Forsetakosningar afstaðnar, úrslitin liggja fyrir, nýr forseti flytur senn að Bessastöðum. Kosningabaráttu er lokið, og nú sameinumst við um niðurstöðuna. Brátt fáum við, betur og betur, að kynnast nýrri rödd, nýju andliti, nýjum sjónarmiðum í forsetanum okkar. Það eru spennandi tímar framundan.
Það liggur eftirvænting í loftinu á Hólastað: Landsmótið er að hefjast á morgun, og nú þegar iðar allt á mótssvæðinu.
Og strax á morgun, mánudag kl. 19, er leikurinn, fótboltaleikur Íslands og Englendinga, í Níss, eilíf borg fegurðarinnar er hún kölluð, á Alpaströndinni við Miðjarðarhaf. Það er svo sannarlega eftirvænting, já, það er spenna í loftinu. Líklega hafa Íslendingar aldrei leikið mikilvægari fótboltaleik. Og þótt fótbolti sé bara leikur, er mönnunum mikilvægt að taka þátt í leik. Leikur er barna yndi, segir máltækið, en hann er okkur fullorðnum líka nauðsynlegur. Hvíldardagurinn er okkur gefinn til að geta gefið leik og samfélagi rúm í lífi okkar. Það er spennandi dagur framundan, leikdagur.
Þessi árstími, stundum kallaður gúrkutíð í heimi fjölmiðlunum, er sannarlega engin lognmolla hvað tíðindi varðar, og samsamar sig ekki lognmollunni í veðrinu í okkar landshluta undanfarnar vikur. Forsetafarmbjóðendur hafa keppst um að dásama land okkar og samfélagið sem hér hefur orðið til, og það er sannarlega þakkarefni, bæði fallegt og gjöfult land, friðsæl og hjálpsöm þjóð, með heilbrigða og vonglaða trú, á sjálfa sig og framtíðina.
Ég hefði auðvitað viljað geta sagt trú á Guð, en það á ekki við, nema um trú í mjög víðri merkingu. Persónuleg trú á kærleiksríkan Guð sem grípi inn í tilveru okkar er eitthvað sem, því miður, aðeins hluti þjóðarinnar er tilbúinn að taka undir.
En hver er andstæðan við trú á Guð? Er það trúleysi? Er það vantrú? Er það efi?
Mesta andstæða trúarinnar er að mínu mati ekki vantrú, heldur sinnuleysi. Tilgangsleysi, hirðuleysi, þegar orku og vilja vantar til þess, sem við teljum mikilvægt.
Allir finna einhverntíma fyrir tilgangsleysi. Það gerist þegar við upplifum mikla höfnun, í ástarsorg, í einmanaleik, þá getur veröldin hrunið. Við mikið áfall eða missi, að verða fyrir mikilli ógn, hryðjuverk og mannskæðum náttúruhamförum. Við slík áföll er mannlegri skynsemi og rökhugsun ofboðið, maðurinn orkar ekki að meðtaka það sem hann upplifir. Þá leysist heimsmynd okkar allt í einu í einhverri þoku, markmið okkar, vonir, draumar, gufa upp, óvissa tekur völdin, ótti og tilgangsleysi ráða ríkjum. Þá er kannski spurt, hvar eigi að setja viðmið, hvar eigi að draga mörk? En kannski er tilgangslaust að spyrja um slíkt, þegar ekkert skiptir lengur máli. Þetta er andstæðan við trú.
Símon Pétur og aðrir verðandi lærisveinar skoluðu úr netunum og gáfust upp: Þeir höfðu unnið hörðum höndum, en án árangurs, og tilgangslaust erfiði veiðimannsins er lýjandi. Mikil vinna tryggir ekki alltaf mikinn árangur. Pétur þurfti á árangri að halda. Daglegt brauð var ekki, og er ekki, gefins. Og hann þurfti líka árangur til að halda sjálfsmynd sinni og sjálfsvirðingu. Veiðar voru það eina sem hann kunni, ef þær skiluðu ekki árangri varð hann að fara að finna aðra vinnu. Veiðimaður sem ekki veiðir, er ekki lengur veiðimaður, heldur eitthvað allt annað.
Það sama gildir um alla drauma mannsins. Ef maður upplifir aldrei drauma sína rætast, dofnar lífsgleðin og lífslöngunin hverfur. Hvað verður um hugrekkið og áræðið til að breyta og koma því í verk sem mann eitt sinn dreymdi? Kannski heldurðu að þig vanti meiri tíma, meiri peninga, fleiri stuðningsmenn, réttu vinnuna, þá hefði þetta gengið betur. Kannski vöðum við enn í þeirri villu að þetta sé lykillinn að hamingjunni, kannski höfum við höndlað þetta, en finnum ekki ró og innri frið.
