Fyrirferðarmikil er framganga hins gamla manns á kirkjuþingi. Einkenni slíkrar framgöngu og framkomu er til dæmis að uppnefna fólk, hafa að engu gild málefnaleg rök og brjóta trúnað og fundarsköp til að snúa á fólk og bregða því.
Sumum finnst framkoma sem þessi töff og eftirtektaverð. Finnst slík framganga góð leið til að ná sínu fram og finnst það merki um árangur í starfi.
Ofbeldi er hugtak sem nær utan um slíka framgöngu. Slík framganga er niðurlægjandi fyrir fólk, eykur hættu á að ákvarðanir séu teknar á röngum forsendum og stuðlar að því að lýðræði sé vanvirt.
Að vinnubrögð hins gamla manns séu fyrirferðarmikil á kirkjuþingi er umhugsunarvert. Kirkjan þarf síst á því að halda að ofbeldisleg framganga sé viðhöfð á kirkjuþingi, sem skal vera lýðræðislegur vettvangur, þar sem kirkjustarfinu er settur rammi.
Í gömlu riti, Kólussubréfinu í Nýja testamentinu, er talað um hinn gamla og hinn nýja mann. Textinn er tæplega 2000 ára gamall og hvetur ritarinn lesendur sína til að hverfa frá hinum gamla manni og íklæðast hinum nýja manni.
Friður, kærleikur, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi eru hugtök sem lýsa eiga hinum nýja manni.
Þau hugtök eru í takt við ákall samtímans um að karlmenn axli aukna ábyrgð á framkomu sinni og framgöngu.
Kirkjuþingskosningar verða á næsta ári. Það væri synd ef kirkjunnar fólk bæri ekki gæfa til þess að kjósa hinn nýja mann á kirkjuþing, því framganga hins gamla manns á ekkert skylt við fagnaðarerindið.
Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu laugardaginn 18. nóvember s.l.