Á
föstudaginn langa stöndum við í skugga krossins.
Þessi
ógnardagur ber í sér handtökuna, dóminn, pyntingarnar, krossfestingu og orð
Jesú á krossinum. Guð minn hví hefur þú
yfirgefið mig.
Þessa sögu
segir Hallgrímur Pétursson og útleggur í Passíusálmunum. Hann leggur okkur flöt inn í píslarsöguna – hann færir atburðina til okkar
og setur okkur líka í samhengi með forfeðrum okkar og mæðrum er uppi voru á
hans tíð, á sautjándu öld.
Passíusálmarnir
geyma í sér vitnisburð um mannlega grimmd, um harðneskju heimsins, hversu lánið
er valt, og líka gæsku og góðvild manna.
Um baráttu ills og góðs, um átök myrkurs og ljóss, og hvernig við menn erum oft
eins og skopparakringlur þar á milli.
Eitt
skýrasta dæmið um það er þegar Jesús hefur verið handtekinn og Pétur lærisveinn
stendur álengdar fjær og ornar sér við kolaeldinn. Hann hafði haft um það stór
orð að aldrei myndi hann afneita meistara sínum. En það var lífshætta að vera
hans og áður en haninn gól tvisvar hafði Pétur tvívegis afneitað Jesú frá
Nasaret í tvígang.
Pétur með
sturlun stærsta – segir Hallgrímur um andlegt ásigkomulag Péturs. Hvar er sturlunin stærsta nú ?
En um
afneitun Péturs yrkir Hallgrímur eitt sitt sterkasta vers og útleggur yfir á
sjálfan sig og okkur öll. Við erum svo
veik og óstyrk, þrátt fyrir fögur áform og góðan ásetning; það er oft svo
erfitt að breyta rétt, svo freistandi að hlaupast undan merkjum, gera ekki hið
góða sem við viljum en gera þess í stað hið vonda sem við viljum ekki.
Hallgrímur
segir:
Krossferli
að fylgja þínum
fýsir mig
Jesú kær
Væg þú
veikleika mínum,
þó verði ég
álengdar fjær.
Þá trú og
þol vill þrotna
þrengir að
neyðin vönd
reis þú við
reyrinn brotna
og rétt mér
þína hönd.
Þannig
þurfum við hans. Hönd hins krossfesta og upprisna, að við verðum sönn og heil
og reynum upprisu okkar sjálfra.
Göngum á hólm við sálarkröm og myrkrið sem vill búa um sig í okkur, lama okkur og blinda sýn okkar á bjálkann í eigin auga þó svo við sjáum glöggt flísina í auga náungans.
Rétt þú mér þína hönd. Hönd drottins þurfum við nú. Að hún strjúki blindu frá augum okkar, að við sjáum glöggt og skiljum hvað það er að vera maður.
Hvað er það
dýrmætasta sem við eigum? Það er mennskan, að finna til með öðrum, gefa,
þiggja; fara með öðrum um dimman dal.
Þetta kenndi
Jesús. Hann var ekki mikils metinn maður
á sinni tíð, ekki heldur postularnir Pétur og Páll. Í augum heimsins voru þeir ekki neitt. Teknir
og aflífaðir eins og ótíndir glæpamenn.
Þannig áttu þeir að hverfa og valdsmennirnir sem drápu þá hafa sjálfsagt
skálað og fagnað yfir vel unnu verki.
En þeir
hurfu ekki. Orð þeirra lifðu af á einhvern ótrúlegan hátt. Kraftaverk. Og
frumkirkjan, þessi fámenni hópur sem aldrei hvikaði, andspænis ofsókn og dauða
breiddi orð þeirra út um heimsbyggðina, sem varð ekki söm eftir. Ekkert hefur breytt heiminum meir en Jesús og
klíka hans.
Valdsmennirnir,
sem ríkja í krafti auðs og vopna, með grimmt hjarta, þeir koma og fara; ríkja
um stund í gylltum ljóma, fara með himinskautum í valdhroka sínum og yfirlæti,
hverfa svo sundraðir inn í gleymskuna.
Hvað lærum
við af faraldrinum ? Eitthvað um
mennskuna kannski ? Og hvað er þá
mennska? Er það ekki eitthvað sem er í
öllum mönnum?
Mennskan er
eitthvað sem við getum nært og ræktað með því að telja daga okkar, þekkja hvar
mörk okkar og geta liggja, eiga auðmýkt í hjarta; kunna að telja daga okkar svo
við eigum viturt hjarta.
En
mennskunni er hægt að glata; fleygja henni út í tómið og láta fjúka burt. Það
er auðvelt þegar gróðagræðgin og sérgæskan slær augu okkar blind. Náunginn sem við eigum að elska verður eins
og akur sem við tætum upp, plægjum til
að sá í okkar korni svo við höfum nóg, ofgnótt, allt of mikið.
Skylda okkar
sem samfélags, líkt og við hjúkrum hinum veiku, að allir taki á sig byrðar
vegna þeirra efnahagsþrenginga sem óhjákvæmilega verða.
Þannig erum
við erum byrjuð í stóru prófi, æðruleysisprófi. Prófi sem reynir á mennsku
okkar. Í þessu prófi getum við ekki
svindlað.
Ef við
skiljum að kærleikur og miskunnsemi er hreyfiafl heimsins þá eigum við sanna
mennsku, þá erum við óendanlega rík, fyllt gæðum og getum látið aðra
njóta. Þá erum við líka laus undan einsemd
ofgnóttarinnar. Drottinn Jesús segir: .... Hvað stoðar það manninn að eignast
allan heiminn og glata sálu sinni....
(Mt.16)
Rétt þú mér
þína hönd. Við þurfum hönd hins upprisna
Drottins að hann opni augu okkar fyrir þeim sannindum, að það er blekking, að
völd og fjármagn í höndum okkar áorki meiru til góðs en kærleikur og
miskunnsemi.