalda heilbrigði sínu og vera sú kirkja sem myndar hring í kringum Jesú Krist, sú kirkja sem leita svara í miðjunni, leyfir Jesú að hafa orðið. Í dag upplifi ég að kirkjan standi styrkum fótum í tilveru sem einkennist af átökum, endurmati og sársauka og mér finnst að hennar eigið endurmat sé að skila sér í styrkleika sem er að gagnast samfélaginu öllu, í þeirri upplifun er fólgin von. Kirkjan og samfélagið þurfa reglulega að fæðast að nýju, stundum eigum við erfitt með að skilja tilganginn, rétt eins og Nikódemus gamli í Jóhannesarguðspjalli sem hélt að hann þyrfti að snúa aftur í móðurkvið til að fæðast af andanum, en það er sístæður veruleiki sem getur líka kallast þroskaskref eða þroskagróði, nema hvort tveggja sé.
En vitum líka að það getur ýmislegt farið úrskeiðis við fæðingu, í dag er íslenska þjóðin stödd í hríðarkófi, hún bíður dóms í formi rannsóknarskýrslu sem virðist aldrei ætla að birtast, sem er vont vegna þess að óvissan dregur mátt úr fæðandi samfélagi, gerir okkur óörugg og það sem verra er, tortryggin, við erum nefnilega gríðarlega tortryggin í dag og það er að lama samtakamátt okkar, við erum að ala upp kynslóð sem fer hreinlega að trúa því að tortryggni sé dyggð eða a.m.k merki um gáfur og að fyrirvaraleysi gagnvart fólki beri vott um heimsku. En hugsaðu þér ef Jesús hefði alltaf verið tortrygginn? Hverju hefði hann komið til leiðar? Hann hefði eflaust ekki dáið á krossi en hann hefði heldur ekki gert lífið að sigurvegara, það er alveg á hreinu. Og enginn hefði lært að þekkja návist hans eða réttlætið. Já réttlætið mun aldrei sigra með tortryggni að vopni, tortryggni vinnur nefnilega gegn tengslum og tengsl er það sem gerir lífið svo óendanlega dýrmætt, tengsl vekja með fólki réttlætiskennd og löngun til að láta gott af sér leiða, löngun til að vera gefandi manneskjur, allt hangir þetta jú á sömu spýtunni.
Það er dálítið merkilegt til þess að hugsa að fyrir hrun þegar spillingin bjó óáreitt til ósýnilega múra milli manna og hver og einn var sinn eigin gæfu smiður, þá var ekki talin þörf á að spyrja spurninga, sá sem vogaði sér út á slíkar brautir var í besta falli talinn krúttlegur í versta falli brjálaður. En í dag þegar sannleikurinn lýkst upp í takti við rísandi sól, þá er engum talið treystandi. Tortryggni er að verða okkar versti óvinur. Og nú er þjóðin í miðjum fæðingarhríðum að koma hinu nýja lífi inn í samfélagið og það er einmitt núna sem ekkert má fara úrskeiðis, allir verða að vera vakandi, handtökin fumlaus og snör, tengslin verða að vera góð og samstaðan heil.
Kirkjan er tilvalin ljósmóðir við þessa fæðingu, hún býr yfir aldalangri þekkingu og reynslu til að miðla við erfiða fæðingu, hún býr yfir boðskap sem leitast við að fullnægja öllu réttlæti og hún býr yfir sakramentunum tveimur, skírn og altarisgöngu sem eru til þess fallin að auðmýkja manneskjuna og koma henni í skilning um að samfélagið er hringborð en ekki stúka, enginn kaupir sér aðgang að sakramentinu, þar gilda ekki lögmál markaðarins, sakramentið þiggur hver og einn fyrir náð og miskunn Drottins, þar er allt upp á borðum, engin leynd og engin tortryggni, samfélag kirkjunnar grundvallast og þrífst á trausti. Við altarið sannast nefnilega orð Páls úr Galatabréfinu hvað best, “Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú:” En kirkjan býr líka yfir reynslu af því að rannsaka mannlega hegðun og tilfinningar og spegla þær í orðum Krists og kirkjan þekkir það að fæðast að nýju og að endurmeta hlutverk sitt á hverjum tíma þó að Kristur sé ávallt hinn sami. Og kirkjan þekkir það að sjá manneskjur öðlast trú og rísa til lífs, kirkjan sér anda Drottins að verki hvern einasta dag og þess vegna býr hún yfir hinni líknandi von sem gerir allan sársauka og áreynslu léttbærari, vonin er það sem gefur þjáningunni tilgang, fullvissa um að þjáningin sé ekki viðvarandi ástand heldur varða á leið til þess lífs sem verður heilagt og gott.
María mey er vissulega holdgervingur kirkjunnar, hún var hugrökk, hún geymdi orð engilsins í hjarta sínu sem sögðu henni að þrátt fyrir allt nyti hún ætíð náðar Drottins og blessunar, hún treysti þeim orðum af fölskvalausu fyrirvaraleysi og uppskar ávöxt erfiðisins sem enn er að verki og sækir fram hvern einasta dag, hverja einustu stund. Guð gefi okkur hugrekki Maríu meyjar, að við megum skapa hér mannvænlegt samfélag, já Guð gefi okkur vit svo við megum horfa fram en ekki snúa til baka í örvinglan.