Pétur kastaði neti sínu í vatnið, án árangurs, og trú hans og von er horfin. Heima bíður fjölskyldan, en hann hefur ekkert að færa þeim, því að hann er orðinn tómur hið innra. Draumur lífsins er dáinn og hann tekur ekki áhættun á því að velta fyrir sér til hvers hann ætti að verja lífi sínu. Hann á þess ekki kost að fara á námskeið til að styrkja sjálfsmynd sína eða núvitund, fara á jóganámskeið eða kyrrðardaga. Í bókasafninu í Tíberías, sem var stærsti þéttbýliskjarninn á svæðinu, þar fundust engar sjálfshjálparbækur eða fjölskylduleiðbeiningar. Keisarinn sem borgin var kennd við, og Tiberias Júlíus hundraðshöfðingi, sem ríkti þar í krafti hans, lögðu meira upp úr skattheimtu en félagsþjónustu. Og þótt þær hefðu verið til, þá hafði Pétur enga orku lengur til að sækja þær og gera breytingu á lífi sínu. Kannski hefur hann ekki einu sinni orku til að fara í helgidóminn, þótt það myndi gera honum gott að dusta rykið að barnatrúnni, því „þangað fara víst bara gamalmenni og börn“ segir fólkið, „að hlusta á gamlar kynjasögur og úrelta sálma, sem koma mér og mínu lífi við.“
Jú kæru vinir, þessar gömlu sögur koma lífi okkar við. Við þurfum á því að halda að vera minnt á að biðja, svo okkur sé gefið, leita, svo við megum finna, knýja á, svo að fyrir okkur verði upp lokið. Við þurfum einfaldlega á því að halda að vera minnt á að trúa, og vona, og að elska. Við megum ekki tréna í vissunni um að Guð elskar okkur og blessar og hefur trú á okkur til að fylgja Kristi í anda og sannleika.
Hvað haldið þið að þjálfarinn segi við leikmenn landsliðsins í búningsklefanum fyrir leik? Einhverja nýjar leikfléttur eða ný hvatningarorð? Nei, það eru endurtekningar á því sem sagt var á æfingum og í leikjum, áminningar sem þarf að festa í sessi fyrir hvern leik. Það er ekkert öðruvísi en það sem við þurfum að sækja okkur hvern helgidag, hvern morgun og hvert kvöld, og hvenær sem við finnum okkur stund til að þakka, biðja og lofa.
Það er erfitt að treysta því án afláts að við séum elskuð og þurfum ekki að gera allt sjálf, og að ef við treystum kærleiksríkum Guði þá þurfum við ekki að vera okkar eigin gæfu smiðir. Stærsta augnablikið í lífi Símonar Péturs gerðist kannski á versta degi lífsins, þegar hann veiddi ekkert, og Jesús mætti til að segja honum að reyna enn, og netin ætluðu í framhaldinu að rifna undan aflanum. Pétur lagði traust á orð Jesú, þennan morgun, og alltaf síðan. Hann varð kletturinn, bjargið sem Kristur treysti til að gerast framstur mannaveiðari, gerast lærisveinn og breiða út fagnaðarerindið um Jesú Krist. Því Guð sendi ekki bara boðskap, hann sendi sinn son, já, og heilagan anda friðar og huggunar, sem sigrar eða gefur sigur, yfir vonleysi og sinnuleysi.
Símon Pétur fær köllun. Til að heyra köllun sína þarf maður að deyfa hávaðann í kringum sig, geta hlustað, sýnt þolgæði og langlundargeð og úthald og leyfa sínum innri manni að vaxa og þroskast.
Við höfum líka verið kölluð. Í skírninni erum við nefnd með nafninu okkar fríða, sem við berum æ síðan, og nafninu fylgir fyrirheit um samfylgd Krists, sem skjöld okkar og brynvörn gegn hættum. Það koma góðir tímar, og það koma slæmir tímar. Jesús er um borð í lífsfleyinu okkar og biður okkur að sigla í sínu nafni, og gerast þátttakendur í sögu Guðs, hjálpræðissögu Guðs með mönnunum. Ekki sem aukaleikarar, heldur þeir sem leika aðalhlutverkið í því að benda á Krist. Eins og sjálfir spámennirnir gerðu, og síðan Jóhannes skírari, og loks postularnir.
Það eru góðir tímar, það eru slæmir tímar. Það er bjart yfir landinu, í mörgum skilningi. Það eftirvænting, vongleði, gleði. En það eru líka vonbrigði, niðurlæging, tár og sár. Það er alltaf gott að lifa í eftirvæntingu, missa aldrei trúna sem okkur einhverntíma var gefin, eiga alltaf trú á að það hafi tilgang að leggja á djúpið eftir Drottins orði. Gerum orð þjóðskáldsins að okkar (Matthías Jochumsson):
Ef trú og dáð og dugur ei þig svíkur, er Drottinn lífs þín ennþá nógu ríkur, og mild hans mund.
Amen.
Predikun við messu á Hólum í Hjaltadal 26. júní. Kór Víðidalstungukirkju söng, organisti Elinborg Sigurgeirsdóttir.