Dómsdegi frestað

Dómsdegi frestað

Fyrsta nóvember átti rannsóknarnefnd Alþingis um ris og hrun íslensku bankanna að skila áliti. Þá hefðu margir orðið að standa reikningsskap gerða sinna, horfast í augu við verk sín og meta hvort þeir hafi á undangengnum árum látið stjórnast af réttsýni eða orðið að ginningarfíflum gullsins. Nú hefur stundu sannleikans verið frestað um þriðjung úr ári.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
30. október 2009

Þráður

Við sjónarrönd tímans hillir undir eitthvað sem kristnir menn kalla dómsdag. Atburðir hans eru tjáðir með ýmsum myndum. Í hverju þeir muni felast er okkur annars hulið. Dómsdagur er enda hluti eilífðarinnar. Boðskapur um dóm á efsta degi felur þó í sér áminningu sem á erindi við okkur hér og nú. Hann minnir okkur á að við erum verur sem eru kallaðar til ábyrgðar. Við verðum eitt sinn vegin á kvarðann Rétt og Rangt.

Öll höfum við lifað forsmekk að þessum degi. Samviskuspurningu hefur einhvern tíman lostið niður í huga okkar og við fundið okkur dæmd — eða fengið tækifæri til að marka okkur nýja stefnu. Slíkar stundir verða vörður á vegi okkar, gera okkur þroskaðri karla og konur sem leggja sig fram um að lifa betur, þjóna öðrum og gæta að Guði. Slík ögurstund beið margra um þessi mánaðamót. Nú hefur henni verið skotið á frest.

Fyrsta nóvember átti rannsóknarnefnd Alþingis um ris og hrun íslensku bankanna að skila áliti. Þá hefðu margir orðið að standa reikningsskap gerða sinna, horfast í augu við verk sín og meta hvort þeir hafi á undangengnum árum látið stjórnast af réttsýni eða orðið að ginningarfíflum gullsins. Nú hefur stundu sannleikans verið frestað um þriðjung úr ári. Fyrsta febrúar mun „dómurinn“ falla. Þá munu þeir sem voru gerendur í efnahagslífi þjóðarinnar verða að svara til saka fyrir þátttöku sína í Hrunadansi Hrunsins. En hver mun ásaka: rannsóknarnefndin, sérstakur saksóknari, þjóðin? Hvernig sem við svörum þeirri spurningu mun einn ákærandi verða öðrum óvægnari í máli hvers útrásarvíkings, bankamanns, pólitíkusar eða eftirlitsaðila; samviskan í hans eigin brjósti — eða hennar, nema hjá þeim sem eru öllum heillum horfin og hafa gleymt kröfu lífsins um að lifa í elsku og mennsku. Þau munu enga sök finna og keppast áfram við að hámarka gróðann sjálfum sér og öðrum til ills. Bara að þau verði fá!

Við hin sem lékum aukahlutverk eða vorum „statistar“ í kassastykki þensluárannna megum þó ekki gleyma okkar þætti. Við lifðum kannski ekki góðærið en urðum þó hluti af munstri. Smituðumst við ekki af hugsun kapítalistanna og gildismati? Verðum við ekki líka að lifa okkar dómsdag? Gætum okkar á að falla ekki í far þess sem telur sig betri en aðra. Þreytum þess í stað þriggja mánaða iðrunargöngu inn í vaxandi skammdegi, um komandi aðventu, jól, áramót og fram á þorra. Við skulum prófa okkur sjálf af einurð og meta hvort við höfum fylgt lífsstefnu samstöðu eða sjálfhyggju. Nú gefst öllum tækifæri til að snúa við. En munum að slíkt verður ekki auðvelt eða gert í orði einu. Ábyrgð verður aldrei tekin frá okkur. Við verðum að sættast við okkur sjálf og þau sem við höfum brugðist — hugsanlega heila þjóð. Við verðum að skila því sem við höfum tekið ranglega og ávinna okkur traust að nýju. Iðrun og dómur hafa endaskipti á hlutunum: lægja tignarmenn en upphefja smælingja. En munum að sá Guð sem vakir að baki dómsins er ekki guð reiði, hefndar og haturs heldur Guð elsku og vonar.